Kalt loft úr vestri (nær alla leið)

Það hefur gerst nokkrum sinnum á undanförnum tveimur mánuðum að kalt loft úr vestri hefur nálgast landið - komist rétt með herkjum inn á og yfir það - en hörfað jafnharðan fyrir austanáttinni. Nú virðist sóknarþunginn loksins ætla að verða meiri.

Við fáum nú yfir okkur nokkra éljagarða úr suðvestri og bjartara veður með smærri éljum á milli. Spár greinir hins vegar nokkuð á um það hversu mikil úrkoma fylgir og hversu mikið af henni verður í föstu formi á láglendi. Talað er um 50 til 90 mm á höfuðborgarsvæðinu næstu 6 til 7 daga. Það verður að teljast harla ólíklegt að allt þetta magn falli allt sem snjór - enda eins gott. En einhver slabbleiðindi eru líklegust. Það er svo vonandi að ekki frjósi að ráði upp úr slíku. En það ætti að bæta í snjóinn á skíðasvæðum suðvestanlands.

En við skulum líta á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag (5. mars).

w-blogg040314a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar (tölur í dekametrum) en þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað). Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra og skipt er um lit á 60 metra bili. Miðja háloftalægðarinnar miklu er við Suður-Grænland en kuldinn henni tengdur er þar nokkuð fyrir suðvestan og vestan og hann streymir til austurs út á Atlantshaf sem hitar loftið baki brotnu upp undir eða upp fyrir frostmark þegar hingað er komið.

Þetta er harla óþægileg staða - uppskrif að illviðrum - en einhvern veginn liggur öllum lægðavísum svo mikið á að komast til Íslands að nær ekkert skipulag er þar á. Vísarnir dreifast á smálægðir og lægðadrög sem fara eiga yfir landið hvert á fætur öðru.

En það er samt eins gott að fylgjast vel með. Jafnhæðarlínurnar suðvestur af landinu á kortinu eru gríðarþéttar og vel gæti einhver smálægðin náð að draga niður eitthvað af háloftavindinum.

Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar á fyrsta lægðarbylgjan sem nær í hlýtt loft sér til fóðurs ekki að ganga yfir fyrr en á sunnudaginn - og á þá að fara til norðausturs fyrir suðaustan land. Eitthvað kunnuglegt það.

Bandaríska veðurstofan finnur (nú í nýjustu spárununni) sunnudagslægðina hins vegar ekki - en gerir þess í stað meira úr lægðardragi sem á að fara hjá á miðvikudag - um það leyti sem kortið hér að ofan gildir. Reiknimiðstöðin gerir þar minna úr - eitthvað smátt sem fer til norðausturs milli Íslands og Færeyja án teljandi beinna áhrifa hér á landi.

Alla vega er von á heldur meiri tilbreytingu í veðri næstu daga en verið hefur að undanförnu. Eftir helgi er allt galopið - rennsli í sama far og áður - æsilegri lægðagangur eða jafnvel fyrirstöðumyndun sunnan við land og alvöru vestanátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kalt loft? Mér sýnist nú á spánum að loksins sé að hlýna með langþráðri vætu (rigningu en ekki éljum) og það strax á föstudag/laugardag.

Þessi hlýindi sem Trausta, og fleiri hlýnunarsinnum, hefur verið svo tíðrætt um bera varla nafn með rentu.

Réttara er að tala um klaka- og vindatíð sem betur fer sér brátt fyrir endann á.

Svo eru veðurlýsingar og veðurspár alltaf samar við sig.

Nú á að vera suðvestanátt en áttin er enn austlæg nær alls staðar á landinu, þar á meðal hér á höfuðborgarsvæðinu.

Enda éljar lítið, eins og spáð hafði verið, heldur fellur langþráð úrkoman aðallega sem rigning eða slydda.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:12

2 identicon

Eitt í viðbót!

Nánari tölfræði um febrúarmánuð er komin á vedur.is

Þar kemur m.a. fram að meðalhiti í Reykjavík (1,7 stig) var aðeins sá 25. hlýjasti sem mælist hefuir. Það eru nú ölili hlýindin!

Aðal fréttin er auðvitað að úrkoma var langt undir meðallagi um landið vestanvert. Í Reykjavík mældist úrkoman 13,6 mm og er aðeins 19% af meðallaginu 1961 til 2000. Þetta er minnsta úrkoma í Reykjavík í febrúar síðan 1966 og sú fjórða minnsta í mæliröðunum (1885 til 1907 og 1921 til 2014).

Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 1,9 mm, eða 3% af meðalúrkomu. Í Stykkishólmi hófust úrkomumælingar haustið 1856 og hafa staðið nær samfellt síðan. Aðeins einu sinni hefur úrkoma í febrúar verið minni en nú. Það var 1977 og mældist úrkoman þá 1,0 mm.

Úrkoma hefur verið mæld á Eyrarbakka að mestu leyti samfellt frá 1924. Á því tímabili hefur úrkoma aldrei verið minni í febrúar en nú (26,2 mm).

Engin úrkoma mældist í Stafholtsey í mánuðinum, en þar hefur verið mælt síðan 1988. Virðist sem úrkoma hafi aldrei mælst minni í febrúar heldur en nú á 16 stöðvum öðrum á landinu.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri fjóra daga í Reykjavík og er það 9 dögum færri en í meðalári. Úrkomudagar af þessu tagi voru einnig fjórir í febrúar 2010. Í Stykkishólmi var sólarhringsúrkoma aldrei 1 mm eða meiri, 12 dögum færri en í meðalári. Það gerðist síðast í febrúar 1977 en hefur annars aldrei gerst þau 158 ár sem úrkomumælingar hafa verið gerðar þar að úrkoma einhvers dags hafi ekki náð 1 mm.

Aldrei varð alhvítt í Reykjavík í mánuðinum og hefur það ekki gerst í febrúar síðan 1977, aldrei varð heldur alhvítt í febrúarmánuðum áranna 1932 og 1965. Að meðaltali voru 13 alhvítir dagar í Reykjavík í febrúar á árunum 1971 til 2000.

Vindhraði á landinu var um 1,4 m/s yfir meðallagi og sá mesti í febrúar síðan 1992. Hvassast varð þann 3. og þann 20. Austanátt var óvenjuþrálát í mánuðinum og hefur aldrei, svo vitað sé, orðið jafneindregin í febrúar og nú. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 986,3 hPa og er það 16,3 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur hefur ekki orðið svona lágur í febrúar síðan 1997.

Þurrkarnir um landið vestanvert hafa verið harla óvenjulegir eins og áður sagði. Heildarúrkoma í janúar og febrúar hefur aðeins fjórum sinnum verið minni í Reykjavík heldur en nú. Það var 1936, 1977, 1941 og 1966. Í Reykjavík hefur verið mælt samfellt síðan 1921, en einnig voru samfelldar mælingar þar 1885 til 1907.

Í Stykkishólmi hefur úrkoma tveggja fyrstu mánaða ársins aðeins einu sinni verið minni en nú. Það var 1936. Byrjað var að mæla haustið 1856.

Meðalloftþrýstingur í janúar og febrúar hefur aðeins fjórum sinnum verið jafnlágur eða lægri í Reykjavík heldur en nú. Mælingaröðin nær aftur til 1823. Árið 1883 byrjaði jafnlágt og nú, en þrýstingur í þessum tveimur mánuðum saman var lægri en nú 1842, 1989 og 1990. Síðastnefnda árið var meðalþrýstingurinn mun lægri en nú.

Vegna þessa ástands það sem af er ári er óhætt að tala um svifrykstíð hér um sunnan- og vestanvert landið. Henni er sem betur fer lokið, í bili a.m.k.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 11:59

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

VÁ!!!!!!!! hvað lesskilningur á íslenska veðurkerfinu er ykkur kólnunarsinnum afskaplega erfiður, Torfi.

Pálmi Freyr Óskarsson, 4.3.2014 kl. 16:29

4 identicon

Alúðarþakkir fyrir slabbleiðindin Trausti. Þú átt alla mína samúð vegna frekju og yfirgangs kolefnisæringjanna.

Á meðan tunguláfarnir stauta fram úr VÁ-inu sínu er kaldaloftsbloggið þitt nokkurn vegin í samræmi við glænýja frétt á mbl.is:

"Kólnandi veður og lúmsk ísing" (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/04/kolnandi_vedur_og_lumsk_ising/)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 16:47

5 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

VÁ!!!!!!!! hvað lesskilningur á íslenska veðurkerfinu er ykkur kólnunarsinnum afskaplega erfiður, Hilmar.

Og enn og aftur þarf ég að minna þig á að passa orða þinna. Reyndar skiljanleg viðbrögð þeirra sem eru rökþrota að uppnefna. Svo vil ég ítreka Hilmar, þó að mér finnst "smávegis" hnattræn hlýnun vera í gangi, þá er ég ekkert endilega sammála um þetta kolefnagjald. Þannig að ég vísa þessum fullyrðingum um frekju og yfirgangs til föðurhúsanna. Og ætti mikið frekar eiga um þig og þinna skoðunarbræðra, Hilmar.

Pálmi Freyr Óskarsson, 4.3.2014 kl. 17:58

6 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Það kom "loksins" miðlungs/mikill snjókoma í Vestmannaeyjum á þessum vetri. Og núna kl.22 er orðið alhvítt á Stórhöfða.

Pálmi Freyr Óskarsson, 4.3.2014 kl. 22:10

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það eru auðvitað hlýindi þegar febrúar mælist sá 25. hlyjasti af 144 mældum með meðalhita upp á 1,7 stig. Því miður eru svo líitl hlýindi að koma heldur þvert á móti éljaveður. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.3.2014 kl. 23:51

8 identicon

Af hverju á Hilmar að gæta orða sinna, Pálmi? Fyrir að svara þér þegar þú uppnefnir mig og kallar mig kólnunarsinna.

Svo talar þú um fólk sem rökþrota sem uppnefnir aðra! Maður, líttu þér nær.

Og hverju ertu að hóta? Að hafa samband við skólann þar sem Hilmar starfar og krefjast þess að hann verði rekinn fyrir að uppnefna mann eins og þig!!!?

Já, það er engu logið um heimskuna í ykkur Eyjapeyjum! Þú virðist vera með verstu eintökumum.

Annars óska ég þér og Vestmannaeyingum öllum til hamingju með langþráða snjókomuna. Vonandi dregur þá eitthvað úr svifryksmenguninni sem hefur verið viðloðandi þessa guðs voluðu eyju alveg síðan eftir gos.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 08:52

9 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Vertu ekki alltaf með einkvað bull Torfi. Og gættu líka orða þinna.

 Kólnunarsinni er ekki eins alvarlegt uppnefni (ef það er þá uppnefni annaðborð) og þið Hilmar notið. Svo ertu í sömu athugunarsemdarfærslu kl. 08:52 með þvílíkar staðhæfulausar fullyrðingar og uppnefni eins og venja. Þ.a.m. þessari einkennilegu fullyrðingu um hótun. Það þarf kannski að fara að hóta þér Torfi fyrir meiðyrði. Það virðist sem þú og Hilmar séu að bíða eftir.

 Ok. Hilmar vinur þinn skilst mér vera því miður til "Vestmannaeying", svo þú telur hann þá vera heimskur. 

Svo fyrst þú ert svona mikið gáfumenni þá ætirðu að vita það er lítið sem enginn svifryksmengun í Vestmannaeyjum.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.3.2014 kl. 15:23

10 identicon

Hótanirnar æði margar er þér tamt að tína til elsku Pálmar. Já, kærðu mig - og Hilmar - endilega fyrir meiðyrði! Ástæðan er ærin eins og þú auðvitað veist manna best. Það að leyfa sér að yrða á fyrirmenni eins og þig er t.d. mikil ósvífni af okkur almúganum.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 15:30

11 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Þetta bull þitt er ekki svaralegt Torfi. Enn samt ætla ég að segja að þið kólnunarsinnar meigi alveg gagnrýna mínar skoðanir. Svo lengi sem maður er ekki kallaður heimskur eða einkvað álíka. Og reyndu svo gáfumennið að hafa nú nafni mitt rétt.

 Þar sem þetta skemmtilega einkaveðurblogg Trausta fjallar um almennt um veður enn ekki um hnattræna hlýnun, þá læt ég rifildri mitt við Torfa lokið.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.3.2014 kl. 16:55

12 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

...allavega í dag.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.3.2014 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband