Norðvestanbylgjurnar

Nú liggur hann í norðvestanátt í háloftunum. Það er frekar óþægileg vindátt. Henni fylgja bylgjur sem koma að Grænlandi úr vestri - fara yfir jökulinn og stingast síðan til suðausturs yfir Ísland - eða öðru hvoru megin við það. 

Séu bylgjurnar sem eiga að koma þessa leið næstu vikuna rúma í nýjustu spá evrópureiknimiðstöðvarinnar taldar - kemur í ljós að þær eru einar sjö. - Ekki verða lesendur þreyttir með því hér að telja þær allar upp - enda verða þær ekkert endilega þetta margar - spá er bara spá og hvað á að telja sem fullgilda bylgju og hvað ekki?

Ein bylgjan fór hjá landinu í dag (fimmtudag) - nánast hávaðalaust - þótt henni fylgdu ský og dálítil úrkoma var vestanlands síðdegis. Sú næsta kemur strax á morgun (föstudag) og er - ef marka má spárnar - sú mesta í syrpunni. Henni fylgir allmyndarleg lægð sem fer yfir landið sunnanvert síðdegis og annað kvöld. Töluverð úrkoma fylgir og mun rigna um mestallt land. Síðan á að ganga í nokkuð snarpa en skammvinna norðanátt - sem stendur þó mestallan laugardaginn. Þessi norðanátt er þó ekki sérlega köld - en þó snjóar á jöklum og í háfjöll - sérstaklega þar sem úrkoman helst fram á sunnudag, en þá á kaldasta loftið að fara hjá. Spurning hvort sléttan á miðhálendinu sleppur alveg. 

Síðan koma smábylgjurnar hver á fætur annarri. En lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á laugardag.

w-blogg150814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, norðurskautið þar ofan við. Dökkbrúna svæðið lengst til hægri á myndinni er yfir Arabíuskaga og Persaflóa, en Mexíkó er lengst til vinstri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur sem blæs samsíða línunum með lægri flatarhæð á vinstri hönd. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Kvarði og kort batna mjög við stækkun. 

Mörkin á milli grænu litanna og þeirra gulu og brúnu er við 5460 metra. Eindregið sumar er á gulu hliðinni. Við viljum frekar vera þar. Það er þó ekki á þessu korti - því grænir litir umlykja landið - enda er norðanátt. Þetta er þó enginn metkuldi. 

Við Suður-Grænland má sjá hæðarsvæði - kannski köllum við þetta fyrirstöðuhæð vegna þess að hún á að endast í nokkra daga og heldur norðvestanáttinni við. Í henni er sérlega hlýtt loft - í skjóli Grænlands á þykktin að fara upp undir 5640 metra - en sú tala er í hitabylgjustíl. Ekki munu þó margir njóta þess hita - kaldur Austurgrænlandsstraumurinn og bráðnandi ís í fjörðum Suðaustur-Grænlands koma trúlega í veg fyrir það. Ef fjöldi veðurstöðva væri í grænlandsfjörðum eru þó líkur á því að einhver þeirra yrði fyrir miklum hitaskotum - kannski 20 til 25 stigum - en það sér enginn.

Ísland verður í útjaðri þessa hlýja lofts - framanvert í norðvestanbylgjunum - en í bakhluta þeirra  nær kalt loft að streyma frá Norðaustur-Grænlandi til suðurs um landið - alla vega það austanvert.

En staðan er þannig að trúlega verður frekar svalt - miðað við þann góða hita sem líður hjá í háloftunum. Skúffelsi? Eða þakklæti yfir því að norðanáttin skuli vera af skárri gerðinni?

Það má taka eftir því á kortinu að bláu svæðin (þykkt minni en 5280 metrar) eru mjög lítil um sig - sjást raunar varla. Meðan svo er er sumrinu ekki lokið á norðurslóðum - og ekki fer að votta fyrir vetri fyrr en við förum að sjá þykkt minni en 5100 metra fara að festast á svæðinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 15
  • Sl. sólarhring: 242
  • Sl. viku: 1810
  • Frá upphafi: 2412830

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1615
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband