Kuldinn kemur (vonandi stendur hann stutt við)

Þessi pistill er ennframhald á umfjöllun um barmafullt lægðardrag á leið austur. Enn er óvissa um niðursláttinn austan Grænlands. Við skulum ekki velta okkur mikið upp úr því sem ekki er hægt að ráða í - það verður bara að koma í ljós.

Allar spár eru sammála um að lægð myndast á Grænlandshafi eða Grænlandssundi á laugardag og að hún muni hafa hægt um sig fram á sunnudagsmorgun. Lægðin er ekki djúp - lægðardragið er barmafullt af köldu lofti - en hún hefur hátt í 1050 hPa hæð yfir Grænlandi vestanverðu sem bakhjarl. Hæðin er að skjóta rúmlega 1040 hPa anga suður með Norðaustur-Grænlandi. Það þarf í sjálfu sér ekki djúpar lægðir til að valda illviðri.

Lítum á kort sem gildir klukkan 9 á sunnudaginn (3. mars).

w-blogg020313a

Þetta kort er reiknað með hirlam-líkaninu á dönsku veðurstofunni. Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litafletir úrkomu og strikalínur hita í 850 hPa. Við sjáum lægð rétt fyrir norðan land. Evrópureiknimiðstöðin og ameríska veðurstofan greina einnig frá þessari lægð á sama tíma en smáatriðin eru önnur. Hluti lægðarinnar teygir sig austur, en evrópureiknimiðstöðin mjakar vesturhlutanum til suðvesturs þegar á daginn líður - um Húnaflóa og síðan Snæfellsnes eða Faxaflóa. Ekki skulum við treysta þeim smáatriðum.

Norðvestan og norðan við lægðarmiðjuna (hvar sem hún svo verður) er jökulkaldur norðaustanstormur með hríðarveðri. Ekki er hægt að rekja framhaldið frekar - við gerum það ef til vill síðar þegar nær dregur og meiri nákvæmni er að vænta.

Lægðir eins og þessi minna á svokallaðar heimskautalægðir (æ-æ-æ) - aðallega vegna þess að þær eru frekar litlar. Sömuleiðis er orkuflæði frá sjó í þessari norðaustanátt gríðarmikið - eins og þegar heimskautalægðir eru gangsettar. Hér er þó ekki (enn) um heimskautalægð að ræða - alla vega ekki hjá okkur sem óska snyrtilegrar umgengni við hugtakið. Það útilokar þó ekki að einhver slík birtist síðar í vikunni.  

En samhengisins vegna skulum við einnig líta á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gildir á sama tíma og kortið að ofan. Næsta málsgrein er þung undir tönn og geta flestir sleppt henni sér að skaðlausu (en nördin ekki).

w-blogg020313b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og jafnþykktarlínur eru rauðstrikaðar, tölur eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Línurnar liggja gríðarþétt um Ísland - það er 5040 metra jafnþykktarlínan við Vestfirði sem örin bendir á. Þetta er alvöru vetrarþykkt, en 5280 metra línan liggur um landið Suðaustanvert. Munurinn er 240 metrar. Það samsvarar um það bil 12°C - en líka 30 hPa. Vegna þess hversu jafnhæðarlínurnar eru líka þéttar (og hallast í sömu átt) er ekki mikill vindur yfir landinu en hann vex að mun þegar háloftalægðarmiðjan þokast nær. Þá gisnar hæðarsviðið hraðar heldur en þykktarsviðið. Vindhraði næstu daga ræðst af samspili sviðanna tveggja (eins og langoftast).

Annars ættu hungurdiskar líka að fjalla um hlýindin í vetur. Þau eru komin á mjög óvenjulegt stig. Janúar og febrúar saman eru þeir hlýjustu sem þekktir eru um stóran hluta landsins. Febrúar var nærri alls staðar í öðru til fjórða hlýindasætinu. Alþjóðlegi veðurveturinn, desember til febrúar er við það að vera sá hlýjasti á Suður- og Vesturlandi. Frekar svalur desember norðaustanlands kippir honum lítillega niður á við í samkeppninni þar um slóðir.

Svo kemur þetta kuldakast. Hvað verður úr marshitanum vitum við ekki - en hann verður samt varla til þess að halda vetrinum okkar (desember til mars) í fyrsta sæti hlýindavetra. Það munar um tveggja til fimm daga kuldakast (kannski lengra - það vitum við ekki).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 497
  • Sl. sólarhring: 579
  • Sl. viku: 3659
  • Frá upphafi: 2428381

Annað

  • Innlit í dag: 438
  • Innlit sl. viku: 3282
  • Gestir í dag: 420
  • IP-tölur í dag: 404

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband