Ætlar lægðin ekki að hitta í það?

Lægðin sem virtist geta orðið sú dýpsta í 20 ár (og þar með á þessari öld) sýnist nú hafa tognað á ökkla rétt á síðustu metrunum. Það er erfitt að slá met undir slíkum kringumstæðum þótt aðeins séu fáeinir metrar í mark. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna kl. 18 á þorláksmessu - með augum evrópureiknimiðstöðvarinnar.

 w-blogg231213a

Þarna er lægðin komin „of langt“ og er aðeins 944 hPa í lægðarmiðju. Hún hefur misst af stefnumóti við það sem við getum kallað veðrahvarfafleyg (eða þannig). Hann situr eftir sem sérstök lægðarmiðja aftan við aðallægðina. Stefnumótið átti að eiga sér stað um það bil þar sem rauða stjarnan er á myndinni. En ef marka skal líkanið á aðallægðin þó að hala hina inn og dýpka niður fyrir 930 hPa - en það er ekkert met - ekki einu sinni fyrir öldina því enn lægri tala sást í fyrra.

Hvað sem þessu líður er lægðin samt óvenjudjúp og niðurstaða dýptarkeppninnar hefur engin áhrif á veður hér á landi. Vindstrengurinn sem fylgir lægðinni að norðvestanverðu er nær sá sami og spáð var í gær. Hann er á kortinu nærri því sólarhring frá því að ná til Íslands. Vestfjarðastrengurinn er hins vegar kominn inn á Vestfirði á þessu korti og þokast til suðausturs - eins og fjallað var um í gær.

En það má líka minnast á minni streng - sá á að koma úr suðri og ganga norður um Reykjanes og Faxaflóa undir morgun á þorláksmessu. Kannski fylgir honum einhver jólasnjór? En vestanáttin lætur fljótt undan síga og er um það bil úr sögunni á kortinu að ofan.

Hér mega hraðlæsir hætta að lesa - ófærð er framundan.

Vestanvindstrengurinn kemur skemmtilega fram á þversniðinu hér að neðan sem er tekið eftir línu sem liggur norður með útnesjum vestanlands (sjá litla kortið í efra hægra horni).

w-blogg231213b 

Hér er hann kominn norður á miðjan Faxaflóa (breiddarstig Reykjavíkur er þar sem svarta lóðrétta örin bendir). Vindhraði í kjarna éljagarðsins sem fylgir sýnist vera um 16 m/s. Hann virðist detta snögglega á því sáralítill vindur (grænir litir) er á undan, en nær ekki nema upp í 850 hPa. Alvörustrengurinn úti af Vestfjörðum er hins vegar til hægri á myndinni (rauðir litir). Þar er vindhraði 28 m/s (sjá litakvarða og vindörvar) af norðaustri (örvarnar sýna stefnu eins og um venjulegt veðurkort væri að ráða).

Heildregnar línur sýna mættishita (við höfum ekki áhyggjur af honum) - en þeir sem rýna í línurnar geta séð að ámóta hiti er í neðri lögum frá hægri til vinstri á myndinni. Norðaustanáttin er ámóta köld og vestanáttin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Mínum spám ber ekki saman. Ég er samt að sjá vísbendingar um að þetta gæti hugsanlega verið verra. Séstaklega ef lægðin finnur auka orku einhverstaðar í kjölfarið á þessu. Spurning hvort að það dugi til þess að koma lægðinni niður fyrir 924 hektopasköl.

Jón Frímann Jónsson, 23.12.2013 kl. 17:47

2 identicon

Mesta snjókoma í Calgary í Kanada í 112 ár!

> http://www.cbc.ca/news/canada/snow-freezing-rain-frigid-weather-expected-through-weekend-1.2470237

2013 stefnir í að vera eitt af 10 köldustu árum í sögu Bandaríkjanna frá 1895!

> http://stevengoddard.wordpress.com/2013/12/20/2013-one-of-the-ten-coldest-years-in-us-history-with-the-largest-drop-in-temperature/

Al Gore veit ekki hvað hann talar um (einu sinni enn). Veðurfræðingurinn Joe Bastardi les í yfirlýsingar A.G. um ofurstorminn Sandy: "Al Gore er annað hvort átakanlega fávís eða átakanlega lyginn". (Skylduáhorf fyrir þá sem ganga með áunnar áhyggjur af meintri aukningu "veðuröfga"):

> http://www.mrctv.org/videos/joe-bastardi-destroys-al-gores-recent-comments-about-super-storm-sandy

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 20:16

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hilmar, það er líka hægt að finna óvenju heita staði hingað og þangað. Til dæmis í Bandaríkjunum að sögn Sky News í nótt. Og svo er óvenju heit norðanátt á Íslandi eins og er.

Pálmi Freyr Óskarsson, 24.12.2013 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 25
  • Sl. sólarhring: 224
  • Sl. viku: 1341
  • Frá upphafi: 2349810

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1220
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband