Verður norðanáttin köld?

Nú, þegar þetta er skrifað, sunnudagskvöldið 27. júlí nálgast lægð landið úr suðvestri. Það gerir skammvinnan landsynning - síðan óræða átt þegar lægðin fer yfir landið sunnanvert á mánudag og loks gerir norðanátt þegar hún er komin austur fyrir. Þannig er staðan á kortinu hér að neðan sem gildir um hádegi á þriðjudaginn (29. júlí).

w-blogg280714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litirnir úrkomumagn síðastliðnar 6 klst og strikalínur sýna hita í 850 hPa. Þetta virðist vera venjuleg norðanátt - rigningu er spáð á Norðurlandi og víða verður strekkingsvindur (fylgist með honum á vef Veðurstofunnar). Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Norðanáttin er vísast orðin nokkuð langþráð um landið sunnanvert - hún gæti fært íbúum þess landshluta bæði sól og þurrt veður. En norðanáttin kostar langoftast kólnandi veður - um síðir - og þannig virðist það einnig vera að þessu sinni.  

Við sjáum (kortið batnar við stækkun) að það er +5 stiga jafnhitalína í 850 hPa (um 1400 metra hæð) sem liggur yfir Íslandi. Það telst frekar hlý norðanátt - enda er hún rétt að byrja. Við Norðaustur-Grænland lúrir hins vegar 0 stiga jafnhitalínan - og þeir sem stækka kortið og sjá þar að auki vel geta fundið blett með -5 stigum nærri því efst á kortinu - ekki langt frá Svalbarða. 

Útbreiðsla kalda loftsins sést mun betur á 500 hPa-hæðar- og þykktarkortinu hér að neðan. Það batnar ekki mikið við stækkun. 

w-blogg280714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta kort gildir á sama tíma og það að ofan. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, litafletir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli gulu- og grænu litanna er við 5460 metra, en mörkin milli þeirra grænu og bláu er við 5280 metra. Hér er enn hlýtt við Ísland - eins og við viljum hafa það.

En við sjáum að samfelld norðvestanátt er í háloftunum yfir Grænlandi, við jörð (sjá hitt kortið) er hins vegar norðan- eða norðnorðaustanátt. Þessi vindsnúningur með hæð (mót sól) táknar að kalt loft sé í framsókn. Það sjáum við líka á því að horn er á milli jafnþykktar- og jafnhæðarlína - vindurinn sem er samsíða jafnhæðarlínunum ber lægri þykkt í átt til landsins. 

Við vitum ekki enn hversu kalt verður - en líklega verður föstudagurinn kaldastur - og auðvitað næturnar sitt hvoru megin við hann. Blái liturinn = næturfrost á láglendi kemst langleiðina til landsins - en vonandi ekki alveg. Það vill líka til að í norðanátt er oftast skýjað norðaustanlands og gæti það komið í veg fyrir næturfrost í efri byggðum þar um slóðir. 

Gangi norðanáttin hins vegar niður í þann mund sem kalda loftið kemur - gætu síðdegisskúrir séð um að það verði líka skýjað sunnanlands. - Síðan er sjávarhiti óvenjuhár undan Norðurlandi og það dregur úr líkum á því að það verði mjög kalt að þessu sinni.

Við vitum því ekkert enn um það hvað norðanáttin verður köld að þessu sinni - kannski kemur hún með langþráð sólskin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband