Kröftugar lægðir

Kuldapollurinn mikli sem sat allan fyrri hluta júnímánaðar yfir Norðuríshafi skipti sér í tvennt og tók vestari helmingurinn á skrið og fyrir helgina gekk hann til suðurs nokkuð vestan við Grænland og er á kortinu hér að neðan kominn nærri því að þeim stað sem góðkunningi aldinna veðurnörda, veðurskip Bravó sat á árum áður. Þetta er á milli Suður-Grænlands og austurstrandar Labrador.

Næst liggur leið pollsins til austurs og norðausturs í átt til Íslands og hann á síðan að halda áfram hraðferð sinni allt þar til hann er kominn á þann stað sem hringferðin hófst, yfir Norðuríshafi. En kortið sýnir stöðuna um hádegi á morgun, þriðjudag 25. júní. Öll kort pistilsins eru úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg250613aa

Eftir skiptinguna sat annar ámóta öflugur kuldapollur eftir yfir Norðuríshafinu og er á þessu korti við Ellesmereyju og á að verpa þar kuldaeggi sem fer til suðurs svipaða leið og sá fyrri. Í þessu tilviki eru allar þessar skiptingar hluti af rýrnunarferli kuldans á norðurslóðum, því enn eru nokkrar vikur í hásumar.

En eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykktin er sýnd með litaflötum. Blái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er minni en 5280 metrar - það er næturfrostaþykkt hér á landi á þessum árstíma. Dekkri blái liturinn er byrjar við 5220 metra en við svo lága þykkt getur gert slydduél á láglendi. Sjávarylur og sólskin sjá vonandi um að forða okkur frá slyddunni að þessu sinni - en enn telst óvíst með næturfrostið.

Þegar kuldapollurinn mætir hlýrra lofti úr suðri getur mikil lægðadýpkun átt sér stað á austurjaðri hans. Næsta mynd sýnir spá sem gildir kl. 6 á miðvikudagsmorgni (26. júní).

w-blogg250613a

Þarna er lægðin, á vestanverðu Grænlandshafi. Evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um 977 hPa í miðju og hirlam-reiknilíkanið gerir hana enn dýpri. Þetta er óvenjulegt á þessum árstíma. Í lok síðustu viku gekk óvenjuöflug lægð beint til austurs fyrir sunnan land og kom ekki við sögu hér. Vestan við hana steig loftvog mest um 15 hPa á 3 klst sem er fáheyrt á þessum árstíma.

Við höfum séð dýpri lægðir en 977 hPa undir lok júnímánaðar og í júlí - en ekki mikið meira en svo. Í þessari lægð er miðjan svo köld að þessi lága þrýstitala felur enn dýpri háloftalægð sem sést á næsta korti.

w-blogg250613b

Hér eru jafnhæðarlínur enn heildregnar, litafletirnir sýna nú hita í 500 hPa og sömuleiðis má sjá vindörvar gefa styrk og stefnu. Það sem er merkilegast á kortinu er talan við háloftalægðina, 5140 metrar. Þetta er einhver lægsta tala sem sést hefur á 500 hPa-korti hér við land að sumarlagi. Varlegt er að fullyrða að um met sé að ræða en það er alla vega ekki fjarri því. Lægðin á að grynnast heldur áður en hún fer yfir landið á fimmtudagskvöld eða föstudag.

Það er erfitt að komast út úr svona kuldapollakraðaki. Það vill til að sól er hátt á lofti og hitar vel og vandlega þegar hún fær að skína, en ósköp er þetta aumt í bleytu og trekki.

En - verra gat það orðið. Fyrir tveimur dögum var spá fyrir þetta sama lægðakerfi enn verri. Þá átti ný og minni lægð að komast í tengsl við kuldapollinn og var vindi í 100 metra hæð sunnan við lægðarmiðjuna spáð 36 m/s. Ritstjórinn minnist þess varla að hafa séð svo mikinn vind við lægðarmiðju að sumarlagi - óstuddan af fjallgörðum eða landslagi. Við látum það spákort fylgja með sem viðhengi (jpg-skjal) svo lesendum hætti ekki til að rugla því saman við það sem nú er spáð. Lægðarmiðjan litla sem sést á viðhengiskortinu finnst ekki á spákortum dagsins í dag - vonandi rís hún ekki upp að nýju í þriðjudagsspánum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrsta haustlægðin á dagskrá Veðurstofunnar 26. júní 2013(!)

Það haustar snemma þetta vorið . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 16:33

2 Smámynd: Kristján Þorgeir Magnússon

Mér sýnist lægðin sem sögð er vera yfir vestanverðu Grænlandshafi í þessum pistli alls ekki vera þar, heldur yfir suð-vestanverðu Danmerkusundi (Demnark Strait), sem Veðurstofan af einhverjum ástæðum kallar Grænlandshaf

Kristján Þorgeir Magnússon, 25.6.2013 kl. 18:03

3 Smámynd: Kristján Þorgeir Magnússon

Prentvillur, átti að vera Danmerkursund og (Denmark Strait)

Kristján Þorgeir Magnússon, 25.6.2013 kl. 18:10

4 identicon

Hvet alla til að lesa þessa grein um 30 ára hlý- og kuldaskeið. Samkvæmt þessari grein lauk síðasta hlýskeiði árið 2005 og mun standa yfir til 2030.(At that time, the projected curved indicated global cooling beginning about 2005 ± 3-5 years until about 2030, then renewed warming from about 2030 to about 2060)

http://www.globalresearch.ca/global-cooling-is-here/10783

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 22:39

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar - var einhvers staðar minnst á Veðurstofuna í pistlinum? Ástæðulaust er að blanda henni í málið. Kristján. Það er ekkert af „einhverjum ástæðum“ sem hafsvæðið nefnist Grænlandshaf. Nafnið kemur þegar fyrir í miðaldaritum íslenskum og norskum. Gott er að lesa yfir grein Unnsteins Stefánssonar um nafngiftir á hafsvæðum. Hún birtist sem kafli í bók hans „Hafið“ sem gefin var út af Almenna bókafélaginu 1961. Fletta skal upp á blaðsíðu 216. Erlendis er hafsvæðið kallað Irmingerhaf (kennt við Irminger sjóliðsforingja á 19. öld) en alls ekki Danmerkursund og geta menn notað það vilji .þeir endilega styðjast við nýlega uppfundin nöfn á hafsvæðinu. Menn geta líka ef þeir vilja nefnt það eftir sjálfum sér - það má einu gilda. Hermundur. Engar reglubundnar sveiflur hafa fundist í veðurfari á þessum tímakvarða - hvorki 30-ára né eitthvað annað. Síðasta alvarlega atlagan var gerð fyrir um 40 árum þegar menn þóttust sjá sveiflur af eindreginni tíðni (fleiri en einni) í borkjörnum frá Grænlandsjökli. Reynt var að nota greininguna til spádóma - en þeir voru orðnir vitlausir eftir fáein ár. Auðvitað kemur að því að einhver spámaður hittir einhvern tíma á rétta sveifluspá - eina sveiflu - en þegar maður er búinn að sjá þær falla tugum ef ekki hundruðum saman og engin rétt hefur sést verður efinn samt yfirgnæfandi og leikurinn leiðigjarn orðinn.

Trausti Jónsson, 26.6.2013 kl. 00:18

6 identicon

En Páll Bergþórsson skrifaði einmitt um lok núverandi hlýindaskeiðs. Einmitt það sem Páll er að spekúlera.

1.mars 2013(set inn textann, af því að þú opnar ekki tengla)

"Alþjóðlegar spár um loftslag taka alla jafna ekki mið af sveifluáhrifum vegna hafíss á norðurhveli. Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, segir sjálfvirkar sveiflur í ísnum valda 25 til 40 ára tímabilum hlýinda og kulda á víxl.

Yfirstandandi skeið hlýinda hér á landi og á norðurhjara er um það bil að ná hámarki, að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra. Síðan segir hann að fari kólnandi á ný og við taki kuldaskeið sem ætla megi að vari í um þrjá áratugi.

Sjálfvirkar sveiflur í veðri á norðurhveli jarðar segir Páll valda því að skiptist á 25 til 40 kaldari ár og 25 til 40 hlýrri ár. Sveiflurnar segir hann svo til komnar vegna áhrifa af hafís og speglun sólar af ísbreiðunni, sem sé misstór.

Um þessar mundir segir Páll komin ein 18 ár af yfirstandandi hlýindaskeiði og því gæti verið annað eins eftir á meðan fer kólnandi, þótt áfram geti talist tiltölulega hlýtt. „Það kólnar svona smátt og smátt frá hámarki," segir hann. Veðursveiflurnar segir hann virðast heldur lengri á þessari öld en síðustu þrjú til fjögur hundruð árin þar á undan, þegar skiptust á 25 köld ár og 25 hlý. „Núna er það lengri tími og nokkuð í samræmi við það sem virðist hafa verið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar."

Páll segir að áhrifum hafíssins sé ekki gaumur gefinn í alþjóðlegum spám um loftslag. „Menn hafa verið að kenna öðrum þáttum um þessar loftslagsbreytingar, svo sem að sólin sé að breyta sér, eða að eldfjöll hafi áhrif á þessar sveiflur sem hafa verið gríðarlega miklar. En það held ég sé allt tómt mál að tala um," segir hann og telur sveiflurnar fremur skrifast á virkni íssins. „Ofan á þessar sveiflur bætist svo hlýnun jarðar að mestu fyrir atbeina mannsins, sem er óskyld þessu."

Áhrif af mannavöldum segir Páll hins vegar þau að næsta kuldaskeið verði ekki jafnkalt og kuldaskeið fyrri ára. „Þetta kuldaskeið núna verður til dæmis ekki jafn kalt og var til dæmis "66 til "95." Að sama skapi segir Páll mega gera ráð fyrir að hlýindin sem svo við taki eftir næsta kulda verði enn meiri en áður.

„En áhrif íssins virðast vera þýðingarmeiri þáttur en menn hafa áður gert sér grein fyrir," segir Páll, sem undirbýr vísindagrein um efnið."

http://www.visir.is/hlyindaskeid-er-vid-ad-na-hamarki-sinu/article/2013703019923

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 11:37

7 identicon

Fyrirgefðu Trausti. Ég gerði mér hreinlega ekki grein fyrir að þér væri hugsanlega illa við tengingu við vinnustað þinn til margra áratuga:

"Trausti Jónsson - Sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum - Úrvinnsla og ranns."

Þessar upplýsingar má finna á opniberum vef Veðurstofu Íslands (vedur.is) > Um Veðurstofu > Starfsfólk.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 18:27

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar, ekki er við Veðurstofuna að sakast vegna einhvers texta á hungurdiskum - og enn síður er við hæfi að hnýta í hana vegna mála sem hungurdiskar hafa ekki minnst á. Hermundur. Páll nefnir langt árabil, 25 til 40 ár og stingur þar að auki upp á nýstárlegum stýriþáttum - við förum því varlega í samanburð.

Trausti Jónsson, 27.6.2013 kl. 00:59

9 identicon

Ég bið enn og aftur forláts Trausti. Auðvitað er bloggarinn Trausti Jónsson ekki sami maður og sá sem ritar lærðar greinar um loftslag á Íslandi á vedur.is. Sennilega þekkir bloggarinn TJ hvorki haus né sporð á Halldóri Jónssyni (Verkefnisstjóra loftslagsrannsókna) sem fer hamförum í kolefnisblæti í kynlegum greinaskrifum um sama efni á sömu síðum. Hvergi er hins vegar að finna stafkrók um þá staðreynd að hitastig hefur staðið í stað sl. 15 ár!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 10:15

10 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar, þú ert eldri en tvívetra og ættir því að vita að breytileiki milli ára er of mikill til að hægt sé að fullyrða um að hiti hafi staðið í stað síðastliðin 15 ár.

http://www.skepticalscience.com/graphics/Escalator_2012_500.gif

Höskuldur Búi Jónsson, 27.6.2013 kl. 11:15

11 identicon

Tvævetur - Höskuldur Búi, "eldri en tvævetur" (http://www.lexis.hi.is/osamb/osamb.pl?finna=ok&flyk=tv%E6vetur&fofl=lo) . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 11:54

12 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar. Nei, ritstjórinn þekkir hvorki haus né sporð á Halldóri Jónssyni - er hann óðaáhugamaðurinn sem sífellt er að spá heimsendi? Eða er hann einfaldlega tveggja manna maki?

Trausti Jónsson, 27.6.2013 kl. 21:30

13 identicon

Stórt er spurt Trausti :) Er það e.t.v. líka liður í staðbundnu einelti Veðurstofunnar að frysta allar umræður um skrif Páls Bergþórssonar og Borgþórs H. Jónssonar og láta sem kólnandi veðurfar og rostungar í Reyðarfirði séu órjúfanlegur partur af óðahlýnuninni? ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 897
  • Sl. viku: 2329
  • Frá upphafi: 2413763

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 2148
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband