Af tuttugu stigum sumarsins og hæsta hita ársins til þessa

Nú er kominn september og líkur á tuttugu stiga hita falla með hverjum deginum sem líður. Þó er það þannig að hiti hefur náð 20 stigum einhverstaðar á landinu í 16 af síðustu 20 septembermánuðum. Þó hvorki í fyrra né hitteðfyrra. Miðað við gildandi spár næstu vikuna er líklegt að núlíðandi september fylgi meirihlutanum því þykktinni er spáð vel yfir 5500 metra um helgina. Fimm til sjö daga spár um háa þykkt hafa þó oftar en ekki farið í vaskinn í sumar.

Í viðhenginu er langur listi sem sýnir hæsta hita ársins á veðurstöðvum landsins fram til þessa og hvaða dag (og klukkustund) hann mældist. Við fylgdumst nokkuð grannt með slíkum listum í júlí - en síðan hafa aðeins fáeinar stöðvar lifað sína hlýjustu stund. En lengi er þó von - hæsti hiti ársins til þessa á Siglunesi mældist ekki fyrr en 23. ágúst, 20,3 stig og sama dag mældist hæsti hiti ársins á Lambavatni, 18.6 stig. Fáeinar stöðvar mældu hæsta hita sinn í júnímánuði.

Nördin horfa væntanlega skörpum augum sínum á listann þar sem finna má almennar sjálfvirkar stöðvar, vegagerðarstöðvar og mannaðar. Við skulum teygja okkur í hæstu og lægstu gildin í almenna flokknum.

ármándagurklsttxnafn
20137211426,4Ásbyrgi
20137101526,1Egilsstaðaflugvöllur
20137101726,0Hallormsstaður
20137211526,0Skjaldþingsstaðir
20137241525,9Veiðivatnahraun
2013831516,4Kambanes
2013717916,2Seley
20137231416,0Garðskagaviti
2013841215,9Stórhöfði
20137211113,0Brúarjökull B10

Útnes og jöklar eru á botni listans, en þekktir hlýindastaðir norðaustan- og austanlands sitja á toppnum. - Og auðvitað mettalan í Veiðivatnahrauni.

Í hinu viðhenginu er listi sem sýnir hversu margar klukkustundir hámarkshiti hefur náð 20 stigum á árinu á hverri stöð. Þessi listi nær aðeins til almennu stöðvanna - og allar stöðvar sem ekki náðu markinu vantar að sjálfsögðu. Hverjar þær eru má sjá í árshámarkslistanum. Efstar á blaði eru eftirtaldar stöðvar:

stöð árfjöldinafn
4060201383Hallormsstaður
4323201382Grímsstaðir á Fjöllum
5940201381Brú á Jökuldal
4271201378Egilsstaðaflugvöllur
4614201376Ásbyrgi

Hallormsstaður er í toppsætinu, þar hefur hiti náð 20 stigum í 83 klukkustundir samtals. Grímsstaðir á Fjöllum fylgja strax á eftir og síðan Brú á Jökuldal. Innsveitirnar verjast sjávarloftinu. Hjarðarland er efst stöðva sunnan heiða með 38 klukkustundir í 20. til 21. sæti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trausti Jónsson er að vanda iðinn við að dásama hitametin á Íslandi í seinni tíð. Það telst efni í góða fyrirsögn ef hiti skríður yfir 20°C og staðfesting á framtíðarspá vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

En lítum nú sem snöggvast á raunveruleg hitamet á Íslandi:

"Teigarhorn 24. september 1940 (36,0°C), ekki viðurkennt sem met,

Möðrudalur 26. júlí 1901 (32,8°C), ekki viðurkennt sem met,

Teigarhorn 22. júní 1939 (30,5°C),

Kirkjubæjarklaustur 22. júní 1939 (30,2°C),

Hallormsstaður júlí 1946 (30,0°C) og

Jaðar í Hrunamannahreppi júlí 1991 (30,0°C)

Hvanneyri 11. ágúst 1997 (30,0°C), sjálfvirk stöð."

Jú, þið lásuð rétt, viðurkennt met stendur enn frá 1939 (nítjánhundruðþrjátíuogníu)!

En bíddu nú við, hvað með "óðahlýnunarárin" alræmdu? Þau hljóta a.m.k. að rjúfa 29°C múrinn?:

"Að auki hefur nokkrum sinnum frést af meira en 29°C stiga hita. Það var á Eyrarbakka 25. júlí 1924 (29,9°C), Akureyri 11. júlí 1911 (29,9°C), á sama stað 23. júní 1974 (29,4°C), á Þingvöllum 30. júlí 2008 (29,7°C), á Kirkjubæjarklaustri 2. júlí 1991 (29,2°C), á Egilsstaðaflugvelli 11. ágúst 2004 (29,2°C) og daginn áður í Skaftafelli (29,1°C). Einnig fór hámark í 29,1°C á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði 10. júlí 1911." (http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1000)

Mikið rétt, 2008 og 2004 komast á blað - innan um 1924, 1911, 1974, 1991 og 1911 :)

Skyldi vera að kólna á Íslandi?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2013 kl. 15:19

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Einstaka hitatölur segir lítið hvort það sé að kólna eða hlýna Hilmar. Farðu frekar að líta meira á meðaltalshita.

Pálmi Freyr Óskarsson, 4.9.2013 kl. 19:20

3 identicon

Hvernig í ósköpunum get ég (eða aðrir Íslendingar) farið að því að líta meira á meðaltalshita á meðan Veðurstofa Íslands neitar staðfastlega að birta ársmeðaltalshita? Sjálfur svarar Trausti því til að þeir vilji ekki birta upplýsingar um ársmeðaltalshita vegna hættu á að menn fari að gagnrýna þann gagnagrunn sem Veðurstofan miðar við!

Það eru ekki burðug vísindi sem þola ekki gagnrýni.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2013 kl. 22:13

5 identicon

Þakka skyldi Veðurstofu Íslands fyrir púslurnar :) Þú veist það mæta vel PFÓ að ég er að kalla eftir heildarmyndinni, árshitameðaltalstöflu - þess vegna aftur til 1870.

Veðurstofa Íslands gaf umhverfisráðuneytinu blóð á tönnina með álagningu kolefnisgjalds á eldsneyti landsmanna á grundvelli spádóma um óðahlýnun á 21. öld sem miðast við ársmeðaltöl. Þessi sömu ársmeðaltöl eru svo kirfilega geymd niðri í skúffum stofnunarinnar!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2013 kl. 23:27

6 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ertu viss um það sé kyrfilega geymd niðri skúffu? Það getur alveg verið að þessar upplýsingar liggi á glámbekk á netinu hjá þeim. Enn "besti" veðurvefur í heimi (Veður.is) er svolítið völundarhús. Það er bara fyrir hörðustu veðurnörda að finna réttu hlutina.

Svo ætla ég ekki blanda mér þessa þráhyggju þína til kolefnagjalds á eldsneyti. Ættir frekar að fara t.d. til stjórnmálamanna.

Við sem höfum gaman af veðurblogginu hjá Trausta, eða hann sjálfur breytum ekki kolefnagjaldinu.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.9.2013 kl. 00:05

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar, það er vaninn að geta heimilda þegar stórir kaflar ritverka eru afritaðir í heilu lagi. Öðrum sem áhuga kunna að hafa (fáir) má benda á lesa líka það sem stendur um ástæður þess að tölurnar í listanum eru ekki taldar til meta - en því sleppir Hilmar auðvitað. Meðaltöl fyrir landið allt eru svo sannarlega til - reyndar af ýmsu tagi. Efnislega sýna þau nánast nákvæmlega það sama og hitaröðin frá Stykkishólmi sem finna má á vef Veðurstofunnar og þar af leiðandi líka hlýnunina frá 19. öld til okkar daga - sömu hlýinda- og kuldaskeið. Mun einfaldara er að nota tölur stöðvanna hverja fyrir sig - það þarf þá ekki að standa í endalausu staglþrasi um smáatriði í gerð landsmeðaltalanna. Nokkrar stöðvar hafa athugað allt frá því um 1875. Hér verður þagað um kolefnisskatta - hungurdiskar fjalla ekki um þá.

Trausti Jónsson, 5.9.2013 kl. 01:27

8 identicon

Trausti. Það segir ýmislegt um eðlisgreind að taka ekki eftir því augljósa. Ég vísa furðulegri athugasemd þinni um skort á tilvísun í heimildir - ganske pent - til föðurhúsanna, eða ertu ekki sáttur við (http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1000)? Þeir (fáu) sem kunna að hafa áhuga geta notast við krækjuna til að skoða málið frekar.

Ef meðaltöl fyrir landið eru "sannarlega" til þá er ekkert úr vegi fyrir Veðurstofu Íslands að birta þau. Á meðan það er ekki gert getur þú alveg eins reynt að sannfæra almenning um að meint óðahlýnun í fjarlægri framtíð sé "sannarlega" í kortunum.

Vinsamlegast slepptu því líka að reyna að túlka innihald þeira "efnislega" fyrir landsmenn - tölurnar á borðið, takk fyrir!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 07:59

9 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hverjir á þessari síðu Trausta vil halda því fram að það sé óðahlýnun á Jörðinni Hilmar? Held enginn. Ég sjálfur tel það sé hinsvegar hlýnun í gangi, enn alls ekki óðahlýnun. Og ég tel að allir hér á síðunni nema þú Hilmar segja sömu sögu og ég.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.9.2013 kl. 14:16

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég man að Trausti notaði orðið óðahlýnun á sínum tíma en auðvitað í allt öðru samhengi en Hilmar telur sig trú um. Á köldu árunum kringum 1980 var meðalhitinn í Reykjavík reyndar kringum 4,0 stig en 25 árum síðar eða árin í kringum 2005 var meðalhitinn um 5,5 stig. Þetta mætti kalla óðahlýnun á viðkomandi tímabili. Meðalhitinn síðustu 10 ár hefur hinsvegar haldist nálægt þessum 5,5 stigum en hefur ekki hækkað. Ef sama hlýnun hefði hinsvegar haldið áfram í 100 ár væri það 6 stiga hækkun á öld, sem er ekkert annað en óðahlýnun.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2013 kl. 14:42

11 identicon

Pálmi Freyr. Trausti Jónsson sjálfur:

"Fram undir miðja öld er talið að hlýna muni um rúmlega 0,2 gráður á áratug. Um miðja öldina nemur hlýnunin 1°C en óvissumörk eru ±1,1°C. Þrátt fyrir að óvissumörkin séu álíka mikil og hlýnunin, eru þó yfirgnæfandi líkur á hlýnun.

• Fyrir síðari hluta aldarinnar er hlýnunin háðari sviðsmyndum og liggur á bilinu 1,4 til 2,4°C með líklegri óvissu ±1,0 til 1,5°C." Þetta er afritað úr skýrslu vísindanefndar, bls. 76, um loftslagsbreytingar sem unnin var fyrir umhverfisráðuneytið árið 2008.

(http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/visindanefndloftslagsbreytingar.pdf)

Emil Hannes. Góð ábending hjá þér: "Ef sama hlýnun hefði hinsvegar haldið áfram..." En bíddu nú við, samkvæmt hátimbraðri skýrslu Trausta Jónssonar et al mun þessi hlýnun halda áfram út öldina og Veðurstofa Íslands var reyndar búin að spá því 1991 á það hlýnaði um sex (6) gráður á klakanum á 21. öldinni!

Varla höfum við reynslu af því að spádómar Veðurstofunnar hafi brugðist - eða hvað?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 17:11

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Æ, þú heldur áfram að misskilja Hilmar.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2013 kl. 18:48

13 identicon

Já, Emil Hannes Valgeirsson, þú virðist vera mjög misskilinn maður . . . :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 19:57

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar virðist vera orðin dáldið einn á báti með þessar innantómu staðhæfingar og fullyrðingar sem flestar standast ekki skoðun og er alls ekki hægt að túlka á þá vegu sem hann telur sjálfur. Ég er farinn að hallast að því að Hilmar sé sinn versti óvinur núna og hvet ég hann því eindregið til að halda áfram á sömu braut - enda ljóst að fáir vilja aðhyllast svona stóryrðaflaum og persónulegar árásir eins og Hilmar stundar. Hilmar er því óaðvitandi farinn að hafa þau áhrif að "efasemdamönnum" um loftslagsmál fækkar vegna óendanlegrar vankunnáttu hans á efninu - sem er frábært að mínu mati ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 5.9.2013 kl. 20:44

15 identicon

Þakka þér kærlega fyrir síðbúinn stuðning Svatli minn - gott að ég skuli loksins vera orðinn frábær að þínu mati.

Varðandi meintar "innantómar staðhæfingar og fullyrðingar" er nóg að vísa í ástralska teiknimyndasöguvefinn scepticalscience.com og barnavefblaðið loftslag.is, sem Veðurstofa Íslands hampar að sjálfsögðu. . . :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 20:59

16 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Páll Bergþórsson líka, því hann nefndi bara 4 stiga hækkun hitans á Íslandi en ekki 6.

En þegar ég segi: "Ef sama hlýnun hefði hinsvegar haldið áfram..." er ég auðvitað að vísa í það sem ég nefndi þar á undan að meðalhitinn í Reykjavík hafði hækkað um 1,5 stig á 25 árum og ef SÚ hlýnun hefði haldið áfram værum við svo sannarlega að tala um óðahlýnun.

Trausti og félagar eru alls ekki að tala um sömu hlýnun og eru öllu varkárari í spá þeirri sem þú vitnar til og nefna hlýnun upp á 1,4-2,5 stig fram á síðari hluta aldarinnar. Varla telst það vera boð um óðahlýnun eins þú Hilmar ert margbúinn að saka Trausta um.

Það að hlýnun haldi áfram út öldina þarf síðan ekki að þýða að það hlýni jafnt og þétt. Hitinn getur sveiflast innan tímabilsins og jafnvel kólnað töluvert inn á milli. Heildarniðurstaðan ætti samt að vera hlýnun á tímabilinu, en óvíst hversu mikil.

Reyndar er bloggfærsla í smíðum hjá mér sem kemur meðal annars inn á þetta. Ég vænti þess að hún verði mjög fróðleg en verður áreiðanlega illilega miskilin.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2013 kl. 21:10

17 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Og nú er menn farnir að skjótast inní í miðju svari um miskilning.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2013 kl. 21:13

18 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar minn - mér finns þú ekki frábær, en það er frábært að þú sért svo illa að þér um þetta efni að þú ert meira að segja að bægja "efasemdarmönnum" frá "efasemdunum" - ekki svo slæmt þrátt fyrir allt ;)

Ekkert er svo slæmt að það geti ekki líka fylgt því eitthvað gott líka...

PS. Það er tilgangslaust að rökræða við Hilmar - það ætti að vera orðið öllum ljóst sem það vilja vita...

Sveinn Atli Gunnarsson, 5.9.2013 kl. 22:16

19 identicon

EHV. Fyrst þú dregur Pál Bergþórsson svo smekklega inn í umræðuna á þessum tímapunkti þá vísa ég einfaldlega í eftirfarandi: "Fjallaði fyrirlesturinn um gróðurhúsaáhrif og íslenska náttúru og sagði Páll, að búast mætti við að hitastig í heiminum hækki um 3 að meðaltali á næstu öld en um a l l t a ð 6 á norðlægari slóðum." (http://www.mbl.is/greinasafn/grein/69468/?item_num=35&dags=1991-06-13)

Og svo örlítil stærðfræði: Um miðja öldina nemur hlýnunin 1°C + 1,1°C = 2,1°C + hlýnun á síðari hluta aldarinnar 2,4°C + 1,5°C = 6°C. Það vill segja að samkvæmt hástigi hástemmdustu sviðsmynda Trausta Jónssonar et al er áætluð hlýnun á 21. öld 6°C, en auðvitað misskilja allir aðrir en þú þessi vísindi :)

Við skulum að lokum halda okkur við raunveruleikann EHV. Það er engin hnatthlýnun í gangi og hefur ekki verið í 15 ár - og engar líkur á hnatthlýnun næstu 30 árin. Ef eitthvað er þá hefur kólnað frá 2004 og líkur eru á frekari kólnun.

Eins og ævinlega bíð ég spenntur eftir misskildu bloggfærslunum þínum ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 22:23

20 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

OK. En spá um hækkun um ALLT AÐ 6 stig á norðlægari slóðum á næstu öld er ekki það sama og að segja að SPÁÐ SÉ 6 stiga hækkun á ÍSLANDI svo það sé á hreinu.

Svo við víkjum aftur að Trausta og Co þá væri með sömu aðferðum lágstigið: 1°C - 1,1°C = -0,1°C + kólnun á síðari hluta aldarinnar 1,4°C - 1,5°C = -0,2°C. Þannig að varfærnin er greinilega mikil.

Hvað sem segja má um ríkjandi ástand í heimshita þá er fullyrðingin um að "engar líkur séu á hnatthlýnun næstu 30 árin" frekar óvarfærið orðalag.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2013 kl. 23:20

21 identicon

Nú kannast ég við sérlegan gestapenna loftslag.is. Það er sérstök rökfræði að hantera röksemdir eftir hendinni. Og HÁSTAFIRNIR líka á sínum stað a la Svatli og Höski :D

Fyrir það fyrsta er verið að opna á þann möguleika í kristalkúlu Veðurstofu Íslands að hitaaukningin verði 6°C á öldinni. (Enn og aftur örlítil stærðfræði EHV, hér er átt við til - og - með 6°C).

Svo við víkjum aftur að raunveruleikanum þá hefur ekkert hlýnað á Íslandi á þessari öld. Mér sýnist þess vegna -0,2°C í lok aldarinnar líklegri kostur en óðahlýnunin ;)

Þér er að sjálfsögðu frjálst að hafa þína skoðun á mínu orðalagi, en staðreyndin er sú að menn geta gleymt þeim bullvísindum að aukið magn CO2 leiði til aukinnar hnatthlýnunar - náttúran er búin að afsanna bullið. Þá standa eðlilegar náttúrulegar sveiflur eftir (http://climateclash.com/evidence-for-predicting-global-cooling-for-the-next-three-decades/).

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 23:48

22 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þannig að ég þarf þá kannski ekkert að birta það sem ég var búinn að skrifa úr því að þetta er allt klappað og klárt :)

Emil Hannes Valgeirsson, 6.9.2013 kl. 00:03

23 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar:

Bentu á dæmi varðandi hástafanotkun mína - ekki minn stíll og hefur aldrei verið (man heldur ekki eftir að Sveinn Atli hafi notað slíkt, en get ekki svarið fyrir það).

Ég reikna reyndar með að þarna sé bara að slá saman í hausnum á þér eins og þegar þú ruglaðir saman hafís og jökla. Ég er reyndar farinn að halda að þú sért einmitt að rugla saman hlýnun og kólnun og þar liggi hundurinn grafinn - þetta er bara allt saman ruglingur hjá þér

Höskuldur Búi Jónsson, 6.9.2013 kl. 10:09

24 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Höskuldur:

Ég nota heldur ekki hástafi til að koma skilaboðum áleiðis - held líka að Hilmari sé nú nokk sama um einhverjar staðreyndir ef hann heldur að hann geti komið með persónulegt skítkast á okkur tvo (og aðra vel valda einstaklinga) - þá lætur hann sannleikann nú ekkert trufla sig - svipað og með annað rugl sem hann kemur fram með og hefur ekkert með raunveruleikann að gera ;)

En Hilmari er svo sem frjálst að hafa sína skoðun, þó hún sé byggð á innihaldslausum staðhæfingum og öðru rugli sem ekki stenst skoðun.

Sveinn Atli Gunnarsson, 6.9.2013 kl. 13:25

25 identicon

Félagar, Höski og Svatli, það er ekki nema sjálfsagt að upplýsa um hin afar sérstaka stíl ykkar. Eftirfarandi eru glefsur úr hádramatískri yfirlýsingu ritstjórnar loftslag.is:

"Við teljum ekki að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu sannaðar, heldur lítum við til alls þess fjölda vísbendinga úr mörgum ólíkum áttum, í formi m.a. vísindalegra rannsókna sem til eru varðandi málið. Við höfum engar sérstakar “skoðanir” á því hvernig eða hvort allar þær rannsóknir sem við vitnum í séu alréttar, heldur séu einhver blæbrigði í því hvernig náttúran muni haga sér...

Þrátt fyrir einhverja óvissu um einstök atriði þá er það okkar mat að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu veruleiki sem við þurfum í sameiningu að finna lausn á. Okkar aðalmarkmið með síðunni er að upplýsa um rannsóknir og umræðu tengda loftslagsmálum til að sem flestir geti haft og tekið upplýsta afstöðu til málefnisins...

Við eigum börn og viljum geta sagt við þau síðar að við höfum allavega reynt okkar besta til að benda á hvað loftslagsvísindin hafa um loftslagsvandann að segja og reynt að benda á lausnir...

Hvorugur okkar hefur akademískan bakgrunn sem tengist loftslagsfræðunum beint, heldur höfum við með áhugann að vopni reynt að skoða þessi mál með opnum huga..." (http://www.loftslag.is/?p=8757)

Og svo munar ykkur ekki um að væna aðra um að sannleikurinn trufli þá ekki! Í þessari makalausu yfirlýsingu ykkar stangast hvað á annars horn. Þið sláið úr og í varðandi skoðun ykkar á loftslagsbreytingum af mannavöldum, sem er náttúrulega rakin lygi. Þið kryddið bullið með tilfinningaklámi og viðurkennið loks að þið hafið í rauninni ekkert vit á því sem þið eruð að fjalla um!

Vefarar kolefniskeisarans Al Gore eru í rauninni loddarar sem halda vefnaðinum áfram þangað til almenningur í landinu áttar sig á því að kolefnisklæðnaðurinn er tálsýn, líkt og almenningur í Ástralíu er búinn að komast að.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.9.2013 kl. 23:29

26 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir að vera svo vinsamlegur að vísa í okkur - góður texti, þó þú virðist ekki skilja hann Hilmar :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 7.9.2013 kl. 08:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 154
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 1119
  • Frá upphafi: 2421003

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 985
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband