Kuldapollinum loksins bægt frá

Þegar þetta er skrifað (á fimmtudagskvöldi 7.mars) er enn allhvasst víða um land - sérstaklega við suðurströndina. Sömuleiðis er enn talsverð úrkoma á Suður- og Vesturlandi. Veðrið gengur þó jafnt og þétt niður. Kuldapollinum stóra hefur loks verið bægt frá - alla vega í bili. En enn er þó ekki komið vor á norðurslóðum.

Við lítum fyrst á norðurhvelsspá fyrir laugardaginn 9. mars, en síðan eru fáein orð um illviðri miðvikudagsins.

w-blogg080313a

Hér er orðin mikil breyting. Enn ein fyrirstöðuhæðin situr á kortinu yfir Íslandi og langt er í stóru kuldapollana - gott ef þeir eru ekki líka aðeins farnir að rýrna. Kuldastroka er að fara suður um Skandinavíu og hluti hennar á að koma við sögu á Bretlandi og í Frakklandi eftir helgina - jafnvel á Spáni. Sömuleiðis á lægðin sem á kortinu er yfir suðvestanverðum Bandaríkjunum eftir að valda leiðindum á leið sinni til austurs - en það er ekki fullráðið.

Fyrirstaðan yfir Íslandi á að haldast hér í nokkra daga - en ekki er ótrúlegt að einhver kaldari norðanátt komi í kjölfar hennar þótt ekki verði um nærri því eins kalt loft að ræða og það sem heimsótti okkur í upphafi þessarar viku.

Um það hefur verið fjallað að hríðin sem setti allt höfuðborgarsvæðið og marga aðra landshluta á hliðina á miðvikudag hafi verið óvenjuleg á ýmsa lund. Á uppfærðum reykjavíkurhríðalista  á vef Veðurstofunnar má sjá að hríð hefur ekki verið jafnlangvinn þar síðan 28. október 2005.

Það veður var reyndar mun mildara en miðvikudagsveðrið - rigning breyttist í snjó og því skóf minna þá heldur en nú. Reyndar er þessi lýsing í atburðaannál: Miklar umferðartruflanir vegna snjókomu, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum. Á síðarnefnda staðnum fuku bárujárnsplötur af íbúðarhúsi. Strætisvagn fauk af vegi á Kjalarnesi og járnplötur losnuðu á húsum í Keflavík.

Og rúmum sólarhring síðar hélt hríðin áfram: Yfir þrjátíu bílar festust í mikilli hríð við Hvammstangavegamót á Norðurlandsvegi. Tengivagn fauk út af vegi við Skorholtsbrekku í Leirársveit og lenti ofan á fólksbifreið utan vegar, ökumaður hennar slapp fyrir tilviljun við skrámur. Þetta hljóta allmargir að muna.

En ámóta blinda - eða jafnvel enn meiri því meira snjóaði - varð 11. febrúar árið 2000. Þá var allt í köku í Reykjavík. Vindur var þá af suðvestri og trúlega hafa skaflarnir þá ekki verið á sömu stöðum og nú. Í atburðaannál stendur í skeytastíl: Allar samgöngur lömuðust á Suður- og Suðvesturlandi í óvenju snörpum hríðarbyl. Ringulreið ríkti um tíma. Aðeins hálfum mánuði síðar varð annar eftirminnilegur hríðaratburður (ekki þó í bænum): Björgunarsveitir fluttu um 1500 manns til byggða í hríðarbyl á Þrengslavegi. Aðallega var um fólk að ræða sem hafði farið að líta á Heklugos.

En nörd ættu að líta á listann. - Sem bónus fyrir lesendur hungurdiska má í viðhenginu finna lista um hríðarathuganir í Reykjavík 1935 til 1948 - hefur hann aldrei birst áður.

Miðvikudagsveðrið var talið óvenjulegt að því leyti hvað víða snjóaði á landinu. Það er alveg satt, en séu athugnanir taldar og hlutföll reiknuð kemur í ljós að snjókoman er í 35. útbreiðslusæti á lista sem aftur til 1949 (miðað við allan sólarhringinn). Ekki var þó hvasst í öllum tilvikunum ofar á listanum - og því ekki um raunverulega keppni að ræða.

En sé hins vegar litið á skyggnið - eða öllu heldur vont skyggni - kemur miðvikudagurinn betur (eða verr) út, því hann lendir í þriðja sæti, á eftir 29. janúar 1966 og 5. janúar 1949. En á miðvikudaginn var skyggni ekki aðeins slæmt vegna snjókomu. Sums staðar sunnanlands þar sem bylurinn var ekki tiltakanlega dimmur var dimmt af öskufoki og ef til vill hefur það haldið skyggninu niðri hér suðvestanlands eftir að draga fór úr úrkomunni.

Ritstjórinn þurfti að moka bifreið sína úr skafli í dag (fimmtudag). Þá kom greinilega í ljós að snjórinn var sérlega skítugur - en aðeins efstu 10 cm í skaflinum - neðar var hann skjannahvítur. Askan (eða moldin) hefur skilað sér alveg til Reykjavíkur síðdegis. Á þetta var einnig bent í athugasemdum við pistil gærdagsins - þökk fyrir það Helga og Ómar. Sömuleiðis var málið rætt undir hádegisverði í matstofu Veðurstofunnar (þar er líka talað).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ég er mjög spenntur fyrir að vita hvað meðtalsvindur á Stórhöfða þann 6. mars 2013 sé. Og svo mundi ég vilja jafnframt vita hvort það sé ekki með því mesta sem gerist í dags-meðaltalsvind á Stórhöfða.

Pálmi Freyr Óskarsson, 8.3.2013 kl. 02:57

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sæll vertu Pálmi og þakka þér fyrir ábendinguna. Þetta er óvenjuhvasst. Dagurinn lendir í fjórða sæti meðalvindhraða á Höfðanum (meðalvindhraði í m/s):

ármándagurmvindhr
19662241,05
1965122940,94
195831540,34
20133636,84
195721036,69
196832236,15

Næsti dagur fyrir neðan með sama vindhraðamæli er ekki langt undan, í 8. sæti, 13. janúar 2011 með 35,9 m/s.

Trausti Jónsson, 8.3.2013 kl. 11:07

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Takk kærlega fyrir þessar upplýsingar Trausti.

Pálmi Freyr Óskarsson, 8.3.2013 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 87
  • Sl. sólarhring: 548
  • Sl. viku: 3579
  • Frá upphafi: 2430626

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 2933
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband