Hlýindaspá

Nú stefnir mjög hlýtt loft í átt til landsins - miðað við árstíma. Tveggja stafa tölur eru ekki algengar í febrúar. Landsmetið er þó býsna hátt, 18,1 stig sem mældust á Dalatanga þann 17. árið 1997. Flest landsdagamet á þessum tíma árs eru á bilinu 14 til 16 stig. Þrátt fyrir að hlýtt verði næstu daga er frekar ólíklegt að þessi met hreyfist - en aldrei að vita.

Hiti hefur ekki nema þrisvar náð 10 stigum í Reykjavík í febrúar, mest 10,1 stig þann 8. árið 1935, en þá gekk mikið ofsaveður yfir landið og ofbeldi samfara því hefur náð hlýju lofti úr hæðum niður til Reykjavíkur. Sami hiti mældist í Reykjavík þann 16. árið 1942 og 10,0 stig daginn áður. Hiti komst einu sinni í 12 stig í febrúar meðan Jón Þorsteinsson landlæknir athugaði á árunum 1820 til 1854, það var þann 9. árið 1830.

En lítum aðeins á stöðu dagsins. Fyrst á gervihnattarhitamynd sem tekin er á miðnætti á fimmudagskvöldi 7. febrúar.

w-blogg080213a

Útlínur landa eru merktar með grænum lit og má sjá Ísland ofan við miðju. Við sjáum mikinn boga af háskýjum (þau eru köld og hvít á myndinni). Til hægðarauka hefur hvítri strikalínu með ör á endanum verið komið fyrir í sveipnum og á að sýna hreyfingu loftsins, fyrst úr suðri en síðan í stórum boga til austurs, suðausturs og að lokum í enn meiri sveig. Öll er hreyfingin í hæðarbeygju.

Auk þessarar hringhreyfingar er hringrásin öll á hreyfingu til norðurs og norðausturs og breiðir þar að auki úr sér. Heildarhreyfingin er þannig samsett úr færslu - hringsnúningi og útþenslu. Hringsnúningurinn getur verið í hvora áttina sem er (sólarsinnis eða andsólarsinnis) og þrenging er möguleg í stað útþenslu. Loft sem lyftist og hreyfist til norðurs leitar í hæðarbeygju í efri hluta veðrahvolfs.

Þetta bogaform kemur í dag fram á flestum gerðum veðurkorta. Sést t.d. mjög vel á veðrahvarfakortum eins og þeim sem stundum hafa lent á borði hungurdiska, einnig á vinda- og þykktarkortum. Til a sjá hversu hlýtt þetta loft er skulum við líta á mættishitann í 850 hPa fletinum á sama tíma og myndin var gerð.

w-blogg080213b

Mættishita mætti einnig kalla þrýstileiðréttan hita. Reiknað er út hversu hlýtt loft sem er í ákveðinni hæð yrði ef það væri flutt niður að sjávarmáli (1000 hPa-flötinn). Dökkrauða svæðið á myndinni fylgir boganum á gervihnattamyndinni nokkuð vel - enda gildir spáin á sama tíma og myndin.

Þarna eru sannkölluð eðalhlýindi á ferð, mættishitinn er 19,7 stig þar sem hann er hæstur. Munur væri að ná honum niður til okkar. Til þess þarf þó sérstök skilyrði - getur gerst í hreinu niðurstreymi við há fjöll. Slíkt niðurstreymi er þó sjaldnast eins konar foss að ofan heldur blandast það kaldara loftið á leiðinni niður og hitinn lækkar. Mættishitanum er spáð í 17 til 18 stig á aðfaranótt laugardags. Þá eru tveggjastafa hita tölur líklegastar í kringum háfjöll Norðurlands.

Síðdegis á laugardag snýst vindur um tíma til suðausturs - þá gætu sjaldgæfar tveggjastafatölur sést á Vesturlandi. Þar spillir úrkoma talsvert möguleikum. Ef mikið fellur af henni fer orka frekar í það að láta rigninguna gufa upp eða snjóinn að ofan bráðna heldur en að hækka hita þann sem mælist á hitamælum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg170325a
  • w-blogg160325a
  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 1789
  • Frá upphafi: 2454250

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1647
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband