Kalt lægðardrag fer mjög hratt hjá

Þriðjudagurinn fer í það að koma köldu lægðardragi úr vestri suðaustur yfir landið. Því fylgja él eða snjókoma eða slydda á Suður- og Vesturlandi. Allt frekar flókið með smálægð undan suðurströndinni en lægðardragi við landið vestanvert. Þetta er frekar hráslagalegt - en samt venjulegt.

w-blogg081013a

Við getum talað um hitann með því að tala um þykktina. Kortið gildir kl. 18 á þriðjudag. Jafnþykktarlínur eru heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur í litum. Þykktin segir til um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, frá rúmum 5 kílómetrum og niður. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem liggur rétt suður af Reykjanesi.

Það er nægilega kalt til þess að gera verður ráð fyrir snjókomu - en í vindi sem stendur af hafi líður snjókomu ekki vel sé þykktin meiri en 5200 metrar, nema að úrkoma sé áköf (alltaf þetta „nema“).  Hér er kalt í 850 hPa-fletinum og frostið þar á bilinu 6 til 8 stig yfir öllu landinu vestanverðu. Þegar 850 hPa hitinn er undir -5 stigum er talið líklegt að úrkoma falli sem snjór (segir ágæt þumalfingursregla).

Sé rigning áköf og vindur hægur aukast líkur á að hún breytist um síðir í snjókomu. En - bleyta breytist líka í ís í björtu veðri - t.d. á aðfaranótt miðvikudags. Við ættum að hafa hálkuna í huga - reyndar eigum við alltaf að hafa hana í huga.

Lægðardragið sést mjög vel á 500 hPa-kortinu hér að neðan. Það gildir á sama tíma og þykktarkortið. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - en hiti er sýndur með litum. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og styrk.

w-blogg081013b

Hér er lægðardragið yfir landinu vestanverðu - en mikill norðvestanstrengur er vestan við það. Það er þumalsfingurregla að sé styrkur vindstrengsins mestur í bakið á mestu lægðarbeygju í lægðardrögum vill lægðardragið grafast til suðurs eða suðausturs og mynda þar lokaða lægð. Þannig er háttað nú. Dragið myndar háloftalægð sem smám saman dýpkar og rennur suðaustur til Bretlandseyja. Allt verður þar til leiðinda næstu daga.

Lægðardrög þar sem beygjan fylgir í bakið á vindhámarkinu vilja hins vegar lyftast (sem kallað er) - taka á skrið, grynnast og reyna að elta vindstrenginn. Allt er þetta þó þumalsfingursboðskapur sem við þurfum svosem lítið á að halda nú á dögum - en var raunverulegt hey í tölvuleysisharðindum fyrri tíðar. Lesendur þurfa því ekki að íþyngja sér með fleiri þumalfingrum. En ritstjórinn er samt sífellt að minnast á þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn lengir mig eftir árlegu yfirliti þínu yfir 12 mánaða tímabilið (september 2012-ágúst 2013) sem gefur mjög gott yfirlit yfir þróun hitastigs hér á landi, ekki aðeins á ársgrundvelli heldur einnig á fimm og 10 ára tímabili.

Í fyrra sýndir þú fram á að að hlýindin hafa nú staðið í um hálfan annan áratug (líklega frá 1997 [réttara 1998?] því talað er um kuldatímabilið 1966-96).

Gaman væri að sjá hvort komið sé bakslag í þetta eftir kuldann í sumar.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.10.2013 kl. 10:16

2 identicon

Ósköp venjulegt veður:

"Þriðjudagurinn fer í það að koma köldu lægðardragi úr vestri suðaustur yfir landið. Því fylgja él eða snjókoma eða slydda á Suður- og Vesturlandi. Allt frekar flókið með smálægð undan suðurströndinni en lægðardragi við landið vestanvert. Þetta er frekar hráslagalegt - en samt venjulegt."(!)

Jamm, "frekar hráslagalegt - en samt venjulegt"(sic)

Svona rita bara menn sem eru í botnlausri afneitun á ástandinu:

"Í morgun var alhvítt í Reykjavík og mældist snjódýptin 13 cm og er hvergi meiri á landinu. Mun þetta vera næst mesta snjódýpt sem hefur mælst í októtber í höfuðborginni en mest hefur mælst 15 cm þ. 22. árið 1921. Ekki byrjaði þá að snjóa fyrr en eftir miðjan mánuð. Snjódýptin í morgun mun því vera mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík svo snemma hausts frá stofnun Veðurstofunnar. Einstaka sinnum hefur fest snjó í september, mest 8 cm þ. 30. 1969.

Alautt að staðaldri í vor varð 25. apríl og hefur snjólausi tíminn því varað í 165 daga. Frá 1924 er það þriðji minnsti fjöldi snjólausra daga að sumri ásamt 1969. Færri voru þeir 1990, 154 dagar, en 1967 voru þeir 158. Meðaltalið frá 1949 eru 200 dagar." (http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/#entry-1319073)

Vinsamlegast takið eftir þessu góðir hálsar:

a)"Snjódýptin í morgun mun því vera mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík svo snemma hausts frá stofnun Veðurstofunnar."

b) "Frá 1924 er það þriðji minnsti fjöldi snjólausra daga að sumri ásamt 1969."

Svo telja svona spekingar sig umkomna að "gjaldfella" aðra Íslendinga fyrir að voga sér að gagnrýna spekina :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.10.2013 kl. 17:13

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hvað á þettta að sanna um meinta kólnun þína, Hilmar?

Pálmi Freyr Óskarsson, 8.10.2013 kl. 17:47

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Tólf mánaða meðalhiti er nú lítillega hærri en hann varð lægstur á árunum 2005 til 2007. Það ræðst ekki fyrr en eftir áramót hvort hann er að detta mikið niður. Janúar og febrúar á þessu ári voru mjög hlýir og 12-mánaðahitinn lækkar mest þegar þeir detta út úr meðaltalinu, það er að segja ef enginn mánaðanna október til febrúar nær hæstu hæðum. Nóvember var kaldur í fyrra þannig að meðalnóvember í ár myndi hækka 12-mánaðahitann. En þetta kemur víst í ljós.

Trausti Jónsson, 8.10.2013 kl. 23:34

5 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Ég var reyndar að spyrja um 10 ára tímabilið (120 mánuðina) sem þú skrifaðir um í fyrra (ef ég man rétt).

Þá skrifaðir þú líka um október í fyrra og bentir á að enn vanti "herslumun upp á að hlýindin á síðari árum nái hæsta 30 ára meðaltali hlýindaskeiðsins um miðja 20. öld. ... Í október ... vantar mikið upp á hitann og satt best að segja hafa októbermánuðir síðustu 30 ára verið lítið hlýrri heldur en gerðist á fyrsta þriðjungi 20. aldar."

Nú stefnir í fínan október (miðað við spána hjá yr.no næstu 10 daga). Nær hann að koma síðasta 30 ára tímabili á toppinn ef svo heldur sem horfir?

Torfi Kristján Stefánsson, 9.10.2013 kl. 13:48

6 identicon

Hlýindaskeiðið um miðja 20. öld er tabú hjá heittrúarsinnum á Veðurstofu Íslands. Sérstaklega er varhugavert að minnast á það hitamet sem sett var á Teigarhorni 22. júní 1939 (30,5°C) - og stendur enn :)

Veldisvöxt í fjölda sjálfvirkra stöðva á Íslandi á síðustu meintu óðahlýnunartímum má túlka sem örvæntingarfulla tilraun spámanna Veðurstofunnar að fanga nýtt hitamet á landinu bláa.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.10.2013 kl. 17:30

7 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Þú gleymir alltaf að skoða hvenær flestu kuldametin á láglendi eru, Hilmar.

Pálmi Freyr Óskarsson, 9.10.2013 kl. 19:01

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Pálmi - það er nú margt sem Hilmar gleymir í þessari umræðu - m.a. kurteisi, svo minnst sé á eitt lítið atriði...

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.10.2013 kl. 19:17

9 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Rétt er það Sveinn, kurteisi er ekki hans sterkasta svið.

Pálmi Freyr Óskarsson, 9.10.2013 kl. 23:28

10 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi - enn stendur til að ég fjalli um 10 og 30 ára meðaltölin og stöðu þeirra. Einn mánuður hefur ekki mikil áhrif á 120 mánaða tímabil nema að hann sé með afbrigðum kaldur eða hlýr, jafnmiklu máli skiptir hvaða mánuðir það eru sem detta út. Árið 2003 var með afbrigðum hlýtt - það er því ekki skrýtið að 120-mánaða meðaltalið lækki á þessu ári - en janúar og febrúar héldu þó aftur af lækkun. En gagnvart 360 mánaða meðaltalinu stendur þannig á að nú er 1983 að detta út og 2013 kemur í stað þess. Fyrrnefnda árið var eitt það kaldasta á kuldaskeiðinu og árið í ár þyrfti því að vera fádæma kalt til að koma í veg fyrir að 360 mánaðarmeðaltalið hækki - það er það ekki sem af er. En ég fjalla vonandi nánar um þetta á næstunni.

Trausti Jónsson, 10.10.2013 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 337
  • Sl. sólarhring: 397
  • Sl. viku: 1299
  • Frá upphafi: 2421399

Annað

  • Innlit í dag: 317
  • Innlit sl. viku: 1157
  • Gestir í dag: 309
  • IP-tölur í dag: 305

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband