Stuttar bylgjur

Háloftabylgjur eru misstórar, þær eiga sér meira að segja stærðarnúmerakerfi rétt eins og skór eða skyrtur. Stærsta bylgjan er númer núll síðan koma þær í minnkandi röð - lítið er minnst á hærri tölur en 15 eða svo.

Tölurnar ráðast af því hversu margar bylgjur væru í hringnum kringum jörðina gætu þær legið hlið við hlið. Breiddarhringurinn 65°N er um það bil 17 þúsund kílómetrar að lengd. Bylgja sem er 1700 km frá einum bylgjufaldi (hæðarhryggur) til þess næsta hefur því bylgjutöluna 10. Suður við miðbaug er hringurinn hins vegar um 40 þúsund kílómetrar - þar er bylgja af stærðinni 10 fjögur þúsund km frá hrygg til hryggjar.

Í raunveruleikanum er allt í einni súpu - stuttar bylgjur liggja ofan í löngum og taka lítið tillit til því hvar ein endar og önnur byrjar.

Bylgjan sem á að fara framhjá landinu á morgun (miðvikudaginn 5. desember) er til þess að gera hrein og klár - og við skulum líta á hana á 500 hPa-korti sem gildir kl. 18 á miðvikudag.

w-blogg051212a

Hér er táknmálið það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá. Við sjáum lægðarbylgju og er hún um 1700 km að lengd - engu skiptir í þeim bylgjuheimi sem við erum að heimsækja hvort bylgjan myndar lokaða lægð eða ekki. Bylgjutalan er tíu (eða þar um bil).

Við sjáum hins vegar að bylgjurnar (lægðardrögin) vestan og austan við eru hvort um sig eitthvað lengri en þetta - e.t.v númer sjö. Við sjáum líka að þetta er allt hluti af enn lengri bylgju sem við sjáum aðeins að hluta  - mikinn og breiðan hrygg sem nær yfir Atlantshafið allt og reyndar lengra í báðar áttir. Hann virðist eiga heima á 45 gráðum norður (alls ekki nákvæmt) og spanna um 100 lengdarstig - af 360. Hér er því um bylgjutölu 4 að ræða (enn má ekki taka þá ágiskun alvarlega).

Almenna reglan er sú að stuttar bylgjur hreyfast hratt til austurs en þær stærri mun hægar og þær stærstu jafnvel vestur á bóginn. En víxlverkun af ýmsu tagi villir stundum sýn og í raun og veru er mjög erfitt fyrir augað að sjá hvert stefnir hverju sinni nema svo sem eins og einn dag fram í tímann (ritstjórinn talar af reynslu þess sem bjó við mun verri tölvuspár en þær sem nú tíðkast).

Og á kortinu sést vel að þessi ákveðna bylgja af stærð 10 hreyfist hratt til austsuðausturs og síðan suðausturs - utan í stóra hryggnum með bylgjutöluna fjóra. Þeir sem sjá vel - eða stækka kortið mega taka eftir því að lægðin stutta inniheldur tvo jafnþykktarhringi - bæði 5220 metra og 5160 metra. Það þýðir að lægðarmiðjan við jörð er ansi flöt og fóðurlítil sem stendur.

En þessi bylgja fer hratt hjá - og síðan kemur sú næsta en hún er ámóta stutt og verður við landið á laugardaginn - eins og kortið að neðan sýnir.

w-blogg051212b

Tölvuspám hefur gengið illa að ná slóð laugardagsbylgjunnar og sent hana til austurs ýmist fyrir sunnan eða norðan land. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir okkur. Sjónskarpir sjá að þótt fyrirferð lægðanna tveggja sé svipuð hefur sú síðari ekki nema eina hringaða jafnþykktarlínu innanborðs. Það út af fyrir sig þýðir þéttari þrýstilínur niður undir jörð - og þá e.t.v. meiri vind en fylgir fyrri lægðinni. En spár um það eru vafasamar marga daga fram í tímann - og hungurdiskar eru spálausir að vanda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 133
  • Sl. sólarhring: 366
  • Sl. viku: 2512
  • Frá upphafi: 2434954

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 2231
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband