Enn um (vont) veður um jólin (nema hvað)

Lægðin djúpa við Skotland á þegar þetta er skrifað (seint á þorláksmessukvöldi) enn möguleika á að verða sú dýpsta það sem af er öldinni. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að þrýstingur verði um 924 hPa frá því kl. 9 til kl. 12 að morgni aðfangadags. Ef svo fer verður hún sjónarmun dýpri en dýpsta lægð síðastliðins vetrar. Aðrar spár eru ekki alveg jafn róttækar.

Lægðin kemst þó ekki nærri því sem almennt er talið lágþrýstimet Norður-Atlantshafs, 914 hPa sem sett var í janúar 1993 (eins og eldri veðurnörd muna auðvitað). Ekki er alveg samkomulag um þessa tölu - kannski fór lægðin sú niður í 911 hPa. Litlu grynnri lægð var á ferð í desember 1986, en svo virðist sem lægðir dýpri en 925 hPa hafi ekki verið margar á 20. öldinni allri.

Lægð dagsins fer rétt norður af Skotlandi en varla svo nærri að þess að lágþrýstimet Bretlandseyja verði slegið - en það er 925,6 hPa og er orðið afgamalt, frá 24. janúar 1884. Um lægsta þrýsting á Íslandi má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

En margt gerist í fjölmiðlum m.a. breyttist dýpsta lægð aldarinnar (það sem af er) í verstu lægð aldarinnar. Þetta er auðvitað fráleitt. Vindur í kringum lægð dagsins er ekkert sérlega mikill miðað við það sem mjög oft gerist við miklu grynnri lægðir. Þessi lægð er hins vegar óvenju stór.

En lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á aðfangadag.

w-blogg241213ab

Lægðarmiðjan er á hreyfingu til norðnorðausturs ekki fjarri Færeyjum (sem þó sleppa sennilega við mikinn vind). Aðalvindstrengurinn norðvestan við lægðina er hér rétt að ná til Íslands. Vesturstrengurinn, við Vestfirði, hefur jafnast og dreifst yfir stærra svæði en var í dag (þorláksmessu). Norðanáttin nær til landsins alls.

Það má líka taka eftir veðurkerfi langt norður í hafi sem merkt er X á kortinu. Þetta er eins konar lægðardrag sem hreyfist til suðvesturs. Það keyrir sig reyndar nærri því í klessu á Grænlandi en sé að marka spána mun það samt valda því að um stund dregur aðeins úr norðaustanáttinni meðan það fer hjá - en síðan nær strengurinn sér upp aftur. En varlegt er samt að taka mark á svona smáatriðum.

Á miðnætti (á þorláksmessukvöld) var Íslandskortið dálítið óvenjulegt. Lítum á það.

w-blogg241213aa

Kortið er fengið af vef Veðurstofunnar. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er (þrýsti-) vindurinn. Versta veður er á Vestfjörðum, suður um Snæfellsnes og austur með norðurströndinni til Eyjafjarðar. Hægt og bjart veður er í innsveitum norðaustanlands. Á kortinu er -12 stiga frost á Egilsstöðum (fór reyndar í -13,7 stig) en tveggja stiga hiti er í rigningu á Akureyri. Varla þarf að taka fram að veðurlag sem þetta ber að taka alvarlega - hugsanlegt er að vindur nái ekki að hreinsa kalda loftið burt áður en úrkoma byrjar - og þá liggur frostrigningin í leyni.

Ritstjórinn varð sjálfur var við frostrigningu og glerhálku henni samfara í Reykjavík í dag - sums staðar í bænum rigndi á frostkalda jörð en annars staðar snjóaði í krapa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Nýjustu útreikningar hjá mér (sem eru bara í huganum á mér) benda til þess að lægðin fari alveg niður í 920 hPa og kannski alveg niður í 918 hPa fái lægðin (ef hægt er að kalla þetta það) næga orku í slíkt verk. Það er þó ekki ennþá alveg ljóst ennþá í mínum huga ennþá, þar sem spár eru ennþá misvísandi hjá mér varðandi þetta atriði.

Það er þó hugsanlegt að orkan á bak við þetta veðrakerfi komi beint úr hafinu og þá gæti bætt eitthvað í viðbót frá því sem nú er. Þó ekki mikið frá þeim tölum sem ég gef núna upp og útreikningar mínir í huganum sýna. Þó eru þar líklega einhverjar skekkjur og villur.

Þetta veðrakerfi er nær því að vera fellibylur frekar en einföld lægð, slík er stærðin á því. Þetta veðrakerfi er að valda veseni um flest alla vestur Evrópu núna í dag.

Jón Frímann Jónsson, 24.12.2013 kl. 02:10

2 identicon

U.þ.b. 400.000 heimili í austurhluta Kanada og önnur 400.000 í norðurhluta Bandaríkjana eru rafmagnslaus.

50.000 heimili í Quebec eru rafmagnslaus og 6000 í New Brunswick.

Spáð er -15°C í suðurhluta Kanada á næstu dögum.

> http://www.bbc.co.uk/news/world-us-canada-25499753

90mph snjóstormur skall á í Skotlandi í gærkvöldi.

> http://news.stv.tv/scotland/258015-christmas-eve-storm-with-90mph-winds-and-snowfall-to-hit-scotland/

Versti ísstormur sögunnar skellur á Toronto. Stormurinn minnir á "ísstorm aldarinnar" 1998 þegar 35 létu lífið, milljónir trjáa brotnuðu og íbúar austur-Kanada urðu rafmagnslausir í rúman mánuð.

> http://www.theglobeandmail.com/news/toronto/five-things-to-know-about/article16083698/

> http://www.theglobeandmail.com/news/national/at-least-five-killed-thousands-without-power-as-ice-storm-hits-quebec/article16083278/

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 24.12.2013 kl. 11:17

4 identicon

Já, Pálmi. Aftur á móti er versnandi veðurfar að gera Ísland óbyggilegt.

Allt þetta ár hafa hvert botnmetið af veðurfyrirbrigðum verið slegið. Versta sumar í áratugi, fleiri mánuðir með hita undir meðallagi, úrkomumet yfir sumarmánuðina, versti desember í áratugi, jöklar farnir að stækka, og verstu mánuðir vetrarins eftir, þ.e. janúar og febrúar sem verða enn verri en núverandi desember.

Svo fáum við kalt vor og sumar sem verður álíka slæmt og sumarið 2013.

Það er alla vegana ekki að hlýna á Íslandi og því mun fólk fara að flytja af landi brott í stríðum straumum næstu árin

Gunnar Hrafn (IP-tala skráð) 25.12.2013 kl. 03:37

5 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Sammála þér að árið 2013 er ekkert sérstaklega gott Gunnar Hrafn. Enn ekki er það heldur neitt vont.

Eina slæma við árið 2013 tengt Vestmannaeyjum er mikil ársúrkoma á Stórhöfða. Enn hún er kominn einhverstaðar inná topp 10 fyrir Stórhöfða.

Pálmi Freyr Óskarsson, 25.12.2013 kl. 17:25

6 identicon

Gleðileg jól, veðurbarðir veðurnördar sem og aðrir landsmenn!

"Það er ekkert ferðaveður á landinu, ýmist hvassviðri og hríð, éljagangur, sandfok eða fljúgandi hálka.

Það er fært á milli borgarhluta í Reykjavík og Reykjanesbrautin er fær en bílar hafa lent í vandræðum á Vesturlandsvegi, Þingvallavegi, Hellisheiði og Suðurstrandavegi. Njótum jólanna heima fyrir."

> http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/25/ekkert_ferdavedur_a_landinu/

"Útlit fyrir norðanhvassviðri eða -storm um mestallt land með snjókomu eða éljagangi á N-verðu landinu, en slyddu eða rigningu A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu í nótt og á morgun, en hvessir líklega aftur og snjóar talsvert NV-til á föstudag."

(Skrifað af vakthafandi veðurfræðingi 25.12.2013 18:38)

Samkvæmt veðurspá er frost og snjókoma í kortunum fram á nýárið og vetrarfærð um allt land.

Þeir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kannast við þetta tíðarfar frá 1970 - 1990 - en bíddu nú við - þá var enginn að fjasa um meinta "óðahlýnun". Þvert á móti höfðu menn áhyggjur af kólnandi veðurfari :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.12.2013 kl. 19:03

7 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Viðsvegar um landið er nú hlýtt þó að það sé sterk norðanátt í gangi, Hilmar.

 Manni líður eins og það ætti ekki að vera 3 stiga hiti núna á Stórhöfða heldur 5-10 stiga frost.

Pálmi Freyr Óskarsson, 25.12.2013 kl. 19:41

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvaða botnfyrirbrigði í veðrinu hafa eiginlega verið slegin allt þetta ár?  Þau hafa bara alveg farið framhjá mér nema eitt og eitt dægurmet sem sem sætir ekki tíðindum  en hins vegar voru janúar og febrúar með þeim hlýjustu. En alvöru botnmet finn ég ekki að ráði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.12.2013 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1099
  • Sl. sólarhring: 1109
  • Sl. viku: 3489
  • Frá upphafi: 2426521

Annað

  • Innlit í dag: 984
  • Innlit sl. viku: 3140
  • Gestir í dag: 951
  • IP-tölur í dag: 880

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband