Stefnumótsfréttir

Hér verður haldið áfram að fylgjast með veðurstefnumóti föstudagsins. Evrópureiknimiðstöðin hefur heldur linast á snerpu þess - en bandaríska veðurstofan heldur grautnum heitum.

Ekki það að reiknimiðstöðin hafi skipt yfir í einhverja blíðu - síður en svo - en samt er útlitið heldur skárra en það sem hún veifaði í gær. Við lítum fyrst á kort sem gildir á sama tíma og kortið sem fjallað var um í gær.

w-blogg290813a

Lægðirnar þrjár eru merktar eins og í gær. Svörtu heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting eins og reiknimiðstöðin spáir að hann verði um hádegi á fimmtudag. Hér þarf að taka sérstaklega fram að kortið er úr hádegisspárunu reiknimiðstöðvarinnar - byggir á greiningu frá hádegi í dag miðvikudag. Strikalínurnar sýna hins vegar spá gærdagsins, það er að segja þá þrýstispá sem byggði á hádegisgreiningu þriðjudagsins.

Við sjáum að strikalínur og heildregnar falla ekki alveg saman - það munar lítillega á spánum tveimur. Litafletirnir sýna svæði þar sem munurinn er meiri en 2,5 hPa. Á rauðleitu svæðunum sýnir spáin í dag lægri þrýsting heldur en sú í gær, en á þeim bláleitu er þrýstingi spáð hærra heldur en var gert í gær.

Í spá dagsins í dag eru lægðirnar tvær suður í hafi um 100 km austar heldur en þeim var spáð í gær. Þetta kann að virðast lítið en ef þessi óvissa væri færð yfir á vindstreng yfir Íslandi ættu menn að átta sig á því að hér getur skilið á milli illviðris og mun skárra veðurs. Svona óvissa veldur því að staðsetning óveðurslægðarinnar sjálfrar er að hnikast enn meira til (óvissan magnast fram í tímann) auk þess sem dýpt hennar og snerpa hoppar til frá einni spárunu til annarrar.

Spákortin tvö sem víð lítum á hér að neðan eru sem sagt talsvert óviss þegar kemur að smáatriðum - en mismunandi staðsetning smáatriða verður að aðalatriði þegar raunverulegt veður gengur yfir.

Næsta kort sýnir veðrið eins og reiknimiðstöðin spáir því í hádegisrununni í dag klukkan 21 að kvöldi föstudags. Þá er lægðin nálægt fullri dýpt skammt fyrir norðan land.

w-blogg290813b

Kortið verður greinilegra sé það stækkað. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og 3 klukkustunda úrkoma með grænum og bláum litum. Mörkin milli grænna og blárra lita er við 5 mm/3 klst. Séu úrkomusvæðin skoðuð nánar má sjá þar litla þríhyrninga og litla krossa. Krossarnir tákna snjókomu.

Úrkomusvæðið sem liggur frá Vestfjörðum og til suðausturs inn á mitt land er þakið krossum. Þar er snjókoma - sem vonandi bráðnar í lágsveitum. Vindurinn í úrkomubeltinu er víðast um 15 til 20 m/s. Ætli það verði ekki algengur vindhraði á svæðinu. Sjálfsagt verður hvassara í vindstrengjum - það sést ef við förum upp í 925 hPa-fötinn en hann er í um 500 metra hæð yfir Vestfjörðum þegar spáin gildir.

w-blogg290813c

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og hiti er sýndur með litum. Á græna svæðinu yfir Vestfjörðum er hann undir frostmarki - frost er sem sagt í 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Vindur er hér meiri heldur en á yfirborðskortinu að ofan, hann er um 25 m/s á allstóru svæði. Sömuleiðis eru stór svæði suður og austur í hafi þar sem vindur er 25 m/s eða meiri.

Norðankuldastrengurinn er mjög mjór og talsvert hlýrra loft er austan við hann - það er svona með herkjum að kalda loftið sleppi suður fyrir Scoresbysund á Grænlandi - til að angra okkur.

Eins og sagði í upphafi þessa pistils reiknar bandaríska veðurstofan lægðina nú um 5 hPa dýpri en sýnt er á kortunum. Það er ekki gott að segja af hverju þessi munur stafar en í spá reiknimiðstöðvarinnar sleppur slatti af hlýja, raka loftinu austur og út úr lægð eitt á kortinu að ofan - mætir sum sé ekki á stefnumótið - það gæti munað því.

Þessi illviðrislægð er skyld þeirri sem kennd hefur verið við Súðavíkursnjóflóðið. Sú var reyndar miklu verri - sannkallað gjörningaveður. Lægðirnar eiga það sameiginlegt að verða til úr flóknum samruna margra veðurkerfa sem eiga stefnumót yfir landinu sjálfu og springa þar út og dýpka á örskömmum tíma.

Það er erfitt fyrir vind að blása af norðvestri um vestanvert landið, venjulega fer hann frekar í vestur eða norðnorðvestur - eða þá nærri logn - svikalogn er þá algengt.

Það gerist ekki nema um það bil sjöunda hvert ár að jafnaði að þrýstingur í ágúst fer niður yfir 978 hPa á íslenskri veðurstöð og einu sinni á tuttugu árum undir 970 hPa. Lægsti þrýstingur sem mælst hefur í ágúst hér á landi er 960,9 hPa það var í miklu norðaustanillviðri 1927. Þá rigndi gríðarlega á Norður- og Austurlandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband