Greiðar leiðir

Sú staða er nú uppi að lægðir ganga mjög greiðlega hver á fætur annarri til norðausturs- og austurs um Atlantshafið í nágrenni Íslands. Auðvitað eru brautir þeirra aldrei alveg eins og misjafnt hvort þær fara norðvestan við landið, yfir það eða suður af. Sömuleiðis eru þær misdjúpar - en virðast ekki ná að breyta mynstri háloftavinda svo heitið geti og flestar eru þær á svipuðu aldurs- og þroskaskeiði þegar hingað er komið. Þessu ástandi linnir auðvitað en framtíðarspár sjá engin merki þess þegar þetta er skrifað - seint á sunnudagskvöldi 8. september.

Við lítum á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir mánudaginn 9. september kl. 18.

w-blogg090913a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum (kvarði og kort skýrast mjög við stækkun). Greið leið liggur frá Kanada í vestri um Ísland og norðaustur til Svalbarða - fyrirstöður og afskornar lægðir ríkja hins vegar yfir Evrópu norðanverðri. Þessi kerfi hrökkva aðeins til þegar lægðabylgjur greiðu leiðarinnar skjótast hjá.

Þriðjudagslægðin okkar liggur í snörpu lægðardragi sem má kortinu er rétt norðaustur af Nýfundnalandi og sú sem væntanleg er á fimmtudag er að verða til yfir Hudsonflóa. Síðan er minnst á lægð á sunnudag og aftur á miðvikudag í næstu viku - en framtíðin utan við fjóra daga eða svo er í raun mjög óviss í líkanheimum - og breytingar yfir í eitthvað allt annað auðvitað hugsanlegar. Munum líka að lægðirnar fara aldrei alveg sömu leið.

Eins og sjá má eru óvenjuleg hlýindi í Norður-Noregi rétt eins og í mestallt sumar. Meðalhiti í Vardö var að sögn þremur stigum ofan meðallags. Það er eins og Reykjavík fengi tæplega 13 stiga sumar - þrjá mánuði í röð. Mælingar í Vardö byrjuðu 1840 og hefur sumarið aldrei verið jafnhlýtt eða hlýrra þar um slóðir. Hiti var mjög óvenjulegur í Noregi í dag (sunnudag) og fór yfir 25 stig bæði á Mæri og í Þrændalögum. Eftir kortinu að ofan að dæma gæti það gerst aftur á morgun - þykktin er yfir 5580 metrum á allstóru svæði.

Annars er blái liturinn farinn að breiða úr sér á kortinu en hann sýnir það svæði þar sem þykktin er minni en 5280 metrar. Bláminn nær yfir stærra svæði heldur en hann gerði sama dag í fyrra en tökum eftir því að bláu litirnir eru ekki nema tveir. Það þýðir að þykktin er á kortinu hvergi lægri en 5160 metrar. Þetta er hlýrra lágmark heldur en var lengi vel í ágústkuldapollinum yfir Norðuríshafi. Við fylgjumst spennt með komu vetrar á norðurslóðum.

Óvenjuleg hlýindi eru í norðanverðum miðvesturríkjum Bandaríkjanna þar sem þykktin á að skjótast upp fyrir 5820 metra síðdegís á mánudag (að staðartíma). Eitthvað velta menn fyrir sér metum þar um slóðir - en við getum ekki velt okkur upp úr því.  

Hér á landi var hámarkshitinn í dag rúm 19 stig á Skjaldþingsstöðum - og fór þar og víðar yfir 20 stig í gær það er harla gott og mánuðurinn þar með kominn í hóp tuttugustigaseptembermánaða. Búist er við skammvinnu hlýindaskoti með þriðjudagslægðinni - en það fer mjög fljótt hjá og því óvíst með 20 stigin þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Þsð er nú verið að spá norðanátt á sunnudag, bæði á yr.no og á vedur.is.

Auk þess spáir norska stöðin áframhaldandi norðanátt í næstu viku, allt fram á miðvikudag eða svo langt sem langtímaspáin nær.

Svo ekki veit ég hvaðan þú hefur þessa speki þína um að "framtíðarspár sjá[i] engin merki" breytinga á lægðaganginum.

Torfi Kristján Stefánsson, 9.9.2013 kl. 12:59

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú Torfi norðanátt gerir þegar lægðirnar komast greiðlega austur fyrir land - en enn sjást engin merki um breytingar á lægðaganginum mikla hjá reiknimiðstöðvum. En spár bregðast og e.t.v. endist hugsanleg norðanátt sunnudagsins eitthvað - hver veit?

Trausti Jónsson, 10.9.2013 kl. 01:39

3 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Samkvæmt nýjustu spám virðist sem lægðargangurinn fari hjá á fimmtudagsmorguninn og það verði hæð yfir landinu frá og með sunnudegi - hæg norðan átt frá þriðjudegi og fram á fimmtudag.

Það er auðvitað ekkert gaman fyrir veðurfræðingana, lítið að gerast í kortunum, en þeim mun skemmtilegra fyrir almenning. Þá er hægt að fara að taka upp kartöflur og ná síðustu berjunum fyrir frost.

Torfi Kristján Stefánsson, 11.9.2013 kl. 11:19

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi - það er vonandi að friður gefist til að taka upp kartöflurnar í þurru veðri og fyrir frost. Gæsir og mávar eru búin að éta berin.

Trausti Jónsson, 12.9.2013 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 274
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 1236
  • Frá upphafi: 2421336

Annað

  • Innlit í dag: 255
  • Innlit sl. viku: 1095
  • Gestir í dag: 249
  • IP-tölur í dag: 246

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband