Sunnanraki áfram

Nú eru mánaðamótalægðarleifarnar komnar norður í hafsauga. Við tekur sunnanrekja á mörkum svalrar lægðar suðvestur í hafi og háþrýstisvæðis austur undan. Á laugardaginn eiga kerfin að líta út eins og kortið hér að neðan sýnir.

w-blogg180714-n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er hefðbundið norðurhvelskort úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

Það er að hlýna aftur eftir frekar svala viku. Landið er allt inni í gulum og brúnum litum og svo virðist sem vindurinn sé að beina enn hlýrra lofti í átt til landsins. Það gagnast þó varla nóg meðan landið er hulið þykkri skýjakápu. En ef sólin sýnir sig fer hiti fljótt yfir 20 stigin. En sunnanáttin gerir vonir um það nærri því að engu um landið sunnanvert - rigning og meiri rigning. Spár eru eitthvað að velta vöngum yfir möguleika á að vindur snúist meira til suðausturs - og þá vaxa líkur á hlýju vestantil á Norðurlandi og jafnvel sums staðar vestanlands - ekki minnst ef lægðabeygjan þráláta lætur undan.

Við tökum slíkum vonum með mikilli varúð vegna vondrar reynslu. Svo virðist sem það gangi bara ekki að komast yfir í hæðarsveiginn langþráða í sumar. Ef hann gerist líklegur birtast alltaf einhverjar smálægðir sem snúa öllu á lægðarvísu umsvifalaust aftur.

Nú nálgast hlýjasti tími sumarsins á norðurhveli - alla vega yfir meginlöndunum. Dekksti liturinn á kortinu er yfir Persaflóa, táknar þykktarbilið 5940 til 6000 metra og enginn blár er sjáanlegur. Mörkin á milli þess bláa og græna eru við 5280 metra. Blátt sést þó dag og dag í spánum.

Merkilega mikill kuldapollur er yfir Síberíu vestanverðri, hann hefur endurnýjað sig með fóðri að norðan hvað eftir annað og reiknimiðstöðin segir að hann lifi áfram. 

Svo má sjá (ef vel er gáð) að 5700 metra jafnþykktarlínan snertir Bretlandseyjar á laugardaginn - ekki algengt - og við borð liggur að hiti fari þar í 20 stig í 850 hPa-fletinum - það hlýtur beinlínis að vera óvenjulegt. Þarlendir fá þó ekki hita í fullu samræmi við það því þetta loft er rakabólgið og þykkskýjað. Næturhiti verður þó hár og mikil þrumuveður kvu vera líkleg. Breska veðurstofan hefur gefið út það sem þeir kalla heilbrigðishættuviðvörun vegna hita og raka. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 2336
  • Frá upphafi: 2414000

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband