Á loftvogarvaktinni

Þótt hvassviðri séu leiðinleg getur verið gaman að fylgjast með hegðan loftvogarinnar í smáatriðum undir slíkum kringumstæðum. Á fyrri tíð voru engar tölvuspár og loftvogin mikilvægt spátæki - kvikasilfursloftvogir voru mjög óvíða til og spámenn notuðust við dósarloftvogir. Þær skástu gátu komið að miklu gagni - þá var bankað í vogina á 15-mínútna fresti (ef hreyfingin var mikil) og staðan rituð niður á millimetrapappír. Mátti þá sjá helstu þrýstikerfi fara hjá - jafnvel hin smæstu.

En nú segja tölvurnar okkur þetta allt fyrirfram - reyndar hafa þær ekki alltaf rétt fyrir sér og því síður eftir því sem þrýstikerfin eru smærri og lengra er spáð fram í tímann. Við lítum á 4 kort úr spárunu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi á mánudag 29. september. Þau sýna þrýstibreytingar næstu tvo sólarhringana. Þær eru býsna stórgerðar - miðað við smæð kerfanna.

w-blogg30914a

Fyrsta kortið gildir kl. 6 að morgni þriðjudags. Þá fer snarpasta kerfið hjá. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þykktin er sýnd með daufum strikalínum en þrýstibreyting síðustu 3 klst. er sýnd í lit. Rauður litur sýnir þrýstifall, en blár þrýstiris. 

Lægðin litla fyrir suðvestan land er mjög kröpp, þrýstingur fellur um nærri 18 hPa þar sem mest er á undan henni. Enda er fárviðri sunnan við lægðarmiðjuna - sé að marka spána. Við virðumst ætla að sleppa að mestu - en þó slær landsynningsstrengur sér inn á landið um það leyti sem kortið gildir og næstu klukkustundirnar þar á eftir. Önnur lægð (sú sem olli illviðrinu í dag - mánudag) er vestast á Grænlandshafi og sækir aðeins í sig veðrið. Lægðirnar snúast nú í hring um hvor aðra - um einhverja sameiginlega miðju ofar í veðrahvolfinu. 

Næsta kort sýnir stöðuna kl. 21 annað kvöld (þriðjudagskvöld 30. september).

w-blogg30914b 

Hér er gamla lægðin (merkt 2) gengin í endurnýjun lífdaga og er á norðvesturleið rétt fyrir vestan land. Henni fylgir þrýstifall - ekki nærri því eins mikið og á undan morgunlægðinni - en samt -9,0 hPa á þremur klukkustundum. Það táknaði einhvern tíma stormstyrk (>20 m/s). Hin lægðin er hér á suðausturleið á hringleið sinni. 

Á næsta korti, en það gildir kl. 9 á miðvikudagsmorgni 1. október, er sú lægð (erfitt er að fylgja þessu eftir) komin upp að Vesturlandi.

w-blogg30914c

Hafa nú lægðirnar nærri því sameinast í eina. Ekki er verulegt þrýstifall á undan þessari hrinu - en þess í stað er ískyggilegt þrýstiris, tæp 12 hPa sem fylgir í kjölfarið. Svona nokkuð var á fyrri tíð enn óþægilegra heldur en þrýstifallið. Þrýstifall - þótt mikið sé - gefur smáaðdraganda að illviðrinu - ekki langan - en samt. Mjög mikið þrýstiris er oft ákafast strax eftir að það byrjar - þá skellur illviðrið einfaldlega á um leið og loftvog fer að rísa. 

Það róar okkur nokkuð nú á dögum að tölvuspárnar gefa miklu meiri fyrirvara heldur en loftvogin ein auk þess sem þær eru endurnýjaðar á ýmist 6 eða 12 tíma fresti. Spá reiknimiðstöðvarinnar í dag gefur sterklega til kynna að þrýstiórói sé yfirvofandi. Við vitum nú hvers konar lægðir eða önnur kerfi eru á ferðinni - og við hverju má búast - jafnvel þótt spáin gangi ekki eftir í smáatriðum. 

En svo áframhaldið? Síðasta kortið í þessari syrpu sýnir þrýstibreytingar á miðvikudagskvöld kl. 24.

w-blogg30914d 

Lægðirnar eru nú sameinaðar fyrir norðan land - en ný og mjög vaxandi lægð er suður í hafi. Þriggja stunda þrýstifall samfara henni er hér mest um 11 hPa - ekki sérlega efnilegt. 

Skyldu einhver veðurnörd enn stunda loftvogarbank? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 43
  • Sl. sólarhring: 295
  • Sl. viku: 2557
  • Frá upphafi: 2411477

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 2195
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband