Næstu lægðir - gjörið svo vel

Í dag (fimmtudaginn 11. júlí) sló verulega á hitann fyrir norðan og austan - enda nálgast myndarlegur kuldapollur úr vestri. Kuldaskilin voru þó langt á undan honum sjálfum en hann fer yfir á morgun (föstudag). Er þá gert ráð fyrir skúradembum. Fyrri mynd dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og hita í honum um hádegi (föstudag).

w-blogg120713aa

Hita- og hæðarsvið er nokkuð sammiðja, vindur er hvass í kringum háloftalægðina en kuldinn fyllir vel upp í hana og kemur þar með í veg fyrir hvassan vind við sjávarmál. Það er helst að strekkings sé að vænta undan Suðurlandi frá Reykjanesi og austur úr. Bent er á textaspár Veðurstofunnar um frekari upplýsingar um það.

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Hitinn er sýndur með litum, kvarðinn til hægri batnar mjög við stækkun. Um tuttugu stigum munar á hæsta og lægsta hita kortsins. Þegar kortið gildir er lágmarkið sem það sýnir mínus 31,2 stig - yfir Hrútafirði. Í veðurlagi sem þessu eru oftast skúrir sem dægursveifla og hlýtt land ýta undir. Skúrirnar eru þá oftast mun meiri inni í sveitum heldur en við sjávarsíðuna. Kannski heyrast einhverjar þrumur.

Þykktin, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs er ekki sýnd á þessu korti en er aðeins um 5300 metrar í miðju lægðarinnar. Það er gott að kerfið fer hratt framhjá og það um hábjartan dag.

Á laugardaginn er nýtt úrkomusvæði tekið við. Það er mjög hraðfara og háloftabylgjan sem því fylgir er veigalítil miðað við þá stóru á kortinu hér að ofan.

Við skulum því líta á sunnudagsháloftaspána.

w-blogg120713a

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar sem fyrr, en þykkt er sýnd með rauðum strikalínum. Iða er grábleik. Föstudagslægðina má sjá langt norðaustur í hafi. Þar sýnir innsta jafnþykktarlínan 5340 metra. Laugardagslægðarinnar gætir eiginlega ekki - föstudagskerfið hefur étið hana með húð og hári.

En ný lægð nálgast úr vestri. Um hádegi á sunnudag er hún vestast á Grænlandshafi og á að fara til austurs fyrir sunnan land á mánudag. Fyrir nokkrum dögum gerðu reiknimiðstöðvar ráð fyrir því að hún myndi grípa föstudagslægðina og senda hana síðan til suðurs aftur - skammt undan Norðausturlandi. Þykktin átti samkvæmt þeim spám að fara niður í um 5270 metra í allhvössum vindi. Þannig nokkuð er ávísun á hríð langt niður á heiðar. En - við sleppum vonandi alveg við þennan möguleika.

Nú má á kortinu sjá hæð yfir Grænlandi vestanverðu - slíkt hefur lítið sést að undanförnu. Hún á þó ekki að leggja leið sína hingað heldur á að fara til norðvesturs og hjálpa til við ísbræðslu á kanadísku eyjunum í næstu viku. Ekki veitir af hjálp til þess - ef skip eiga að komast þar um í september.

Næsta lægð til okkar eftir þetta er ekki orðin til á sunnudagskortinu - og eru evrópureiknimiðstöðin og sú bandaríska ekki sammála um það hvort hún kemur strax á þriðjudag (sú síðarnefnda) eða ekki fyrr en á miðvikudag (sú fyrrnefnda). Þetta er hálfgerður grautur og óvissa greinilega mikil.

Taka má eftir því á sunnudagskortinu hér að ofan að 5640 metra jafnþykktarlínan er yfir suðurströnd Írlands. Þar hefur verið mjög hlýtt að undanförnu og helst að sjá að svo verði áfram. Það er dálítið spennandi að fylgjast með því vegna þess að stöku spárunur hafa gert ráð fyrir enn meiri þykkt á þessum slóðum - jafnvel upp undir 5700 metra. Við treystum því þó varlega.

Hitamet Írlands er orðið gamalt, 33,3 stig sem mældust þar sumarið 1887. Sumir vilja þó ekki nota þetta gamla met en miða við 32,5 stig sem met. England á hins vegar mest 38,5 stig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti. Ítreka eftirfarandi fyrirspurn mína:

1. Hefur meðalhiti á Íslandi aukist um 0,3°C frá 1998?

2. Hefur meðalhiti á Íslandi hækkað eitthvað á síðustu 15 árum?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 19:52

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar. Fimmtán ár eru allt of stuttur tími til að hægt sé að ræða breytingar á meðalhita. Það er svosem hægt að reikna það út - en svarið er ekki marktækt - þótt athyglisvert sé. Taki maður mark á slíkum reikningum er svar við spurningu 1 nei, hann hefur hækkað miklu meira eða um 0,9 stig. Það gera um 7 stig á öld sýnist mér - ekki lítur það vel út. Svar við spurningu 2 er því já - svo aldeilis. Við vonum samt að enginn taki mark á þessum tölum - þær eru úr samhengi. Við getum hins vegar með sæmilegri samvisku endurtekið það sem sífellt þarf að endurtaka: Leiðin upp úr kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var mjög brött - miklu brattari heldur en hægt er að reikna með að hnattræn hlýnun sé (vonandi). Því er einfaldlega óhjákvæmilegt að það dragi mjög úr þessari gríðarlegu hlýnun hér um slóðir og alls vegna -- vonandi fáum við einhver kaldari ár á næstunni sem geta dregið úr vaxandi áhyggjum okkar af hlýnuninni hnattrænu.

Trausti Jónsson, 13.7.2013 kl. 00:28

3 identicon

Kærar þakkir fyrir svarið Trausti - sem er reyndar ekki marktækt eins og þú getur um.

Ég kalla eftir að Veðurstofa Íslands birti nákvæmt yfirlit yfir meðalárshita á Íslandi frá því að mælingar hófust. Einhverra hluta vegna vantar gögn um þessar sjálfsögðu upplýsingar á vef stofnunarinnar.

Meint "óðahlýnun" virðist þér hugleikin Trausti. Getur þú fundið orðum þínum stað þegar þú fullyrðir: "... vonandi fáum við einhver kaldari ár á næstunni sem geta dregið úr vaxandi áhyggjum okkar af hlýnuninni hnattrænu."?

Hefur einhver hnattræn hlýnun átt sér stað sl. 15 ár?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 02:21

4 identicon

Þetta er svo sannarlega "The Year without a Summer" hér á sunnanverðu landinu. 
Og svona hefur veðrið verið hér um slóðir alveg síðan seinni hlutan í maí; svalt, vætusamt og sólarlítið, hvað svo sem sérvitringar segja að telja að sumarið hafið bara verið gott. 


Hvað skyldi þetta ágæta fólk meina með því að sumarið í ár hafi verið gott?
Svo virðist sem það fólk sem telji að sumarið hafi verið gott, líti svo á að einn einasti góðviðrisdagur nú í sumar sé samnefnari fyrir allt sumarið nú í ár. 
Ætti þetta fólk bara ekki að búa á Svalbarða?


Nú er júlí hafinn og haustlægðirnar halda áfram með tilheyrandi haustveðráttu.  Og þannig er langtímaspáin næstu 10 dagana, væta, kalt og sólarlítið.

Ólíklegt má því telja að veðrið verði betra í sumar enda fer sól lækkandi á himni og ágúst á næsta leyti, en sá mánuður er venjulega vætusamur og svalur, og ólíklegt e bað sá mánuður bregði út af vananum í ár. 


Ágúst er sá mánuður sem ég ætla að vera í sumarfríi, og er ég farinn að skoða ferðir í sólina til Spánar í ágúst, því ekki ætla ég að eyða sumarfríinu mínu í rigningu og roki hér á landi.
Með sama áframhaldi í veðráttu, hlýtur haustið að verða alveg afleitt veðurfarslega séð, miðað við að á haustin séu veðrátti lakari en á sumrin.

Veðráttan er vor og sumar er ótvíræður vitnisburður þess að hnattræn hlýnum sé á undanhaldi, hvað svo sem líður ofsafengnum viðbrögðum hjá sanntrúuðum loftslagshlýnunarsinnum um hið gagnstæða.


Loftlagshlýnunarsinnar verða einfaldlega að bíta í það súra, að boðaðri hnattrænni hlýnum hefur verið aflýst. 

Frystu merki þessa eru, að fyrst byrjar að kólna á norðurhveli Jarðar (líkt og nú í vor og sumar), síðan mun þessi kólnum dreifa sér um Jörðina á næstum árum, þannig að ástand loftlagsmála verður orðið "eðlilegt" eftir nokkur ár, eða svipað veðurfar og var hér á árunum milli 1960-1980.

Björn J. (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 22:18

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar. Já, ef maður reiknar kemur í ljós að hnattræn hlýnun hefur átt sér stað síðustu 15 ár. Útkoman (0,13°C) er hins vegar ómarktæk. Þetta er rétt tæplega 1°C á öld - svipað og var alla 20. öldina að meðaltali. Björn, óskandi væri að þú hefðir rétt fyrir þér.

Trausti Jónsson, 14.7.2013 kl. 01:34

6 identicon

Nú verð ég að fá að vera ósammála þér Trausti. Það liggur fyrir, margstaðfest og útreiknað, að svonefnd "hnattræn hlýnun" hefur staðið í stað undanfarin 15 ár - þvert á spár kolefniskirkjunnar.

Í beinum tengslum við þetta mál vil ég hvetja starfsmenn Veðurstofunnar til að leggja spilin á borðið og birta tölur yfir meðalárshita á Íslandi frá því að mælingar hófust. Ekki væri lakara að þið veittuð almenningi líka aðgang að þeim gagnagrunni sem stendur að baki þeim útreikningum.

Að lokum vil ég vinsamlegast benda þér á að ómarktæk niðurstaða/flökkt/suð í útreikningum er nákvæmlega það - ómarktæk.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.7.2013 kl. 09:21

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Styð áskorun Hilmars að Veðurstofan birti á vefsiðu sinni tölur ekki aðeins yfir ársmeðalhita á landinu heldur líka mánaðarmeðalhita eins langt aftur og menn telja þær mælingar sæmilega trúverðugar. Mér hefur reyndar oft dottið í hug að birta á minni eigin síðu mína úteikninga á meðalhita landsins eftir þeim 9 stöðvum sem lengst hafa athugað og ég notaði sem uppistöðu til að finna hlýjustu og köldustu mánuði á bloggpistlum mínum um það efni. En ég hef hikað við, kannski aðallega vegna þess að ég vænti þess að einhvern tíma birtist opinberlega útreikningar Veðurstofunnar á þessu eftir sinni aðferð og væntanega traustari. Ég veit að þetta er til hjá Veðurstofunni. Birting á því gæti nú aldeilis orðið tilefni til mikilla umræðna og bollalegginga veðurfana og þá ekki síst meðal sérvitringa og rugludalla.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.7.2013 kl. 11:59

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Björn J. segir "Loftlagshlýnunarsinnar verða einfaldlega að bíta í það súra, að boðaðri hnattrænni hlýnum hefur verið aflýst. "

Það styður hann með því að vísa í veðurfar á suðvesturhorni Íslands og telja að það sé samnefnari fyrir norðurhvel Jarðar. Ég verð að hryggja hann, suðvesturhorn Ísland er ekki norðurhvel Jarðar og þaðan af síður hnötturinn í heild... þess vegna er þetta bara ósköp venjuleg afneitun sem kemur frá Birni J.

Ég tek samt undir að óskandi væri að þetta væri rétt hjá honum - en því miður segja gögnin okkur að það sé enn að hlýna á norðurhveli jarðar og ekkert sem segir að ástandið verði "eðlilegt" aftur. 

 

Höskuldur Búi Jónsson, 14.7.2013 kl. 13:52

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er líka undarlegt að segja að ágúst sé venjulega svalur og vætusamur. Hann er aðeins lítið eitt svalari en júlí á landinu í heild og auðvitað miklu hlýrri en júni. Sums staðar á landinu er ágúst þó hlýjasti mánuður ársins og all langt frameftir honum eru að meðaltali hlýjustu dagar ársins á landinu ásamt lokaspretti júlí. En ágúst er yfirleitt nokkuð úrkomumeiri en júlí. En einkennilegt er það að segja að næsthlýjasti mánuður ársins sé venjulega svalur. Hve nær eru þá ekki svölu mánuðirnir? Svo langar mig til að spyrja Björn J. sem enginn veit hver er og skrifar nánast undir dulnefni, bara hreint út um það  hvaða sérvitringar þetta eru sem hann talar um að segi að sumarið hafi bara verið gott. Ég geri ráð fyrir að hann sé að vitna í eitthvað sem hefur komið fram opinberlega, í fjölmiðlum eða á netsíðum, en sé ekki að tala um það sem fólk hjalar sín á milli í eldhúsum. En sem áhugamaður um veðrið en þó umfram allt um skringilega sérvitringa brenn ég alveg í skinninu að vita hvaða endemis sérvitringar og skýjaglópar þetta geta eiginlega verið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.7.2013 kl. 16:16

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hvað sem líður endemis sérvitringum og skýjaglópum - þá langar mig að benda aftur á þessa fróðlegu mynd sem Höskuldur vísar í og sýnir okkur ákveðna þróun síðustu 130 árin. Það er alltaf gott að skoða málin á víðum grundelli í stað þess að einblýna á staðbundin gögn eða einhver sérvalin 15 ár.

Reyndar svolítið fróðlegt með þessi 15 ár sem sumir hefta sig við, er að það tímabil er náttúrulega of stutt til að hægt sé að staðhæfa um að hnattræn hlýnun hafi staðið í stað og í raun ekkert sem styður þess háttar fullyrðingar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.7.2013 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 937
  • Sl. sólarhring: 944
  • Sl. viku: 2732
  • Frá upphafi: 2413752

Annað

  • Innlit í dag: 880
  • Innlit sl. viku: 2480
  • Gestir í dag: 854
  • IP-tölur í dag: 832

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband