Kuldatíð framundan? - hraðfara lægðir?

Ef trúa má reiknimiðstöðvum stefnir í mikla kuldatíð - og nokkra spennu varðandi aðkomu illviðra að henni. Lægðir eiga að fara mjög hratt til austurs - flestar þó fyrir sunnan land - en sumar e.t.v. yfir það. Helgarlægðin virðist vera í síðari flokknum en reiknimiðstöðvar koma sér ekki saman um hversu illskeytt hún verður - við gætum sloppið sæmilega vel. En ástæða ósamkomulagsins sést vel á fyrsta korti dagsins. Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 300 hPa-fletinum síðdegis á föstudag 12. desember. 

w-blogg111214a

Heildregnu línurnar sýna hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Við erum ekki fjarri 9 km hæð. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstyrk og stefnu - en auk þess er vindstyrkurinn sýndur í lit þar sem hann er meiri en 40 m/s (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). Mikill vestanstrengur fylgir lægðardragi sem er að koma yfir Grænland og til móts við hann kemur annar strengur úr suðvestri - frá Nýfundnalandi. 

Eitt og sér býr lægðardragið til myndarlega lægð yfir Grænlandshafi  strax á aðfaranótt laugardags - sú lægð fer hratt til austurs yfir landið og trúlega blotar skamma hríð - alla vega sunnanlands. En svo virðist nú sem suðvestanröstin komi aðeins of seint á stefnumótið og dregur með því mjög úr líkum á því að illa fari - norðanáttin að baki laugardagslægðarinnar yrði því skammvinn og ný lægð - mun minni kæmi strax til sögunnar strax síðdegis á sunnudag - ekki svo óæskilegt fyrst staðan er af þessu tagi á annað borð. 

En stefnumótum vestlægra og suðlægra vindrasta er ekki þar með lokið - heldur verða þau reynd hvað eftir annað næstu vikuna. Kostirnir eru ekki sérlega góðir - fari rastirnar á mis sitjum við aðallega í kulda - kannski ekki sérlegum stormviðrum - en slái þeim saman - með hlýrra veðri - vill það kosta umtalsverðan skít.

En í dag (miðvikudag 10. desember) halda reiknimiðstöðvar með kuldanum og það svo að manni verður eiginlega um og ó. - 

Það sést vel á báðum 10 daga spákortunum hér að neðan. Það fyrra sýnir meðalsjávarmálsþrýsting næstu tíu daga - fram til 20. desember og hita og hitavik í 850 hPa fletinum.

w-blogg111214b

Hér má sjá mjög eindregna norðanátt með kulda. Við norðurströndina reiknast vikið -6 stig, en -4 stig sunnanlands. Þetta er mikið og ekki er útlitið betra á þykktarvikaspánni. 

w-blogg111214c

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, strikalínurnar meðalþykktina og þykktarvik eru sýnd í lit. Vikið yfir landinu er -130 metrar - það reiknast um -6,5 stig í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5130 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið. Það má upplýsa að meðalþykkt í desember 2011 var um 5170 metrar (2 stigum hlýrri) og í desember 1973 var hún um 5180 metrar. Þetta eru tveir köldustu desembermánuðir sem við eigum á lager á tíma háloftaathugana.

Áður en við förum að æsa okkur yfir þessum tölum skulum við muna að þegar eru liðnir 10 dagar af mánuðinum og meðalþykkt þeirra er 5210 metrar. Meðaltal 20 fyrstu dagana ætti því að vera um 5170 metrar - eða sama og í öllum desember 2011. Eftir það eru 11 óráðnir desemberdagar - sem við vitum ekkert um. 

Nú - svo vitum við það að líkönin eru ekki alveg nægilega dugleg við að taka til sín varma úr hlýjum sjó - miðað við raunveruleikann - sérstaklega á það við í hvössum vindi. Gallinn er sá að sá varmi gæti skilað sér í meiri éljum og snjókomu heldur en líkönin reikna með.

Það má líka benda á að við vesturjaðar þykktarvikakortsins má sjá hvítt svæði - þar hafa hlýindin sprengt kvarðann og þykktin reiknast meir en 240 metrum yfir meðallagi. Gægist maður vestur fyrir kortið kemur í ljós að spáð er fádæma hlýindum um miðbik Norður-Ameríku þessa daga, þykktin á að komast upp undir 5600 metra norður í Kanada. Sjáum það rætast - eða hvað?  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 83
  • Sl. sólarhring: 231
  • Sl. viku: 1048
  • Frá upphafi: 2420932

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 925
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband