Af sólmánuði

Eftir nokkra bið er hér komið að þriðja íslenska sumarmánuðinum í umfjöllun hungurdiska. Það er sólmánuður - alltaf réttnefni að því leyti að sól er þá enn hátt á lofti, en síður réttnefni á sólarlitlu sumri. Á þessu ári (2013) byrjaði sólmánuður 24. júní og lauk 23. júlí og greip þannig um það bil daufasta kafla sumarsins.

Við víkjum fyrst að morgunhitanum í Stykkishólmi - eins og hann hefur verið á sólmánuði allt frá 1846 þar til í ár.

w-blogg080813a1

Lóðrétti ásinn sýnir hita, sá lárétti árin. Súlurnar sýna þá meðalhita sólmánaðar einstök ár tímabilsins. Hér má glöggt sjá hversu kalt tímabilið 1961 til 2000 er miðað við heildina. Köldustu mánuðirnir eru þó sem fyrr á 19. öld. Hlýjastur var sólmánuður 1936, svipaður hiti var 1880 og 2009. Kaldast var 1862 og 1892, 1979 er fremstur meðal jafningja á síðari áratugum.

Við sjáum (illa) að meðalhiti sólmánaðar 2013 (lengst til hægri) er rétt um 10 stig, um 1 stigi ofan við meðaltalið 1961 til 1990. Svo vill til (okkur til sérstakrar skemmtunar) að þetta er kaldasta 30-ára tímabilið (á sólmánuði) sem hægt er að finna á myndinni. Hitinn á sólmánuði nú er hins vegar um 0,5 stig undir meðaltali síðustu 10 ára.

Hlýjasti sólmánuður í Reykjavík frá og með 1949 var 2009, 2010 í öðru sæti og 1991 í því þriðja. Kaldast var í Reykjavík á sólmánuði 1979 og næstkaldast 1983.

Sólmánuður var sólarlítill í Reykjavík í ár eins og sést á myndinni hér að neðan, sá lakasti síðan 1983, en nokkrir mánuðir eru þó skammt undan þeirri deyfð.

w-blogg080813b

Lóðrétti ásinn sýnir sólskinsstundafjöldann en sá lárétti vísar í árin. Hér má sjá að sólmánuðir áranna 2007 til 2012 voru allir sérlega sólríkir, en 1939 slær þeim þó öllum við. Myndin sýnir áberandi sólarleysi á árabilinu frá 1975 til og með 1989.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Engin leitnilína fyrir sólina á seinna súluritinu en rímar hún ekki nokkuð vel við hitaleitnina?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2013 kl. 07:02

2 identicon

Já, þetta hefur svo sannarlega verið "The Year Without a Summer" eins og ég hef margsinnis sagt fyrir um hér fyrr í sumar, þó svo að engin hafi trúað mér.

Og ekki ætlar ágúst að verða góður mánuður veðurfarslega séð.  Hefur verið svalur, sólarlítill og vætusamur og þannig er spár næstu daga nú í ágúst.  Ég minntist á þetta nú fyrr í sumar að ágúst yrði svona, og fékk bágt fyrir hjá mönnum sem töldu sig betrivitandi en ég um veðurfar.  En þetta virðist ætla að vera rétt hjá mér.

Ég tel þetta veðurfar nú í sumar sé fyrirboði um kólnandi tíð næstu árin og að þau meintu alheimshlýindi sem eigi að koma, séu á undanhaldi.  Margt styður þetta og hefur meðal annars hinni merki veðurfræðingur; Páll Bergþórsson bent á þetta, en hann er eldri en tvævetur þegar kemur að veðurfarsmálum.

Annað sem styrkir þessa skoðun mína er að ég sá nýlega í dönsku blaði  að skv. ábendingum frá NASA er segulsvið sólarinnar að hafa að færast úr stað, en þetta er nokkuð sem gerist á 11 ára fresti.  Þessi tilfærsla á segulsviði sólarinnar mun hafa áhrif á veðurfar á Jörðinni. (Sjá: http://www.bt.dk/utroligt-men-sandt/nasa-advarer-nu-vender-solens-magnetfelt-sig).

Kannski fellur þessi breyting á segulsviði sólarinnar saman við þau veðrabrigði sem hér hafa átt sér stað í ár? Undanfarin 11 ár hefur veðurfar hér á landi verið mjög hagstætt. 
Förum við að upplifa meira "venjulegt" veðurfar hér á landi næstu árin?  Svona veðurfar eins og ríki hér á árunum 1965-1980 þegar sumrin voru svöl, vætusöm og sólarlítil, og þegar veturnir voru langir, kaldir og snjóþungir með tilheyrandi samgöngu- og rafgmagnstruflunum.  Og fara þá sólarlandaferðir aftur að komast í tísku eins og var hérna á árunum upp úr 1970 og fram undir 1990?

Ef veðrið næsta ár og þá sérstaklega næsta sumar verður jafnleiðinlegt og í ár, þá tel ég það vera vísbendingu um að farið sé að kólna aftur, hér á norðurslóðum amk.

Björn J. (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 12:54

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Björn J:

Geturðu bent mér á hvar Páll Bergþórsson telur að "alheimshlýindin séu á undanhaldi"?

Varðandi sveiflur í sólinni, þá er hún búin að vera í niðursveiflu síðastliðna hálfa öld eða svo og því alls ekki í takti við hlýnun jarðar þann tíma. Sjáðu hvað gerist upp úr 1960:


Figure 1: Annual global temperature change (thin light red) with 11 year moving average of temperature (thick dark red). Temperature from NASA GISS. Annual Total Solar Irradiance (thin light blue) with 11 year moving average of TSI (thick dark blue). TSI from 1880 to 1978 from Krivova et al 2007 (data). TSI from 1979 to 2009 from PMOD.

Það eru því önnur öfl að verki en sólin sem stýra hitabreytingum á jörðinni - vísindamenn telja það vera gróðurhúsalofttegundir og enginn virðist ætla að hrekja þá góðu kenningu.

Ég hugsa svo að Trausti geti útskýrt fyrir þér, af hverju sveiflurnar eru svona miklar hér á landi - og einnig að alls ekki sé víst að hlýnunin haldi óhindruð áfram hér á landi (með engum niðursveiflum).

Höskuldur Búi Jónsson, 8.8.2013 kl. 13:50

4 identicon

Alltaf ánægjulegt þegar Höskuldur (sannleiks)Búi Jónsson vaknar af sumardvala :)

Hreintrúaðri kolefnisklerk er vart unnt að hugsa sér. Ekki furða þótt kolefniskardinálarnir á Veðurstofu Íslands hafi beintengt loftslag.is við vefstofu stofnunarinnar.

En nú skipast veður í lofti. Náttúran neitar að fara að fyrirmælum prelátanna! Engin hnatthlýnun í gangi sl. 15 ár þrátt fyrir öll góðu excelsýndarlíkönin - og magn skelfilega "spilliefnisins" CO2 löngu komið upp fyrir rauða strikið.

Sjálfur Veðurstofustjóri (fyrrverandi), Páll Bergþórsson, spáði fyrir um 6°C hlýnun á Íslandi á 21. öldinni á merkri ráðstefnu í Reykjavík 1991 - allt í þágu kolefniskenningarinnar. Þegar þetta er ritað er meðalhiti ágústmánaðar í Reykjavík 0,4°C lægri en meðaltal ágústmánaða á kuldaskeiðinu 1961 - 1990(!)

Til að bæta gráu ofan á svart berast okkur glænýjar fréttir í Guardian að jöklafræðingar geta ómögulega fullyrt um það hvort hægt sé að tengja meinta óðabráðnun hafíss á norður heimskautinu við kenningar um hnatthlýnun:

"Here is a non-conclusion: after nine years of close observation, researchers still cannot be sure whether the planet is losing its ice caps at an accelerating rate.

That is because the run of data from one satellite is still not long enough to answer the big question: are Greenland and Antarctica melting because of global warming, or just blowing hot before blowing cold again in some long-term natural cycle?" (http://www.theguardian.com/environment/2013/jul/15/polar-ice-loss-cause-unclear)

Eru vísindi æskileg iðja fyrir trúgjarna einstaklinga?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 14:37

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig skýra alarmistar aukningu íss á Suðurskautinu og hvers vegna koma ekki fréttatilkynningar um ÞAÐ?

S_stddev_timeseries

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2013 kl. 16:34

6 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Það er eflaust rétt allt hér um sólmánuðinn 2013, en Ísland nær reyndar austur fyrir 14. lengdarbaug og sólmánuður var eindæma hlýr og sólríkur t.d. á Héraði.

Í veðurfarspistlum virðast þrír staðir á landinu einkum koma við sögu: Stykkishólmur (sögunnar vagna auðvitað) og síðan kaupstaðirnir Akureyri og Reykjavík. Allir þrír eru við sjó.

Gaman væri ef t.d. Hallormsstaður fengi að vera með í veðurfarsyfirlitum, svona almennt, til sð fá meiri vídd í efnið.

Annars, kæærar þakkir fyrir alla þína pistla, Trausti.

Þórhallur Pálsson. (MA72)

Þórhallur Pálsson, 8.8.2013 kl. 23:55

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Leitni sólskinsstundafjöldans er algjörlega ómarktæk - og það er hitaleitnin reyndar líka í þessu tilviki. Björn - sumarið er frekar deyfðarlegt hérna megin á landinu - en það segir lítið um framtíðina. Ekki hefur tekist að tengja snúning á segulsviði sólar við ákveðnar eða óákveðnar veðurfarsbreytingar. Það er ekki þar með sagt að áhrifin séu nákvæmlega engin.  Hilmar, vísindaleg iðja er æskileg jafnt fyrir trúgjarna sem ótrúgjarna. Gunnar. Útbreiðsla vetraríss á suðurslóðum ræðst að mestu af stöðu vinda- og straumakerfa á hverjum tíma en ekki af stöðu meðalhita jarðar. Ekkert land heldur að ísútbreiðslunni - en samt bráðna 85 til 90 prósent á hverju sumri. Ég veit ekki til þess að núverandi staða hafi verið skýrð á fullkominn hátt, en mjög litlar breytingar þarf á vindakerfinu þannig að útbreiðslan breytist verulega. Hugsum okkur t.d. að meira hlýni í tempraða beltinu á suðurhveli (norðan við 40. breiddarstig) heldur en sunnar. Þá bætir í vestanáttina sem þá breiðir meira úr ísnum og meira getur þá myndast þegar vakirnar frjósa. Hugsum okkur það öfuga - að það hlýni meir við strendur suðurskautslandsins  heldur en norðar. Þá dofnar austanáttin sem ríkir á þeim slóðum, venjulega þjappar hún ísnum saman en minnki hún verður meira los á ísnum - vakir verða fleiri og meiri ís myndast. Í raunveruleikanum er mismikill hitamunur á milli tempruðu beltana og heimskautasvæðanna frá ári til árs og áratug til áratugar. Þótt hringrás vinds og sjávar í kringum suðurhvel sé nokkuð hringlaga miðað við það sem er hér á norðurhveli er hún það ekki alveg. Tvær stórar háloftabylgjur ganga þar hring eftir hring á margra ára fresti. Suðurskautslandið sjálft er ekki hringlaga um pólinn heldur er það mun rýrara á vesturhveli heldur en á því eystra. Þetta þýðir að ísinn hefur meira rými á vesturhveli - þar af leiðandi er tilefni til samskipta íss. lofts og sjávar annað þeim megin heldur en eystra. Þá verða til samskiptasveiflur sem leiða til mismikils ísmagns frá ári til árs. Þannig að ég geri ráð fyrir því að alarmistar hafi aðallega áhyggjur af því að breytingar séu að verða í kerfinu sem uppruna eiga í hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Ég held þeir séu hins vegar fæstir ánægðir með að veðurfarsbreytingar séu að verða af manna völdum - margir þeirra eru í hópi mestu aðgerðasinna gegn breytingum. Þórhallur. Það er rétt að heldur hallar á Austurland í veðurumfjöllun flestra - þar á meðal hungurdiska sem auðvitað taka gagnrýninni vel. Ástæðan er aðallega athuganasaga og landfræðilegar aðstæður - meira verk er að samræma og þar með gera grein fyrir breytileika og afbrigðum. Hitamælingar hafa verið gerðar á Teigarhorni síðan haustið 1872 - þeim mælingum er nú oft flaggað en gera mætti enn betur. Héraðið og Vopnafjörður eru hins vegar í þeirri aðstöðu að sífellt er verið að breyta tilhögun veðurathugana og staðsetningu þeirra. Byrjað var að athuga á Úthéraði um aldamótin 1900 en ekki fyrr en 1937 á Hallormsstað, heldur seinna á Egilsstöðum. Ekkert var athugað á Hallormsstað 1990 til 1995. Úthérað bjó við sífelldan fluttning veðurstöðva og ekki létt að samræma mæliraðirnar (þótt það hafi verið reynt). Egilsstaðaathuganirnar eru hins vegar illnotanlegar fyrr en 1955. Tímabil samanburðar er því ansi stutt miðað við langtímastöðvarnar. En það kemur reyndar skýrt og greinilega fram í júlíyfirliti Veðurstofunnar að meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað og næsthæstur á Egilsstöðum. Egilsstaða hefur síðustu árin alltaf verið getið í töflu í þessum sömu reglubundnum auk þess sem afbrigða þar er getið - séu þau til staðar.

Trausti Jónsson, 9.8.2013 kl. 01:23

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: 21. öldin er ekki búin og þú virðist vera að rugla saman hafís og jökla.

Gunnar: Ég legg til að þú lesir þetta góða svar Trausta og vistir það rækilega.

Takk Trausti fyrir fróðlegar greinar og greinargóð svör í athugasemdum.

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 10:16

9 identicon

Höskuldur Búi: 20. öldin er búin, með sínum hlý- og kuldaskeiðum. Sumir læra af reynslunni. Vinsamlegast athugaðu að glaciologist útleggst "jöklafræðingur" á ylhýra (Ensk-íslensk orðabók - Örn og Örlygur - bls. 422), þannig að ég vísa ásökunum um rugl til föðurhúsanna :)

Trausti: Með fullri virðingu fer það ekki starfsmanni Veðurstofu Íslands að úttala sig eins og véfréttin í Delfi. Ykkur er sæmara að huga frekar að væntanlegum stórhríðum á Norðurlandi í september nk., með tilheyrandi fjárfelli og skaða uppá hundruð milljóna, en fabúlera um hringrás vinds og sjávar í kringum suðurhvel jarðar í tengslum við uppdiktaða hlýnun af mannavöldum. Eru starfsmenn Veðurstofu Íslands etv. ekki búnir að kynna sér nýjustu rannsóknir jöklafræðinga á meintri óðabráðnun pólanna?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 11:16

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir svarið , Trausti

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2013 kl. 11:21

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

... en samt athyglisvert að ekki er fjallað um þessa ísaukningu í fjölmiðlum, eins og ísminnkun nyrðra. Mötunin er á einn veg.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2013 kl. 11:23

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Jöklafræðingar - hafís- óðabráðnun pólanna. Ruglingur þinn heldur áfram (eins og venjulega).

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 12:10

13 identicon

Höskuldur Búi: Stundaðir þú ekki nám í HÍ? Kanntu ekki ensku? Vinsamlegast byrjaðu á því að kynna þér innihald fréttarinnar sem ég vísa til (http://www.theguardian.com/environment/2013/jul/15/polar-ice-loss-cause-unclear) áður en þú skvettir úr náttgagninu. ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 12:21

14 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Fréttin er um jökla, ekki hafís. Ruglingur þinn heldur áfram, þar til þú viðurkennir það ;)

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 13:02

15 identicon

Höskuldur Búi: Hvað gengur þér eiginlega til með þessari deilu um keisarans skegg? Vinsamlegast lestu þetta með mér:

"Here is a non-conclusion: after nine years of close observation, researchers still cannot be sure whether the planet is losing its ice caps at an accelerating rate."

Ertu að reyna að draga athyglina frá þeirri staðreynd að jöklafræðingar treysta sér ekki til að tenga meinta óðabráðnun á norður- og suður heimskauti við skrautlegar tilgátur um hnatthlýnun af mannavöldum?:

"Dr Wouters’ caution is echoed through the glaciological community. “Although ice is lost beyond any doubt, the period is not long enough to state that ice loss is accelerating,” said Wolfgang Rack of the University of Canterbury in New Zealand.

“This is because of the natural variability of the credit process, snowfall, and the debit process, melting, and iceberg calving, which both control the ice sheet balance.”"

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 13:25

16 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Þú sagðir:

Til að bæta gráu ofan á svart berast okkur glænýjar fréttir í Guardian að jöklafræðingar geta ómögulega fullyrt um það hvort hægt sé að tengja meinta óðabráðnun hafíss á norður heimskautinu við kenningar um hnatthlýnun

Ég var bara að benda þér á að þú færir með rangt mál, sem er augljóst - þú varst að tala um hafís og vísaðir í grein um jökla (í fyrstu athugasemd). Þekking þín liggur bara ekki á þessu sviði og rétt að þú farir að draga þig út úr þessari umræðu þar til skilningur þinn hefur batnað.

Í frétinni sem þú vísar í kemur lauslega fram þetta:

Að mati vísindamanns hafa menn enn ekki mælt Grænlandsjökul og Suðurskautið nógu lengi með gervihnettinum GRACE, til að vita hvort um náttúrulega sveiflu er að ræða eða ekki - hins vegar er bráðnunin mjög mikil og því klárlega óvenjuleg. Gervihnattamælingar í nokkur ár í viðbót eru þó nauðsynlegar til að við getum verið viss um hversu mikill hluti bráðnunarinnar er náttúruleg og hversu mikill hluti er af völdum hnattrænnar hlýnunar.

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 13:53

17 identicon

Höskuldur Búi: Fyrirgefðu HB - ég gleymi því stundum að ég er að skrifast á við innsta "kopp" í búri skepticalscience.com/loftslag.is. Átralir losuðu sig góðu heilli við JuLIAR Gillard fyrir skömmu, ásamt með kolefnisskattinum illræmda. Íslendingar eiga enn verk að vinna ;)

Ég vísa einungis í umræddrar fréttar: "Polar ice loss cause still unclear

New research shows that glaciologists still cannot say for certain whether the Earth's north and south polar ice is melting faster".

Hins vegar skil ég mæta vel tilhneigingu þína að verja slæman málsstað með því að reyna að útiloka aðkomu annarra að umræðuefninu á grundvelli meintrar ofurþekkingar þinnar :)

ps. Lauslega þýðingin þín staðfestir grun minn um yfirburða skort á enskukunnáttu ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 14:26

18 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Ertu enn að halda því fram að þessi frétt sé um hafís?

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 14:45

19 identicon

Hér kemur greinin óbrengluð á íslensku:

"Eftir níu ára þrotlausa rannsóknarvinnu eru vísindamenn ekki enn vissir um hvort jörðin sé að missa jökulhettur sínar með auknum hraða.

Það stafar af því að mæligögn frá einum gervihnetti eru ekki nógu tæmandi til að svara stóru spurningunni: Er Grænland og Suður-heimskautið að bráðna vegna hnatthlýnunar eða einungis vegna hitagusu sem verður aftur að kuldagusu í langtíma náttúrulegri sveiflu?

Spurningin er alvarlegs eðlis. Ef sú ísbráðnun sem virðist eiga sér stað núna heldur áfram að aukast mun sjávarborð hafa hækkað 43 cm umfram upphaflegar spár í lok 21. aldar og hundruðir milljóna manna sem búa á óshólmum, kóraleyjum og við árósa munu verða fyrir verulegum búsifjum.

Bert Wouters, jöklafræðingur við Háskólann í Bristol í Bretlandi og Háskólann í Colarado í Bandaríkjunum upplýsir í Nature Geoscience að nýjustu og öruggustu mælitæki þeirra, tveir gervihnettir í verkefni sem nefnist Grace, þurfi að fá að safna gögnum mun lengur áður en hægt sé að fá skýrt svar.

Aðal markmið rannsóknarvinnunar er að rannsaka jökulhettur Grænlands og Suður-heimskautsins vegna þess að samanlagt eru þær meira en 99% af ís og snjómagni jarðar og ef þær bráðna alveg myndi sjávarborð hækka um 63 metra með hrikalegum afleiðingum.

Til að vera viss um að staðfesta stigaukandi bráðnun upp á ca. 10 billjón tonn á ári þarf a.m.k. 10 ára viðbótarrannsóknir á Suður-heimskautinu og etv. 20 ár á Grænlandi.

En niðurstöður hingað til eru óheillavænlegar. „Það hefur komið í ljós að jökulhetturnar eru að missa umtalsverðan ísmassa – u.þ.b. 300 billjón tonn á ári – og bráðnunin fer vaxandi. Í samanburði við fyrstu ár Grace-starfseminnar hefur framlag jöklanna til hækkandi sjávarstöðu næstum tvöfaldast á síðustu árum“, segir Dr Wouters.

En hann er auðvitað að tala um stöðugar niðurstöður einnar rannsóknar; önnur rannsókn hefur sýnt fram á bráðnun. Spurningin er: Getur þetta bara verið afleiðing náttúrulegrar sveiflu sem enn á eftir að skilgreina?

Varkárni Dr Wouters bergmálar meðal jöklafræðinga. „Þrátt fyrir að óvéfengjanlega bráðnun er tímabilið ekki nógu langt til að hægt sé að fullyrða að bráðnunin fari stigvaxandi“, segir Wolfgang Rack frá Háskólanum í Canterbury á Nýja Sjálandi.

„Þetta er vegna náttúrulegra breytna sem annars vegar auka ferlið, þ.e. snjókoma, og minnka hins vegar ferlið, þ.e. bráðnun og skriðjöklar – sem hvort tveggja hefur áhrif á ísbúskapinn.“

Jöklafræðingar telja m.ö.o. að ekki séu fyrir hendi vísindalegar sannanir á meintum áhrifum "hnatthlýnunar af manna völdum" á bráðnun pólanna. Nú væri æskilegt að Höskuldur Búi gerði það endanlega upp við sig hvort hann ætli að fullnema sig við guðfræðideild eða náttúruvísindadeild HÍ . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 16:02

20 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Flott þýđing og ánægjulegt ađ þú skulir loks sammála mér um efni fréttarinnar :-)

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 21:40

21 identicon

Höskuldur Búi: Ekki málið. Jákvætt að þú skulir horfast í augu við að jöklafræðingar um heim allan hafna því að meint hnatthlýnun af mannavöldum hafi nokkuð að gera með bráðnun íshellunnar á pólunum ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 22:02

22 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Má ekki bjóđa þér ađ lesa þýđinguna aftur og međtaka hana. Rangtúlkanirnar eru þínar :-D

Höskuldur Búi Jónsson, 9.8.2013 kl. 23:43

23 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Áhersla í fréttaflutningi og túlkun frétta er nánast alltaf lituð af annað hvort pólítík eða hagsmunum. Við getum ekki verið að hafa áhyggjur af því. Þökkum bara fyrir að samkeppni ríkir milli ólíkra sjónarmiða. Það er ekkert plott eða þöggun á bakvið fréttir/fréttaleysi úr suðurhöfum - bara samkeppni um athygli. Suðurhöf eru langt í burtu og margar hugmyndir keppa enn um að vera rétta skýringin á breytileika ísþekjunnar þar. Þær eiga það sameiginlegt að vera flóknar og hljóma óskiljanlega. Hver hefur áhuga á að heyra um átök úr- og ístreymis, lóðréttrar og láréttrar hringrásar hafs og lofts, muninn á ísþekju og útbreiðslu íss og svo framvegis. Þú sérð hvernig Hilmar tók á þessu - fór að tala um véfréttina í Delfí, virtustu spástofnun hins vestræna heims í þúsund ár um leið og reynt var að rétt minnast á helstu þátttakendur í veðurleikum suðurhafa og ekki voru þó allir taldir. Ísabúskapur norðurhafa er líka flókinn - en meira lag er komið á umræðuna um hann - hún er orðin þroskaðri. Margur misskilningur þvælist þó þar fyrir. Vonandi þroskast suðurhafaumræðan líka um síðir.

Trausti Jónsson, 10.8.2013 kl. 01:38

24 identicon

Trausti. Nú verð ég að fá að skýra lögmál almennrar þjóðfélagsumræðu fyrir þér. Gunnar varpaði fram spurningu: "Hvernig skýra alarmistar aukningu íss á Suðurskautinu og hvers vegna koma ekki fréttatilkynningar um ÞAÐ?"

Þú tókst að þér (væntanlega fyrir hönd alarmista) að reyna að útskýra þetta fyrir Gunnari - og ég get ekki betur séð að einn ógeðfelldasti alarmisti á Íslandi í dag, Höskuldur Búi sem heldur úti sorpvefnum loftslag.is sem aftur endurspeglar soraskrif skepticalscience.com, hafi þakkað þér kærlega fyrir ómakið!

Þitt lærða intro um veðurkerfi í Suðurhöfum barnar þú svo með "Þannig að ég geri ráð fyrir því að alarmistar hafi aðallega áhyggjur af því að breytingar séu að verða í kerfinu sem uppruna eiga í hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Ég held þeir séu hins vegar fæstir ánægðir með að veðurfarsbreytingar séu að verða af manna völdum - margir þeirra eru í hópi mestu aðgerðasinna gegn breytingum."

Þetta er í rauninni hákirkjukolefnisbull. Ég hef ítrekað reynt að vekja athygli ykkar á þeirri staðreynd að jöklafræðingar treysta sér ekki til að tengja meinta hnatthlýnun af mannavöldum við bráðnun pólanna. Í stað þess að feta veg vísindanna og vafans þá kýst þú að leggjast í innhverfa íhugun á sálarlífi alarmista - ánægju þeirra og óánægju - eins og það komi vísindum eitthvað við.

Þetta svar þitt leyfi ég mér að kalla afturhvarf (um þúsundir ára) til véfréttarinnar í Delfí, sem auðvitað var byggð á trúarlegum grunni - enda vantar ekki einkunnina hjá þér: Virtasta spástofnun hins vestræna heims í þúsund ár(!)

Það er ekki leiðum að líkjast hjá Veðurstofu Íslands. ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.8.2013 kl. 09:10

25 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: þarna fórst þú yfir strikið.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2013 kl. 10:47

26 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Höskuldur: Hilmar fer oft á tíðum yfir strikið, ekkert nýtt í því. Sérstaklega grípur hann til þess þear búið er að sýna fram á að hann er algerlega rökþrota, sem gerist oft.

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.8.2013 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband