Kuldi áfram

Fyrri hluti desember hefur verið kaldur á landinu. Kaldastur að tiltölu þó um landið vestanvert þar sem litlu munar að hann fari að slá hinum eiturkalda desember 2011 við. Þótt ekki sé hægt að segja að hlýtt hafi verið eystra vantar það landsvæði enn talsvert á að jafnist á við kuldann fyrir þremur árum.

Og kulda er spáð áfram - þó er tíu daga spá evrópureiknimiðstöðvarinnar heldur mildari í dag en hún var fyrir nokkrum dögum. Sjá má spána á kortinu hér að neðan.

w-blogg161214a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins dagana 15. til 25. desember eru heildregnar. Jafnþykktarlínur eru strikaðar - harla daufar en sjást ef vel er að gáð. Það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem liggur um landið þvert. Það er ekki sem verst í desember - en boðar samt ekki nein hlýindi. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Litafletirnir sýna vik þykktarinnar frá meðaltalinu 1981 til 2010. Bláu litirnir sýna þykkt (og þar með hita) undir meðallagi, en brúnu og rauðu litirnir svæðin þar sem hlýrra er nú heldur en að jafnaði á 30-ára tímabilinu. Talan yfir landinu austanverðu er -50,5 metrar. Þar telur líkanið að neðri hluti veðrahvolfs sé um 2,5 stigum kaldari heldur en að meðaltali. Neikvæðu vikin eru minni vestar og norðar á landinu. 

Hér er verið að spá hita undir meðallagi á landinu næstu tíu daga (fram til jóla). Ekki er það þó þannig að jafnkalt verði allan tímann - sumir dagar verða hlýrri en aðrir kaldari. 

Við skulum taka sérstaklega eftir kuldavikinu mikla við Vestur-Grænland, svo virðist sem Grænlandsjökull hindri framrás þess til okkar. Og þannig er það í spánum að Grænland á að verja okkur frá versta biti heimskautakuldans næstu dagana. Það er ekkert sérlega kalt þessa dagana yfir Norðuríshafi - og nokkra daga tekur að koma kulda þangað. Norðan eða austan Grænlands er hann í mun betri stöðu til að ógna okkur.

En vestankuldi sá sem við erum nú að berjast við er leiðinlegur fyrir það að honum fylgir mikill órói. 

Að undanförnu hefur verið fylgst lítillega með ástandi hitamála frá degi til dags á fjasbókarsíðu hungurdiska. Óvíst er hvernig þrek ritstjórans endist á næstunni. - En þeir forvitnustu geta reynt að fylgjast með. Þar er einnig rými til athugasemda (ekki þó skítkasts). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

AHA! Hverjum dytti það í hug á þinni síðu? Spáði í veðrið við son minn í gær,sem býr fyrir austan fjall,en sækir vinnu í Hafnarfjörð. Hann skoðar veðrið á netinu,en ég sagðist kíkja á Trausta síðu. Nú langar mig að vita hvaða fyrirbæri er "Hungur diskar",þótt hafi einusinni lesið það man ég það ekki,þar með gæti ég frætt krakka-gepilinn, sem veit allt annað betur en ég,já í orðsins fyllstu merkingu.

Helga Kristjánsdóttir, 16.12.2014 kl. 22:01

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hungurdiskar er annað nafn á lummuís. Jón Eyþórsson veðurfræðingur var líklega fyrstur til að nota orðið í þessari merkinug en það kom fyrst fyrir á prenti í ljóði Matthíasar Jochumssonar, Hafísinn, þar var það í almennari merkingu, hafísjakar. Efst á fjasbókarsíðu hungurdiska (opinn hópur) er teikning af hungurdiskum eftir Friðþjóf Nansen.

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

Bestu þakkir fyrir áhugann.

Trausti Jónsson, 16.12.2014 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 188
  • Sl. sólarhring: 393
  • Sl. viku: 2013
  • Frá upphafi: 2350749

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 1799
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband