Linast enn

Reiknimiðstöðvar linast enn á veðrinu á miðvikudaginn. Kannski svipað og búast mátti við þegar harkan birtist frekar óvænt í miðvikudagsspánum á laugardaginn. Það er þó heldur ankannanlegt að gera spár um það hvernig veðurspár muni þróast. Það er þó sá raunveruleiki sem spáveðurfræðingar þurfa að fást við. Ritstjóri hungurdiska getur þó meldað pass - hann spáir engu [þótt hann þurfi stöðugt að vera að ítreka þá ritstjórnarstefnu]. Ætli raunveruleikinn sé ekki sá að oftar sé hér fjallað um vitlausu spárnar heldur en þær réttu.

En hvað um það - lesendur eru enn þreyttir með miðvikudagshádeginu. Þar var komið sögu í gær að reiknimiðstöðvar höfðu linast umtalsvert á illviðraspánni. Sú þróun hefur haldið áfram í dag - en veðrið er samt ekki búið. Það er ekki kominn miðvikudagur og því síður fimmtudagur.

w-blogg221013a

Þetta er 500 hPa hæðar- og hitakort sem gildir á hádegi á miðvikudaginn (23. október). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Háloftalægðin er 20 metrum grynnri heldur en í spánum í gær og 80 metrum grynnri heldur en hún var í spám á laugardaginn. Hér er hún við Snæfellsnes og nærri því orðin kyrrstæð í bili. Alla vega á hún að fara stutt til hádegis á fimmtudag (framhaldsörin). Hún hefur skilið kaldasta loftið eftir vestast á Grænlandshafi.

Við tökum eftir því að bæði hiti og flatarhæð hækka til austurs yfir Íslands. Hitamunurinn á milli Vestur- og Austurlands nýtist því ekki til að búa til vind að ráði á þeirri leið. Fyrir norðan lægðina hagar öðruvísi til. Þar ganga jafnhitalínur alveg þvert á jafnhæðarlínurnar og léttir hvor brattinn um sig ekkert af hinum. Þar er því rúm fyrir mikinn vind neðar í veðrahvolfinu.

Þetta sést vel á hinu kortinu sem sýnir hæð 925 hPa-flatarins auk vinds og hita í fletinum. Það gildir líka á hádegi á miðvikudag. Kortið skýrist mikið við stækkun.

w-blogg221013b

Þarna sést illviðrið úti af Vestfjörðum og í Grænlandssundi norðanverðu mjög vel og gott væri að sleppa alveg við það. Rauða x-ið er sett um það bil þar sem miðja háloftalægðarinnar er á sama tíma. Svarta örin hins vegar hreyfistefnu lægðarinnar norðan við land. Það er eins og háloftalægðin dragi hana til sín - og sveifli rétt vestur fyrir sig. Ef trúa má spám hafa lægðirnar sameinast um hádegi á fimmtudag og þá yfir landinu sunnan- eða suðvestanverðu. Fari svo fer illviðrið að mestu framhjá landinu.

En litlu má muna og gæti hvesst bæði á Vestfjörðum og Snæfellsnesi með hríðarbyl á heiðum. Gusa af köldu lofti kemur að norðan eins og sjá má á 925 hPa-kortinu og gæti kastað éljum víðar á landinu.

En fyrir alla muni takið eftir því að hér er ekkert fjallað um veður þriðjudagsins og aðfaranætur miðvikudags og hér er ekki verið að spá miðvikudagsveðrinu - fylgist með spám Veðurstofunnar og sjónvarpsspánum ef þið eigið eitthvað undir veðri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1046
  • Sl. sólarhring: 1113
  • Sl. viku: 3436
  • Frá upphafi: 2426468

Annað

  • Innlit í dag: 933
  • Innlit sl. viku: 3089
  • Gestir í dag: 905
  • IP-tölur í dag: 838

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband