Aðeins meira af eldmistri

Fyrir nokkrum dögum var þess getið hér á hungurdiskum að ritstjórinn minntist þess að hafa séð eldmistur tvisvar áður (en nú). Sérlega minnisstætt var mistur í júlí 1980 - en þá flykktust menn að gosstöðvum í Gjástykki í sérlega góðu veðri - og töluverðu mistri - sumir hafa sjálfsagt hóstað. Ritstjórinn var reyndar ekki í þeim hópi en minnist mistursins vel er það lá yfir Suðvesturlandi.

Eitthvað voru menn efins um að mistrið væri í raun frá jarðeldinum - og meira að segja má sjá um það talað í blöðum að það kæmi frá Evrópu. En svo var örugglega ekki. Hitt tilvikið sem liggur í minni ritstjórans er frá dögum Öskjugossins 1961 - að vísu var þá ekki léttskýjað og hið dularfulla mistur stóð ekki nema í einn dag á heimaslóðum í Borgarfirði.

Hægt er að finna þessi tvö tilvik í veðurathugunum - Kröflumistrið er til þess að gera greinilegt þar - enda ekki mikið um forgangsveður þá. Það er nefnilega þannig að mistur hefur mjög lágan forgang í veðurathugunum - eiginlega gengur allt annað fyrir. Sé einhver úrkoma - er misturs ekki getið, ekki heldur sé sandfok eða skafrenningur. Mistur verður meira að segja að víkja fyrir úrkomu í grennd. 

Það gerir líka erfitt fyrir að iðnaðarmistur frá Evrópu var mjög algengt á árum áður - miklu algengara heldur en á síðari áratugum - varla er nokkur leið að finna Öskjumistrið nema að vita af því fyrirfram þegar farið er að leita. Ekki er það sérlega vísindalegt - en verður samt að duga.

Fjöldi annarra gosa hefur gengið yfir síðustu sex áratugi - en þau hafa flest verið þvegin. Við munum lítilsháttar mistri í gosinu á Fimmvörðuhálsi - en önnur gos hafa aðallega skilað ösku út í andrúmsloftið - gosið í Eyjafjallajökli 2010 og það stóra í Grímsvötnum 2011 skiluðu sér greinilega inn í veðurathuganir sem sandfok og moldrok - en síður sem eldmistur. 

Til viðbótar þessum skavönkum við leit á mistri í nútímanum er að mönnuðum athugunum sífækkar - en þegar um jafn stóran atburð eins og mistrið núna um helgina er að ræða - skiptir það ekki svo miklu - hann skilar sér vel.

En lítum nú á hlutfallstölur misturs í þessum þremur mánuðum, október 1961, júlí 1980 og í september 2014 (þar til nú).

w-blogg230914c

Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallstölu - hæsta möguleg er þúsund, þá væru mistur við allar athuganir. Lárétti ásinn sýnir daga í október 1961. Það er ekki tilviljun að misturhluturinn hækkar þegar gosið byrjar. Vindur var mjög hvass þann 29. og 30 - en fremur hægur 27. og 28. 

w-blogg230914d 

Kröflumistrið í júlí 1980 kemur mjög vel fram um miðjan mánuðinn. Enda var það haft eftir fræðingi að þetta væri að verða mesta sprungugos frá Skaftáreldum. Hvað um það - þótt sum síðari Kröflugos væru meiri - minnist ritstjórinn ekki misturs frá þeim - e.t.v. finnst það ef vel er leitað. Sjá má misturhlutfallið hrökkva upp úr öllu valdi í lok mánaðarins - þetta er hið hefðbundna Evrópumistur og fylgdi því ein minnisstæðasta hitabylgja á síðari hluta 20. aldar. 

Að lokum er hér línurit fyrir gosið nú. Í ljós kemur að það skýtur hinum báðum ref fyrir rass.

w-blogg230914e 

Á laugardaginn var (þann 20.) var mistur gefið í um það bil þriðju hverri athugun - auk þess hefur mistur verið viðloðandi fleiri daga en ekki - enda mun vera um eitt mesta sprungugos að ræða - síðan... Ritstjórinn leyfir sér að segja gosið vera í Holu - er það eitthvað verra en annað? Holugosið 2014 hljómar nokkuð vel?

Ef til vill má finna mistur Heklugossins 1947 og Öskjugosanna á þriðja áratugnum í veðurathugunum sé eftir þeim leitað.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband