Hlýrra næstu vikuna?

Nú hefur vindur í háloftunum snúist úr norðvestri og bjartviðri um mestallt land yfir í suðvestandumbung og úrkomu um landið sunnan- og vestanvert. Góðu tíðindin eru þó þau að þessu fylgir hlýnandi veður - og þá sérstaklega um landið norðaustanvert. Veitir ekki af því þetta er eina svæðið á landinu þar sem hiti það sem af er mánuði er undir meðaltalinu 1961 til 1990 - en að vera undir því meðallagi þykir nú um stundir hinn versti löstur - meira að segja er engin ánægja þótt rétt ofan þess sé. Í sólarleysinu syðra verða nætur hlýjar. 

En við lítum á meðalspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga. Það verður eins og venjulega að hafa í huga að ekkert segir þar um veður einstaka daga tímabilsins - það getur verið allt annað - jafnvel þótt spáin sé rétt i heild sinni.

w-blogg250814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Því þéttari sem þær eru því ákveðnari er (vigur-)vindurinn. Allmikil suðvestanátt er vestan við landið - en mun hægari fyrir austan við það.

Strikalínurnar sýna meðalþykktina og við tökum eftir því að við landið leitast vindurinn við að beina til okkar hlýju lofti. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðaltali ágústmánaðar. Kvarðinn til hægri skýrist mjög sé myndin stækkuð. Stærsta vikið er yfir norðaustanverðu Íslandi - 61,5 m. Þetta jafngildir því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 3 stigum hærri heldur en að meðaltali (1981 til 2010). Verði sú raunin er góð von til þess að hitinn norðaustanlands verði í mánaðarlok ofan við meðallagið 1961 til 1990. 

Annars skila jákvæð þykktarvik sér sjaldan að fullu niður til veðurstöðvanna - en gera það þó helst í skjóli fjalla, í vindi sem stendur af landi. Góð von er því til þess að hiti næstu dagana (frá og með þriðjudegi) komist yfir 20 stig norðaustan- eða austanlands - sé að marka þessa spá reiknimiðstöðvarinnar. Smávon er meira að segja til þess að við sjáum hæsta hita sumarsins á landinu. - Stillum samt þeirri von í hóf þar til áreiðanlegar veðurspár fyrir einstaka daga birtast út úr framtíðarþokunni. Við rétt rýnum í gegnum hana með þessari spá - en margt býr í þokunni og ekki alltaf það sem haldið er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 32
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1953
  • Frá upphafi: 2412617

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1706
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband