Vel sloppið - tvö eða þrjú sjúkk í sömu vikunni?

Af ástæðum sem reynt var að skýra út í pistli sem merktur er aðfangadegi skall kuldinn aldrei af fullum þunga suður yfir landið, hurð skall þó nærri hælum (sjúkk - á nútímamáli). Við skulum samt líta á þykktarspá sem gildir um það leyti sem þessi pistill er skrifaður - um miðnætti að kvöldi annars jóladags.

w-blogg271212a

Jafnþykktarlínur eru svartar, en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Þykktin í miðjum kuldapollinum er ekki nema 4830 metrar, en 5060 metra línan sker Melrakkasléttu og Langanes - svo sannarlega vel sloppið. Hlýrra loft er á leið til landsins.

Á aðfangadag gáfu fleiri en ein spá til kynna að kyngja myndi niður snjó um nær allt vestanvert landið á þriðja í jólum. Evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan voru nokkuð sammála um að snjódýptin gæti orðið meiri en 40 cm í Reykjavík. Ekki þarf að orðlengja að slíkt hefði valdið umferðaröngþveiti eða algjörri teppu. Það er reyndar vissara að tala varlega því fimmtudagur er rétt að hefjast þegar þetta er skrifað - og það er farið að snjóa. Við sem búum suðvestanlands bíðum því með að sjúkka okkur í sólarhring eða svo. Öll snjódýpt undir 25 cm er þó sjúkktilefni - miðað við sentimetrana 40. Snæfellsnes og Vestfirðir sleppa trúlega ekki eins vel.

w-blogg271212b

Þetta kort gildir kl. 6 að morgni fimmtudags. Mjög öflugt úrkomusvæði er vestur af Vestfjörðum - það hefur í kvöld valdið allmikilli snjókomu bæði á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Þetta svæði er búið að vera í kortunum í nokkra daga, en fyrst þegar það kom fram átti aðalúrkoman að vera á Suðvestur- og Vesturlandi. Spárnar hafa síðan flutt það vestar og vestar eftir því sem nær myndun þess hefur dregið.

En úrkoman er mikil, sé vel að gáð (stækka má kortið) má sjá lítinn dökkbláan blett í svæðinu. Það táknar að úrkoman sé þar um 15 til 20 mm á þremur klukkustundum og þar með yfir 5 cm ákomu snævar á klukkustund. Fjólublá strikalína sem liggur þarna nærri sýnir mínus fimm stiga hita í 850 hPa, það er oft talin markalína á milli snjókomu og rigningar. Þegar úrkoma er mjög mikil getur snjór fallið úr enn hlýrra lofti.

Lægðin syðst á kortinu er á leið norður. Hún er nokkuð öflug og henni fylgja talsverðir úrkomubakkar - og er Suðvesturland í leið þeirra síðdegis á fimmtudag og síðar. Hvort það verður snjókoma, slydda eða rigning verður ósagt látið. En þetta þýðir að þeir sem eru á ferð milli landshluta verða að fylgjast vel með veðurspám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila - og muna að rausið á hungurdiskum jafngildir ekki alvöruspá.

Þriðja hugsanlegt sjúkk vikunnar er enn vafasamara - en gríðardjúpri lægð er spáð austur af landinu á laugardag. Þriðja kort dagsins er spá um þrýstifar um miðnætti á föstudagskvöld, þess 28.

w-blogg271212c

Jafnþrýstilínur eru svartar, þykkt er sýnd með daufum strikalínum, en litir sýna þrýstibreytingu síðustu þrjár klukkustundir næstar spátímanum. Greina má fjórar lægðarmiðjur, sú sem er næst Suðausturlandi er mest. Nú er býsna opið hvað gerist í framhaldinu. Undanfarna daga hefur miklu norðanveðri verið spáð á laugardag - og er enn. Í spá reiknimiðstöðvarinnar frá hádegi ber hins vegar svo við að lægðin krappa norðvestur af Skotlandi á að kippa meginlægðinni til austurs og koma í veg fyrir að hún verði hér upp í landsteinum eins og spáð hefur verið undanfarna daga.

Fari svo ná vindstrengurinn milli Grænlands og Íslands og norðanstrengur vestan við lægðina ekki saman og landið norðaustan-, austan- og sunnanvert sleppa mun betur en ella. Við sjáum líka (stækkið kortið) að þykktin yfir Austurlandi er meiri en 5400 metrar - það ætti að tryggja að rigning verður á láglendi en ekki snjókoma. Landið er allt undir meiri þykkt heldur en 5280 metrum - það er nærri mörkum rigningar og snjókomu við sjávarmál. Hversu margir landsmenn geta sjúkkað sig á sunnudag verður bara að sýna sig - aðrir fá hurðina í hælana.

En enn og aftur verður að tyggja að veðurspár eru ekki gerðar á hungurdiskum - hér er aðeins malað um möguleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 916
  • Sl. viku: 2327
  • Frá upphafi: 2413761

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2146
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband