Smávegis um hafísmál í norðurhöfum

Bráðnunarskeiði sumarsins er nú lokið í norðurhöfum og hafísþekja fer aftur að aukast. Þekjulágmarkið í ár var svipað og í fyrra en meira heldur en í sumarlok 2012. Svipað mun vera með heildarrúmmálið - það er öllu meira heldur en 2012. 

Heimildir um heildarþekjuna þykja nokkuð áreiðanlegar aftur til upphafs samfelldra gervihnattamælinga 1979. Unnið er baki brotnu við að samræma eldri athuganir og mælingar. Menn hafa líka reynt að reikna rúmmál íssins aftur í tímann - og nota til þess mælingar og líkön. Telja verður að síðustu árin hafi tekist að mæla rúmmálið allvel, og bæta þær mælingar líka rúmmálsáætlanir aftur í tímann.

Áætla er að nú í ágústlok hafi heildarrúmmál íssins verið um 8150 rúmkílómetrar, 37% minna en meðallag í ágústlok á árunum 1981 til 2010. - Lítilsháttar bráðnaði eftir það - en varla teljandi. Meðalþykkt nú er talin vera um 30 cm meiri heldur en bæði í fyrra og 2012. Meðallágmarksrúmmál tímabilsins 1981 til 2010 er talið hafa verið 12.300 rúmkílómetrar. 

Í gögnum sem taka til áranna fyrir 1980 [þegar ritstjórinn var nýkominn úr námi] var talað um að lágmarksrúmmálið í lok sumars sé um 21.000 rúmkílómetrar. Ekki ber þessu alveg saman við nýrri tölur um rúmmál 1979 - en látum það vera. 

En mælingar benda þó til þess að ísmagnið hafi að jafnaði rýrnað um tæpa 300 rúmkílómetra á ári á þessu 35 ára tímabili. Sveiflur eru þó töluverðar - einkum áratugakvarða - sé gagnaröðum trúandi.  

Á vetrum er heildarísþekja á Norðuríshafinu sjálfu og í Kanadíska norðurslóðaeyjaklasanum nánast alltaf hin sama - ís þekur þessi svæði alveg - nema örfáar vakir. Hins vegar er töluverður breytileiki frá ári til árs á jaðarslóðum íssins, t.d. við Austur-Grænland og enn meiri í Barentshafi, við Labrador og austur í Beringshafi. 

Hafísinn er hluti af ferskvatnsbirgðum Norðuríshafsins. Yfirborðssjór er mun seltuminni í íshafinu heldur en suður í Atlantshafi - og reyndar er selturýri sjórinn ekki þykkur - undir er alls staðar saltari sjór.

Ferskvatnsbirgðirnar eru skilgreindar á nokkuð sérviskulegan hátt - það er það magn af ósöltu vatni sem þarf til þess að þynna seltu sjávar úr 34,8 seltueiningum niður í þann seltustyrk sem raunverulega er til staðar. Þessir reikningar hafa verið gerðir. Útkoman er sú að í íshafinu séu að jafnaði 84.000 rúmkílómetrar af ferskvatni - þar af eru 10.000 rúmkílómetrar bundnir í ís í lok sumars. 

Þessum birgðum er viðhaldið af afrennsli af landi, innstreymi seltuminni sjávar (<34,8 einingar) í gegnum Beringssund og mismun á úrkomu og uppgufun. 

Birgðirnar liggja ekki jafndreifðar - miklu meira af ferskvatni er Alaskamegin í Íshafinu. Myndin sýnir ágiskun sem birtist í grein 2006 [tilvitnun sést betur sé myndin stækkuð].

w-blog170914-hafisrummal-a

Hér er birgðadreifingin sýnd í metrum. Langmest af ferskvatni liggur í Beauforthafi þar sem hæðarhringrás ríkir að meðaltali í lofthjúpnum. Slík hringrás veldur samstreymi sjávar inni í hringnum. Við skulum til hægðarauka (en ekki eftirbreytni) tala um ferskvatnslinsuna í Beauforthafi. 

Nú er þónokkur breytileiki í bókhaldsliðunum, mismikið af ís og ferskum sjó berst t.d. suður um Framsund milli Grænlands og Svalbarða frá ári til árs. Ekki er enn búið að ná alveg utan um alla liði ferskvatnsbókhaldsins. Ritstjórinn þekkir ekki nýjustu óvissutölur - en þegar þessi mynd var gerð var hún að minnsta kosti 500 rúmkílómetrar ferskvatns á ári. 

Að auki er líklegt að einhverjar sveiflur séu í dreifingu ferskvatns Íshafinu. Það hefur verið nefnt (sjá sömu grein) að aðeins þurfi örfá prósent af ferskvatnslinsunni að leka út um Framsund til þess að búa til seltulágmark eins og það sem plagaði okkur, Grænland og Labrador á sjöunda og áttunda áratugnum. Það gæti ýtt undir tímabundna aukningu á hafís við Austur-Grænland og þar með hér við land - þrátt fyrir að heildarrúmmál íss haldi áfram að minnka í Norðuríshafi. Sveiflur í styrk og umfangi linsunnar skipta okkur furðumiklu máli. 

Að lokum má rifja upp að það eru um 3000 rúmkílómetrar af ís sem venjulega koma út í gegnum Framsund á ári hverju (áraskipti þó mikil), heildarárstíðavelta Grænlandsjökuls er um 600 rúmkílómetrar. Síðustu árin hefur þar bráðnað um 200 rúmkílómetrum meira en ákoma hefur ráðið við. 

Greinin [sjá texta á mynd] sem vitnað er til er aðgengileg á netinu - leitið. Ýmsar tölur eru fengnar af vefsíðunni:

http://psc.apl.washington.edu/wordpress/research/projects/arctic-sea-ice-volume-anomaly/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Þetta er nú eitthvað annað en flestir fjölmiðlar - og sérfræðingar - tala um. Þeir fullyrða að hafísin á Norðurheimskautssvæðinu hefur vaxið mikið undanfarin tvö ár og sé nú tveim milljónum ferkílómetrum stærri en þá.

Ástæðan er talin vera sú að hnattræna hlýnunin hefur ekki aukist síðustu 10-15 árin.

Einnig er bent á að hafísþekjan árið 2012 hafi verið mjög afbrigðileg en þá hafi öflug lægð splundrað ísnum svo hann bráðnaði mjög hratt.

Norðvesturleiðin er nú nær algjörlega lokuð. Þar er fjórum til fimm sinnum meiri ís en var á árunum 2010-12 og mun meiri en var á árunum 1981-2010.

Það þarf að fara aftur til ársins 2009, jafnvel 2006, til að finna eins mikinn ís og nú.

Og eins og kunnugt er þá vex hafísinn á Suðurskautssvæðinu ár frá ári.

Torfi Kristján Stefánsson, 19.9.2014 kl. 14:32

2 identicon

Sæll Trausti og bestu þakkir fyrir umfjöllun um dularfulla hafísinn í Norðurhöfum sem átti víst að vera alveg horfinn. Ég vona að þú misvirðir það ekki við mig þótt ég geri eftirfarandi athugasemdir:

1. "Þekjulágmarkið í ár var svipað og í fyrra en meira heldur en í sumarlok 2012."(sic) Hið rétta er auðvitað að þekjulagmarkið í ár er meira en í fyrra og aukningin er um 66% frá 2012.

2. "En mælingar benda þó til þess að ísmagnið hafi að jafnaði rýrnað um tæpa 300 rúmkílómetra á ári á þessu 35 ára tímabili"(sic) Hér mun vera átt við tímabilið 1979 - 2014. Hér er hvergi minnst á þá staðreynd að í upphafi viðmiðunartímabilsins (&#39;79 - &#39;80) var hafísþekjan í sögulegu hámarki eftir kuldaskeiðið 1960 - 1980.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.9.2014 kl. 16:29

3 identicon

Ég skil ekki á hvaða vegferð sumir eru sem skrifa athugasemdir hér, en hvað um það. Miðað við nýjustu tölur er ísmagnið komið niður fyrir árið í fyrra á sama tíma (18.sept).

Fyrir nokkrum árum voru einhverjir vísindamenn að tala um að bráðnunin gæti haft truflandi áhrif á golf strauminn. Er eitthvað nýtt að frétta úr þeim pælingum. Ef ég man rétt, þá snerist það einmitt um það að aukið magn ferskvatns gæti haft áhrif á golf strauminn og jafnvel ýtt honum sunnar, sem myndi þýða mun harðari vetur hér.

Sveinn Arngrímsson (IP-tala skráð) 19.9.2014 kl. 19:20

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk fyrir þessa vönduðu samantekt.

Hörður Þórðarson, 19.9.2014 kl. 20:06

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Fyrst um þekjulágmarkið í ár. Svo sýnist sem það sé aðeins lægra heldur en í fyrra (2013) - það munar þó það litlu að endanleg niðurstaða gæti orðið á hvorn veg sem er. Rúmmálið er að sögn öllu meira en bæði í fyrra (2013) og í sumarlok 2012 - sá ís sem nú er afgangs er aðeins þykkari en leifin var í fyrra. Þetta getur þó varla talist uppgert enn. Þekjuaukingin milli leifanna 2012 og 2013 er e.t.v. 66% (hef ekki reiknað það út) - en talan skiptir í raun engu máli - hvað ef ísþekjan færi eitthvert árið (af tilviljun) niður í milljón ferkílómetra, en væri næsta ár 3 milljónir? Aukingin er þá 200 prósent - því minni sem ísinn verður - tilviljanakennt eitt árið - því hrikalegri sýnist aukningin næsta ár - í prósentum. Ef ísinn hyrfi alveg eitt árið en væri 100 ferkílómetrar það næsta - hvað þá - aukningin reiknast þá óendalega mikil (þótt hún sé raunar ekki nein). Varðandi ísmagn á tímabilinu fyrir 1980 - jú, það var hámark - en ekki þó á við það sem var síðustu áratugi 19. aldar. Á milli var talsvert lágmark - sem ekki hefur enn tekist með vissu að slá á - með þeirri nákvæmni sem myndi gera samanburð áreiðanlegan. En málið er í vinnslu. Jú, ísinn við Suðurskautslandið er mikill um þessar mundir - en myndunarhættir hans eru með öðrum hætti heldur en algengast er í norðurhöfum. Reynt hefur verið að skýra hluta þess munar hér á hungurdiskum (fyrir um það bil ári síðan). Gallinn er sá að ekki hefur enn tekist að gera upp ferskvatnsbúskap suðurhafa jafn ítarlega og á norðurslóðum - en svo virðist sem ekki verði langt í það. Um þetta var t.d. grein sem birtist í Journal of Climate í fyrra (2013) sem ritstjórinn er ekki búinn að lesa - hugsanlega leynast fleiri slíkar í nýlega útgefnum ritum. Sveinn spyr um Golfstrauminn - jú, menn hafa eitthvað velt vöngum yfir slíku - en það er býsna flókin orsakakeðja (með mörgum lítt þektum liðum) sem þarf til. Allt of löng til að hægt sé að gera grein fyrir í nokkrum setningum. Þakka vinsamleg orð Hörður.

Trausti Jónsson, 20.9.2014 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband