Dýpkar hratt?

Eftir suðaustanslagviðrið í dag (þriðjudag) þar sem 10-mínútna meðalvindhraði í Ólafsvík komst í 28,8 m/s (og 49,8 m/s hviða mældist á Miðfitjahól á Skarðsheiði) er nú mun hægari suðvestanátt með skúrabreyskju. En það er spurning með næstu lægð.

Þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil á þriðjudagskvöldi) sést ekki neitt af lægðinni nýju á hefðbundnum sjávarmálsþrýstikortum, en hún leynist vart reyndum augum í háloftunum. Þessi reyndu augu geta þó ekki með nokkru móti séð hvað úr verður nema með aðstoð tölvureikninga -eins og venjulega eru þeir ekki sammála. Bandaríska gfs-líkanið gerir heldur minna úr en þeir sem byggja á evrópureiknimiðstöðinni. Við skulum líta á útkomu dönsku veðurstofunnar.

w-blogg110913aa

Þetta kort gildir um hádegi á miðvikudag. Lægðin er að verða til - hefur varla komið sér upp sjálfstæðri jafnþrýstilínu en samt er um greinilega miðju að ræða - 1006 hPa. Rétt er að muna að úrkoman (sem litirnir sýna) er sú sem fallið hefur síðastliðnar þrjár klukkustundir - úrkomusvæðið sýnist af þeim sökum vera liggja aðeins á eftir lægðinni.

En 18 klst síðar, á fimmtudagsmorgni kl. 6 er lægðin komin alla leið norður fyrir land og orðin 977 hPa djúp.

w-blogg110913a

Hún hefur því dýpkað um 29 hPa á 18-klukkustundum og gerir betur en að falla undir skilgreininguna amerísku um „sprengilægð“. Æ-íslenska þýðingin lætur standa á sér (en kemur vonandi síðar).

Evrópureiknimiðstöðin er nokkurn veginn sammála hirlam en lægðin fer þó ekki nákvæmlega sömu leið að hennar mati. En ljóst er að loftvog hríðfellur á undan lægðinni og hrekkur upp aftur á eftir henni. Um vindinn er best að segja sem minnst og hvetja þá sem þurfa á vindaspá að halda að fylgjast með því sem Veðurstofan segir um málið. Enn er ekki fullvíst að lægðin verði svona snörp eins og hér er sýnt.

Við skulum líka líta á kvikuábendikort (sjá færslu í fyrradag) harmonie-líkansins sem gildir á sama tíma og síðara kortið hér að ofan (kl. 6 að morgni fimmtudags).

w-blogg110913c

Kortið og kvarði batna mjög við stækkun. Vindörvar sýna vindstefnu og vindhraða en lituðu svæðin sýna mat líkansins á kviku í lofti. Ritstjórinn er að feta sig áfram með þýðingu á enska heitinu turbulent kinetic energy(TKE). Einingin sem fylgir er einkennileg og hægt að lesa hana á ýmsa vegu [metrar í öðru veldi á sekúndu í öðru veldi - eða hverfiþungabreyting á sekúndu]. Síðari lesturinn gæti gefið til kynna að kalla ætti þetta kvikuþunga eða hverfiskrið - en það kemur allt i ljós þegar búið er að skrifa og segja orðin hundrað sinnum eða svo.

En kvikuþunginn er langmestur yfir fjöllum norðanlands - þar er vindur líka mestur. Kannski að vestanáttin rífi sig niður á þeim slóðum og reyti upp lausamuni sem menn hafa gleymt að koma í skjól. Flestir munu þó sofa í ró á sínu eyra meðan lægðin gengur hjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Tke gæti verið spunaorka

Sigurjón Jónsson, 11.9.2013 kl. 13:22

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson


Bylgjan | 11. september 2013 18:28

RS - Hlýnun jarðar er staðreynd þrátt fyrir fréttir um annað,

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður ræddi við okkur um misvísandi fréttir af hlýnun eða kólnun jarðar.

 http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP20892

Pálmi Freyr Óskarsson, 11.9.2013 kl. 20:19

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Spunaorka - e.t.v. - rétt að segja það nokkrum sinnum. Var eitthvað verið að tala um hlýnun jarðar hér? Hér er ekki vettvangur fyrir skilaboð milli lesenda um gjörsamlega ótengt efni.

Trausti Jónsson, 12.9.2013 kl. 01:01

5 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Fyrirgefðu Trausti, vissi ekki að það séu reglur hjá þér að maður verður að koma með athugunarsemdir sem tengist beint umfjöllun hvers færslu. Þú mátt alveg henda athugunarsemdun hér fyrr í dag út af ef þetta angrar þig einhvað.

Pálmi Freyr Óskarsson, 12.9.2013 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 795
  • Sl. sólarhring: 869
  • Sl. viku: 2590
  • Frá upphafi: 2413610

Annað

  • Innlit í dag: 742
  • Innlit sl. viku: 2342
  • Gestir í dag: 723
  • IP-tölur í dag: 705

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband