Ofurlægðin við Aljúteyjar (og fleira)

Lægðin mikla við Aljúteyjar komst niður í 924 hPa. Lægsti mældi þrýstingur sem fréttist af var 929,8 hPa á bauju ekki langt frá lægðarmiðju (upplýsingar af bloggi Christopher C. Burt veðurmetabloggara). Lægðin er óvenjudjúp - nærri meti.  

Kortið hér að neðan sýnir lægðina í 6 klst spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gilti kl. 6 í morgun (laugardag 8. nóvember).

w-blogg091114a

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við -2 stig - en -6 stig á milli þeirra grænu og bláu. Fjólublái liturinn byrjar við -25 stig. 

Lægðin grynnist nú ört - en dregur jafnframt upp mikið magn af hlýju lofti á austurvængnum og verður það ríkjandi yfir Alaska næstu daga. Þarlendir telja hitamet jafnvel liggja í loftinu - en það er þó langt í frá víst. Hlýja loftið mun hins vegar stinga í stóru norðurslóðakuldapollana og öll hringrás norðurhvels kemst á ið. Þetta þýðir að framtíðarspár um veður hér á landi verða mjög óvissar - það sjást bæði óvenjuhlýir og óvenjukaldir dagar í framtíðarspánum. En - kannski jafnar þetta sig án tíðinda hjá okkur. 

En kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa sem gildir um hádegi mánudaginn 10. nóvember.

w-blogg091114b

Áttin er hér austlæg á landinu - einhver úrkoma eystra en þurrt vestanlands. Hiti í 850 hPa er á bilinu -5 til -9 yfir landinu. Það þýðir að víðast hvar er frost. Við megum líka taka eftir því að frekar stutt er í mjög kalt loft fyrir norðan land. Þar má sjá -20 stiga jafnhitalínuna norður af Jan Mayen. Vindur er þarna hægur og skilyrði nokkuð góð til hafísmyndunar. 

Lægðin stóra fyrir sunnan land á að bæta við sig nýjum lægðum - þá sem er suður af Nýfundnalandi á kortinu og líka þá sem er við Labrador - það er meira í hana spunnið en sýnist. Framhaldsspár virðast síðan sammála um að um síðir hlýni austanáttin mikið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Dutch harbour er ein af þessum "meta" stöðvum, ef ég hef lesið mér rétt til. Í sumar hitti ég skipstjóra sem er frá Dutch harbour og sá heitir Rick. Það er auðvelt að skrifa langloku um þann fund. En það er þó alveg ljóst, eftir hans sögur, að við getum litlu logið varðandi veður og sjólag á Íslandi miðað við þennan part af hnettinum.

Ef einhver vill fylgast með hvernig hlutir ganga fyrir sig þarna lang vestur frá: [url]http://www.ci.unalaska.ak.us/[url]

Ekki alveg klár með að slóðin skili sér....

Sindri Karl Sigurðsson, 9.11.2014 kl. 03:41

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka athugasemdina Sindri - svo vill til að í nýjustu útgáfu af „Alaska Weather Calendar (2015)“ er gerður samanburður á veðurlagi í Dutch Harbour og Vestmannaeyjum í „keppnisflokknum“ Windy, wet, cool all year" (skítaveður og kæla allt árið). Niðurstaðan er talin jafntefli. Meðalvindhraði í Vestmannaeyjum er þó talsvert meiri (enda miðar höfundur samantektarinnar við Stórhöfða en ekki kaupstaðinn). Meðaltöl eru furðulík, ársmeðalhiti er 4,9 stig í Dutch Harbour, en 4,8 í Vestmannaeyjum, ársúrkoma 1543 mm í DH en 1588 í Vm, úrkomudagar (>= 1mm) 190 á báðum stöðum. Það er Williwaw publishing sem gefur út: vefsíðar: williwaw.com [pósthólf publications@williwaw.com]

Trausti Jónsson, 9.11.2014 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 88
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1053
  • Frá upphafi: 2420937

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 930
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband