Rýfur meðaljúníhitinn á Akureyri 12 stiga múrinn?

Farið er að gæla við þann möguleika að meðalhiti júnímánaðar á Akureyri nái 12 stigum. Þegar þetta er skrifað - um miðnætti aðfaranótt þess 25. liggur meðaltalið í 11,78 stigum. Meðalhiti í júní hefur aðeins einu sinni komist yfir 12 stig á Akureyri, það var 1933 þegar meðaltalið telst vera 12,28 stig (tveimur aukastöfum haldið af metingsástæðum einum).

Það er hins vegar dálítið óþægilegt að einmitt þetta sumar, 1933, var hitasíriti staðarins í ólagi og þetta meðaltal er því öðruvísi reiknað heldur en næstu sumur á undan og eftir. Það verður e.t.v. að fara í saumana á því. 

Júní í fyrra, 2013 var sérlega hlýr á Akureyri, sá hlýjasti síðan 1953. Einmitt núna er júní í ár kominn upp fyrir bæði 1953 og júní í fyrra. Þá er bara spurning um úthaldið. 

En listi yfir hlýjustu júnímánuði á Akureyri til þessa er svona:

Akjúnímeðalh
1193312,28
2190911,84
3195311,70
4192511,58
5189411,49
6201311,44

Mánuðurinn í ár er alveg við toppinn.  

Við Mývatn hefur líka verið sérlega hlýtt - sennilega methlýtt. Þar flækist málið af því að sjálfvirka stöðin er ekki á sama stað og sú mannaða var. Nýja stöðin (Neslandatangi) er kerfisbundið um 0,5 stigum kaldari í júní heldur en mannaða stöðin í Reykjahlíð var. Meðalhiti það sem af er þessum mánuði er 11,33 stig á Neslandatanga - gæti því verið um 11,8 í Reykjahlíð. 

Reykjahlíðarlistinn nær með réttu aðeins aftur til 1936. Júní 1953 er efstur á þeim lista með 11,40 stig. Ekki var athugað við Mývatn sumarið 1933. Þá var hins vegar athugað á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar var byrjað 1907. Ef giskað er á hita við Mývatn í júní 1933 eftir hitamun við Grímsstaði gæti hann hafa verið um 11,6 stig. 

Þar er topplistinn svona:

Grímstjúnímeðalh
1195310,80
2190910,72
3193310,54
4193410,54
5194110,30

Við fáum meðaltal júnímánaðar í ár ekki fyrr en eftir mánaðamótin, en hitinn á sjálfvirku stöðinni þar er 10,69 stig. Mælt var bæði á sjálfvirku- og mönnuðu stöðinni í fyrra (2013) og þá munaði nær engu á mánaðameðaltali stöðvanna tveggja.  

Hér er staðan núna ofan við mánaðarmeðaltalið 1933 - rétt undir 1909 og vantar aðeins 0,1 stig upp á það hlýjasta sem vitað er um. Við sjáum að júní 1909 hefur verið drjúghlýr - mælingar á Grímsstöðum og Akureyri eru alveg óháðar. Júlí og ágúst 1909 voru hins vegar ekki sérlega spennandi. 

Mönnuð stöð var á Húsavík frá 1925 til 1994 og þar hefur verið sjálfvirk stöð frá 2003. Ekki hefur verið gerð tilraun til þess að tengja stöðvaraðirnar saman. En meðalhitinn á Húsavík er nú 11,32 stig. Það er hærra heldur hæsta eldra meðaltal sjálfvirku stöðvarinnar - en lægra en hæstu tvö júnímeðaltöl mönnuðu stöðvarinnar (1933 og 1953 - en síðarnefndi júnímánuðurinn er sá hlýjasti á Húsavík - grunsamlega hlýr). 

Miðað við meðaltal síðustu tíu ára eru vikin nú (að kvöldi 24. júní) stærst við Mývatn og í Svartárkoti, +2,89 stig á báðum stöðvum - og +3,13 stig á vegagerðarstöðinni á Mývatnsöræfum. Þarna er hjarta hlýindanna nú. 

Nú - Reykjavík á enn möguleika á meti og fleiri stöðvar þar sem athugað hefur verið í hundrað ár eða meir. Við reynum að fylgjast með því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Óskiljanlegt að menn hafi ekki sett sjálfvirku stöðina við Reykjahlið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.6.2014 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 116
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 1542
  • Frá upphafi: 2407547

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 1367
  • Gestir í dag: 84
  • IP-tölur í dag: 84

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband