Í þessari syrpu

Lægsti lágmarkshiti á landinu í núverandi syrpu mældist í Svartárkoti rétt eftir miðnætti (miðvikudag 19. febrúar), -28,9 stig. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur í febrúar í fimm ár, en þann 12. árið 2009 mældist frostið á sama stað -29,0 stig. Árið áður fór febrúarfrostið mest í -30,3 stig í Veiðivatnahrauni annan dag mánaðarins.

Þetta eru allt lágar tölur og talsvert lægri heldur lægst lágmark landsins er að meðaltali í febrúar. Síðustu 10 árin (2004 til 2013) er landsmeðaltalið -24,1 stig - en -22,5 ef aðeins er tekið til stöðva í byggð. Það er annars nokkuð merkilegt hvað hálendisstöðvarnar eru stutt komnar í að hirða upp öll dægurmet mánaðarins, aðeins 7 af 29. Þetta stafar e.t.v. af því hversu vetur hafa verið hlýir á síðustu árum en líka af því að á vetrum ræðst lágmarkshiti mest af útgeislunar- og (van-)blöndunaraðstæðum - en síður af aðstreymi kulda annars staðar frá.

Þetta má e.t.v. sjá með því að athuga hver sé lægsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa-fletinum yfir landinu - í 1000 til 1500 metra hæð - í háloftaathugunum á Keflavíkurflugvelli. Eitthvað vantar inn í röðina, en við höfum samt sæmilegar upplýsingar aftur til áranna upp úr 1950. Lægsti febrúar 850hPa-hitinn á þessu tímabili er -25,7 stig - í miklu kuldakasti 6. febrúar 1969.

Þetta segir okkur að sárasjaldgæft er að hiti fari niður fyrir -25 stig yfir fjöllum landsins. Talan er væntanlega eitthvað algengari yfir landinu norðaustanverðu heldur en yfir Keflavíkurflugvelli - en það gerist samt ekki nema á margra ára fresti. - Auðvitað eigum við eftir að sjá enn lægri hita - en sárasárasjaldan.

Ef við nú ímyndum okkur að 850 hPa-flöturinn standi neðarlega, t.d. í 1000 metrum myndi vel blandað loft sem væri -25 stig í fletinum verða -15 stig við sjávarmál. Þessi hiti (kuldi) er sum sé nokkurn veginn sá mesti sem við getum búist við nærri sjávarmáli hér á landi í hvassviðri (vel blönduðu).

Allur lægri hiti en þetta getur (í febrúar) ekki orðið til nema fyrir útgeislun - og ekki nóg með það heldur verður loftið að fá að liggja óblandað meðan það kólnar.

Í dag (miðvikudaginn 15. febrúar) var 850 hPa-flöturinn í 1340 metra hæð yfir Norðausturlandi og hitinn þar -12 stig (ef trúa má evrópureiknimiðstöðinni). Hefði þetta loft blandast niður í það sem neðar var (í ótakmörkuðu magni) hefði hiti við sjávarmál orðið +1 stig en uppi við Svartárkot -3 stig.

Nú, hitinn í Svartárkoti var einmitt kominn í -3 stig núna á miðnætti (19.2. kl.24) - enda var vindur orðinn 13 m/s. Ekki vitum við hversu þykkt kalda lagið var sem kom hitanum niður í -28,9 stig en þykkt hefur það ekki verið.

En ný dægurlágmörk í þessari syrpu urðu tvö - ekki er svo mjög langt í mánaðarlágmarkið. Það er -30,7 stig, sett í Möðrudal 4. febrúar 1980. Þá var hiti í 850 hPa svipaður og nú (sjá viðhengin).

Landsmeðalhitinn (á sjálfvirkum stöðvum í byggð) fór niður í -4,2 stig í gær, þann 18. og landsmeðallágmarkið (í byggð) var -7,3 stig. Það er 28. febrúar 1998 sem er kaldastur febrúardaga  á sjálfvirku stöðvunum (frá 1996). Þá var landsmeðalhitinn -11,6 stig, meðallágmarkið var -13,8 stig og landsmeðalhámarkið var -9,7 stig. Það síðastnefnda var -2,7 stig í gær.

Af þessum tölum má sjá að þrátt fyrir nýju landsdægurlágmörkin tvö (og mikla hrinu dægurlágmarksmeta einstakra stöðva) hefur loftið yfir landinu ekki verið sérstaklega kalt. Við í nördaheimum skemmtum okkur þó alltaf við ný met.  

Hvert skyldi svo vera elsta dægurmet í febrúar sem enn stendur? Það var sett í Möðrudal þann 14. árið 1888 og sömuleiðis stendur enn met frá sama stað sett þann 22. 1892. Hæsta lágmarksdægurmet febrúar (sem stendur) er það sem er líklegast til að falla á næstu árum, -24,0 stig í Möðrudal 22. febrúar 1986. [Reyndar er met hlaupársdagsins ekki nema -21,3 stig. Það met er betur varið en annarra daga]. Möðrudalur á 15 af 29 dægurmetum febrúarmánaðar.

Annars verður að segjast að veðurlagið er orðið mjög óvenjulegt - austan- og norðaustanáttin virðist ekkert vera á undanhaldi. Þurrkarnir um landið vestanvert verða athyglisverðari með hverjum deginum. Við gefum þessu auga á næstunni.

Hungurdiskar eru í kælingu þessa dagana. Það stafar af önnum ritstjórans við annað - flutninga, tiltektir, fyrirlestragerð og fleira.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir fyrir kuldafróðleiksmolana Trausti:

"En ný dægurlágmörk í þessari syrpu urðu tvö - ekki er svo mjög langt í mánaðarlágmarkið. Það er -30,7 stig, sett í Möðrudal 4. febrúar 1980. Þá var hiti í 850 hPa svipaður og nú (sjá viðhengin)."

En ef hitinn er ekki undirliggjandi á Veðurstofu Íslands þá er hann yfirliggjandi:

"Af þessum tölum má sjá að þrátt fyrir nýju landsdægurlágmörkin tvö (og mikla hrinu dægurlágmarksmeta einstakra stöðva) hefur loftið yfir landinu ekki verið sérstaklega kalt."(sic)

Svo má auðvitað láta trúarhitann ylja sér í frosthörkunum :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 13:32

2 identicon

Ég hef verið að benda á hið einsleita vetrarveður sem ríkt hefur hér síðan í miðjum okt. þ.e. austlægar til norð-austlægar áttir sem hafa verið ríkjandi hér allveg síðan og útlit er fyrir að standi yfir enn um nokkra vikna skeið.

Hita- og veðurfari misskipt á norðurhveli Jarðar

Á meðan veturinn hefur verið mildur í Evrópu, Skandinavíu, Rússlandi og Mið-Asíu, hefur verið fimbulkuldi í allri Norður-Ameríku (að Alaska undanskyldu), og hefur þetta verið svona síðan í byrjun des.

Orsökin fyrir þessu eru háloftavindar

Las mér til að ástæða þessa veðurfars væri óvenjuleg staða háloftamynda (Jetstreams) nú um stundir. Staða þessa háloftavinda er nokkuð stöðug.

Rastir háloftavindanna ná frá norðurhluta Alaska og suður um til suðurríkja Bandaríkjanna, norður eftir Atlantshafi, og svo norður fyrir Skandinavíu og Rússland, og þaðan suður yfir Mongólíu, Kína, og loks norður eftir Kyrrahafi þangað sem hringurinn lokast fyrir norðan Alaska.

Þess vegna er veðrið svona í vetur á norðurhveli Jarðar.

Norðan við rastir háloftavindanna (Jetstrem) er kalt heimskautaloft, en sunnan við þennan háloftavind eru hlýrra loft sem hafið hitar upp.

Þess vegna leita suðlægir vindar t.d. norður eftir Atlantshafinu og inn yfir Evrópu og Rússland með hlýju veðri og vætu, á meðan norðlægir vindar leita suður á bóginn, t.d. inn yfir Norður-Ameríku.

Hvar er Ísland í þessu samhengi

Ísland er í röstinni af þessum háloftavindum, þ.e. á mörkum á kalda og hlýja loftinu.

Þetta gerir það að verkum að hér í röstinni á háloftavindinum eru stöðugur austlægar til norð-austlagar áttir.

Af þessum sökum er hér hvorki heitt né kalt, því hinar suðlægu áttir sem streyma yfir Evrópu og Skandinavíu endurkastast vestur eftir þegar þær lenda í röstinni af háloftavindunum (brún) á háloftavindunum sem liggur yfir Skandinavíu.

Ekki varanlegt ástand

Þó þetta veðurástand hafi vara lengi,þá er þetta ekki varanlegt ástand. Þetta fer að breytast bráðum með hækkandi sól.

Að auki er þetta ástand afleiðing af La Nina veðurfyrirbrigðinu sem hefur verið óvenju sterkt undanfarið ár en mun brátt fjara út og hagstæðara El Ninjo veðurfyrirbrigði taka yfir. Ekki er ólíklegt að í kjölfarið muni hlýna all verulega á þeim svæðum sem þola hafa mátt kalt og óhagstætt tíðarfar undanfarið, t.d. að hér á landi komi all hlýtt og sólríkt veður á næstunni sem muni vara misserum saman.

Björn Logason (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband