Íslandssöguslef 4 (af ísum)

Í pistli dagsins lítum við á fjórar mælitölur um hafís sem ná til síðustu 100 til 200 ára. Sú fyrsta sýnir ísmagn víð Ísland. Í síðari pistli verður fjallað um mælitölur sem ná yfir lengri tíma.

Vegna þess að þekktustu mælitölurnar um ís við Ísland ná ekki til síðustu ára hefur ritstjórinn búið til sinn einkamælikvarða til að geta borið síðustu ár saman við fortíðina. Af öllum ísmælitölum er þessi sú einfaldasta (og ónákvæmasta??) og rétt að taka fram að ekki stendur til að birta hana í vísindagrein.  

w-blogg270414a

Röðin nær aftur til 1874 og til 2013. Lárétti ásinn sýnir árin en sá lóðrétti fjölda ísmánaða á ári við landið. Rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal. Við tökum eftir því að síðustu árin hefur ís verið sáralítill, en var nærri því jafnlítill í kringum 1960. Taka verður fram að um leið og eina ísspöng rekur á fjörur eða tefur strandsiglingar fer teljarinn í gang og telur mánuð (engin brot þar). Hér sjást hafísárin svokölluðu vel og ef trúa má línuritinu var hann um stutta stund sá mesti frá því um 1890.

Næsta mynd sýnir mælitölu Torgny Vinje (sjá tilvísun í lok pistilsins) um magn íss við Austur-Grænland, hún nær aftur til 1864. Hér sýnir lóðrétti kvarðinn áætlaða ísútbreiðslu í hundruðum þúsunda ferkílómetra.  

w-blogg270414b

Síðasta árið er 1998. Lágmarkið um 1960 sést vel og sömuleiðis ísárahámarkið. Það er þó litlu meira heldur en næsta hámark á undan sem var upp úr 1940. Þá var nokkur ís hér við land - e.t.v. meiri heldur en ritstjóraröðin sýnir - en þetta var á stríðsárunum og ísupplýsingar mjög leynilegar. Ritstjórinn hefur stöku sinnum nefnt þessi ár litlu-hafísárin. Áberandi þrep er í magninu um 1920, rétt eins og á efri myndinni og mikið þrep sömuleiðis um 1890 (á báðum myndum).

Ísmestu árin hjá Vinje eru 1881 og 1891 og síðan 1882 og 1892. Í ritstjóraröðinni eru 1886, 1887, 1888, 1892 og 1965 efst.

Þá er það ísmagn undan Eystribyggð á Grænlandi. Það er talið gefa vel til kynna útstreymi um Framsund og nær aftur til 1820. 

w-blogg270414c

Talan er úr grein Schmidt og Hansen (2003 - sjá lok pistils). Lóðrétti ásinn sýnir mælitöluna - reyndar er búið að deila með tíu til hægðarauka. Hér er hámarkið seint á 19. öld rétt eins og á hinum línuritunum tveimur. Lágmarkið er á milli 1930 og 1940 - en nokkuð snarpt hámark fylgir hafísárunum hér. Það eru 1968 og 1969 sem eiga þar hámarkið - rétt eins og hjá Vinje. Á 19. öld er það 1898 sem á hæsta gildið, þar á eftir koma 1896 og 1892.

Fyrr á 19. öld virðist ís hafa verið minni á tímabilinu 1840 til 1860 heldur en síðar.

Síðasta myndin í þessum pistli sýnir rekís (ekki borgarís) við Nýfundnaland (sjá tilvitnun).

w-blogg270414d 

Mælitalan (hér búið að deila með þúsund) nær aftur til 1810 og er hegðan hennar furðulík hinum þremur. Tuttugustualdarlágmarkið er aðeins seinna en við Ísland og Grænland, en mestur er ísinn á síðustu áratugum 19. aldar. Fyrstu 20. ár tuttugustu aldar eru líka ísmikil. Talan hefur síðasta áratuginn (vantar á myndina) fallið enn meira og meðaltal áranna 2006 til 2012 það lægsta á öllu tímabilinu (munnlegar upplýsingar frá Brian Hall).

Ísinn við Nýfundnaland var mestur 1882 og 1892.

Þessar tölur segja allar að ís hafi verið meiri á síðustu tveimur áratugum 19. aldar heldur en nokkru sinni síðar. Sömuleiðis rýrnaði ísinn alls staðar upp úr 1920. Lágmark er á öllum svæðunum rétt eftir miðja 20. öld og alls staðar hefur ís verið jafnlítill eða minni á 21. öldinni heldur en áður á því tímabili sem tekið er til skoðunar [ekki er mjög erfitt að splæsa Vinjeröðinni saman við gervihnattamælingar].

Í næsta Íslandssöguslefi verður litið á mælitölur Lauga Koch og Astrid Ogilvie aftur til 1600.

Mikilvægar tilvitnanir:

Vinje, T., 2001: Anomalies and trends of sea-ice extent and atmospheric circulation in the Nordic
seas during the period 1864-1998. Journal of Climate, 14, 255–267.


Schmith, Torben,Hansen, Carsten, 2003: Fram Strait Ice Export during the Nineteenth and Twentieth Centuries
Reconstructed from a Multiyear Sea Ice Index from Southwestern Greenland. Journal of Climate 16 p2782.

Brian T. Hill Stephen J. Jones, 1990: The Newfoundland ice extent and the solar cycle from 1860 to 1988
Journal of Geophysical Research: Oceans 95, Issue C4, pages 5385–5394
og; http://www.icedata.ca/index.php


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 231
  • Sl. viku: 1796
  • Frá upphafi: 2412816

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1601
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband