Eftir helgina?

Eftir að stutt háloftabylgja (lægð föstudags og laugardags) hefur gengið yfir tekur mikill hæðarhryggur völdin. Honum fylgja mikil háloftahlýindi sem við fáum e.t.v. að njóta góðs af. Meta er þó vart að vænta - fyrir utan dægurmetahrinu á nýlegum veðurstöðvum. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir um hádegi á sunnudag (9. desember).

w-blogg071212

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, lituð svæði sýna hita í 500 hPa-fletinum (kvarðinn til hægri skýrist mjög við stækkun). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Meðalhiti í 500 hPa-fletinum yfir Keflavíkurflugvelli fyrsta þriðjung desembermánaðar er um -29°C. Á myndinni eru mörkin á milli grænleita svæðisins og þeirra bláu sett við -28°C. Evrópureiknimiðstöðin spáir því að hiti fari upp í um -22°C á þriðjudag - miðvikudag, sjö stig ofan við meðallag. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í desember er -15 stig, talsvert hærri heldur en nú er spáð.

Nú er spurningin hvort hæðarhryggurinn og hlýja aðstreymið verða nægilega öflug til að fyrirstöðuhæð myndist í námunda við landið. Slíkt ætti að tryggja hæglætisveður í nokkra daga hér á landi.

Fyrirstaða við Ísland er ekki vinsamleg meginlandi Evrópu - þar liggur þá venjulega pollur af köldu eða mjög köldu lofti þar sem skiptast á kuldaköst norðan úr höfum og önnur jafnvel verri ættuð frá Síberíu. Kalt er þá í illa upphituðum húsum, færð slæm á vegum í slyddu, snjókomu eða frostrigningu - og tafir á flugi í snjókomunni.

Annars getur frostrigning verið til leiðinda hér á landi í hlýjum fyrirstöðum að vetrarlagi, sérstaklega ef skiptast á heiðir og skýjaðir dagar. Yfirborð landsins kólnar óðfluga í heiðríkju og ef vindur er lítill blandast loft illa. Þegar ský dregur að í hægri hafátt getur verið frostlaust í nokkur hundruð metra hæð og súldað niður í grunna landátt með frosti. 

En spenna heldur áfram.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Hvernig væri nú að fara að skrifa texta sem almenningur (leikmenn) skilur? Svo væri auðvitað fróðlegt að fá öðru hverju yfirlit yfir það hvernig spárnar rætast hjá ykkur blessuðum veðurfræðingunum.

Og svo er auðvitað ástæða til að kvarta hversu dugleg þið eruð að koma þeim upplýsingum á framfæri. Stundum hefur maður grun um að öll Veðurstofan sé á fylleríi (ekki einstaka sinnum) og það í miðri vinnuviku. Í dag vantaði til dæmis uppfærslu á spá bæði á vedur.is og á textavarpinu. Sem betur fer hefur maður yr.no og gervihnattaveðurstöðvarnar svo þar má rétta kúrsinn þegar mikið liggur við!
Merkilegt finnst mér annast hvað vindaspár eru ónákvæmar. Iðulega les maður um 18-23 vindstig á höfuðborgarsvæðinu þegar í Reykjavík mælist 2-3 metrar á sek. Er ekki hægt að bæta úr þessu - og skrifa skiljanlegar um veðrið?

Torfi Kristján Stefánsson, 7.12.2012 kl. 22:06

2 identicon

Sæll Torfi Kristján. Ég finn mig knúinn til að svara þessu klámhöggi þínu. Það vita það allir Íslendingar sem eitthvað vit hafa í kollinum að Hungurdiskarnir hans Trausta eru eitt besta bloggefni sem býðst á netinu. Í raun er ekki heil brú í því að Trausti sé að bjóða upp á allan þennan hafsjó af fróðleik um refilstigu íslenskrar veðráttu gjörsamlega gjaldlaust!

Í stað þess að virða og þakka fyrir þessa viðleitni Trausta í samfélagi þar sem almenningur er skattlagður upp í rjáfur, vaxtapíndur af fjármálastofnunum, hundeltur af innheimtufyrirtækjum og mergsoginn af verslunum og þjónustufyrirtækjum, ræðst þú með offorsi á manninn og sakar hann um meinta glæpi Veðurstofu Íslands!

Stundum hefur maður grun um að sumir Íslendingar búi enn í torfbæjum.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 00:13

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Jamm, þó ég sé sjaldnast sammála Hilmari, þá er vörn hans gagnvart Trausta réttlætanleg. Torfi, þú ferð yfir strikið eins og frekt barn, sem fær ekki það sem það vill.

Höskuldur Búi Jónsson, 8.12.2012 kl. 00:38

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sammála því að Hungurdiskar séu eitthvert besta bloggefni sem býðst á netinu. Og það myndi fylla þykka bók eða jafnvel bækur ef  prentað yrði með þeim kortum og gröfum og töflum sem efninu fylgja. Bók sem flytti mikinn fróðleik um veðrið almennt en þó sérstaklega um  íslenskt veður. Það er mjög vel læislegt en iðulega er verið að skrifa um efni sem aldrei hefur aður verið skrifað um á íslensku. Stundum varar Trausti við þungu lesefni en samt er það alltaf vel skiljanlegt. Þá er kannski verið að fjalla um efni sem flestum er  framandi, hefur varla eða ekki verið nefnt á íslensku áður, en er nauðsynlegt til skilnings á einhverjum hliðum veðursins, svo sem hæðarfletirnir. Það er ekki nein tilviljun að Trausti talar oft um veðurnörd. Þó blogg hans sé oftast öllum skiljnalegt er hann þó líka stöku sinnum greinilega að tala til þess hóps manna sem hefur mikinn áhuga á veðri og hefur þá eitthvað lesið og pælt í því og ættu að hafa þolinmæði til að leggja eitthvað. Þetta er nú einu sinni veðurblogg en ekki annars konar blogg. Og það er merkilegt og einstaklega þakkarvert að nokkur maður skuli nenna að standa í þessu öllu. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.12.2012 kl. 09:57

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

... hafa þolinmæði til að leggja eitthvað á sig... á að standa þarna á sínum stað.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.12.2012 kl. 09:59

6 identicon

Tek undir með félaga Höskuldi og Sigurði Þór. Ég held að þessum Torfa hafi ekki verið sjálfrátt. Vonandi fær hann bót á þeim kvillum, sem hrjá hann.
Vil hinsvegar undirstrika þakkir til Trausta fyrir hans fjölmörgu og fróðlegu pistla, sem eru hvað sem hver segir flestu fólki skiljanlegir sem á annað borð kann að lesa.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 10:14

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mjög skiljanlegt og gott blogg hér á ferð - takk Trausti.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.12.2012 kl. 15:01

8 identicon

Ég vil taka undir það sem komið hefur fram hér á undan að ég skil ekki þessi skrif hjá þessum Torfa. Sá fróðleikur sem Trausti miðlar hér er frábær og eykur skining á mörgum þáttum í veðurfari og veðurspám. Aftur á móti vil ég halda því fram að þeir sem kominir voru úr torfbæjunum skrifi ekki svona rugl eins og Torfi. Bestu þakkir Trausti.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 23:01

9 Smámynd: Trausti Jónsson

Allur stuðningur við hungurdiska er vel þeginn - þökk fyrir það - ekki veitir af.

Trausti Jónsson, 9.12.2012 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg220125a
  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 229
  • Sl. sólarhring: 381
  • Sl. viku: 2608
  • Frá upphafi: 2435050

Annað

  • Innlit í dag: 204
  • Innlit sl. viku: 2314
  • Gestir í dag: 193
  • IP-tölur í dag: 187

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband