Meiri afli úr 30-ára meðaltalapyttinum

Fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um keðjumeðaltöl hita. Þar var m.a. fjallað um 30-ára meðaltöl og kom í ljós að enn vantar herslumun upp á að hlýindin á síðari árum nái hæsta 30 ára meðaltali hlýindaskeiðsins um miðja 20. öld. Í dag lítum við nánar á þetta mál og fjöllum um það hvernig 30-ára keðjumeðaltöl einstakra almanaksmánaða standa gagnvart 30-ára hitametum. Þetta er aðallega skrifað fyrir nördin - aðrir snúa sér sjálfsagt undan og hnusa. Annars er alltaf sú von í gangi hjá ritstjóranum að einhverir nýliðar taki nördasóttina.

w-blogg231112

Fyrst lítum við á janúar og október. Janúar er valinn vegna þess að hann er nú hlýjastur mánaða í samanburði við eldri hlýindi, en október vegna þess að hann hefur staðið sig verst hvað þetta varðar. Lárétti ás myndarinnar sýnir ártöl, hafa verður í huga að 30 mánuðir eru að baki hvers punkts. Fyrsta 30-ára meðaltal myndarinnar er 1823 til 1852 en það síðasta 1983 til 2012, ártalið er alltaf sett við síðasta ár meðaltalsins.

Við sjáum vel að síðustu 30 janúarmánuðir (blái ferillinn á myndinni) eru komnir vel upp fyrir það sem hlýjast var áður - eftir mikla dýfu á kuldaskeiðinu síðasta sem margir muna. Það var þó ekki líkt því eins kalt og var á 19. öld. Ef við reiknum heildarleitni er hún um 1,0 stig á 100 árum. Reyndar er stranglega bannað (eða nærri því) að reikna leitni á keðjumeðaltöl af þessu tagi - en við þykjumst ekki vita það.

Í október er staðan talsvert önnur (rauði ferillinn). Þar vantar mikið upp á hitann og satt best að segja hafa októbermánuðir síðustu 30-ára verið lítið hlýrri heldur en gerðist á fyrsta þriðjungi 20. aldar. En hlýnun frá 19. öld er samt talsverð þannig að heildarleitni er um 0,7 stig á 100 árum - býsna gott. Athugið að lóðréttu kvarðarnir eru ekki þeir sömu fyrir mánuðina tvo - októberkvarðinn (til hægri) er 5,5 stigum ofar en janúarkvarðinn en bilin eru þau sömu.

Nördum finnst e.t.v. forvitnilegt að líta á það hvernig einstakir almanaksmánuðir standa sig í samanburðinum við hlýju meðaltölin gömlu. Þann samanburð má sjá á næstu mynd.

w-blogg231112b

Hitakvarði er lóðréttur, núll er sett við hæsta 30-ára meðaltal 20. aldar. Lítum fyrst á janúar og október. Janúar hlýindaskeiðsins nýja er 0.35°C yfir gamla hámarkinu, október vantar 0.76 stig til að ná í skottið á eldri hlýindum. Það eru janúar, apríl og ágúst sem hafa þegar slegið gamla tímann út, júlí hefur nákvæmlega jafnað hann. Við súlurnar eru ártöl sem sýna hvaða tímabil það eru sem enn eru hlýjust. Þau byrja ýmist á þriðja eða fjórða áratugnum.

En það er út af fyrir sig merkilegt að fjórir mánuðir skuli nákvæmlega í ár vera í enda 30-ára meta en síðustu fjórir mánuðir ársins mega greinilega bæta sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er afar áhugaverð færsla Trausti. Ef ég skil súluritið rétt þá hefur "hlýindaskeiðið nýja" slegið út þrjú gömul 30-ára meðaltalshámörk, þ.e. janúar (+0,35°C), apríl (+0,1°C) og ágúst (+0,1°C). Önnur hæstu 30-ára meðaltöl 20. aldar standa óhögguð. Staðan er því í raun 8 - 3 gömlu 30-ára meðaltalshámörkunum í vil (júlí á pari). Hvað varð um hina geigvænlegu hnatthlýnun 21. aldarinnar? Fer magn hins meinta skelfilega spilliefnis CO2 e.t.v. minnkandi í andrúmsloftinu?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 15:49

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar:

Hnatthlýnun á að sjálfsögðu við um alla kúluna, ekki bara meðalhitastig á Stykkishólmi, eins áhugavert og það hitastig nú er...

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.11.2012 kl. 19:37

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt skilið Hilmar að nýja hlýindaskeiðið hefur enn ekki slegið út nema 3 til 4 af eldri meðaltalshámörkum einstakra mánaða(miðað við 30 ár). En munum að nýjaskeið er enn drekkhlaðið að nær hálfu með níðþungum kuldárum, 1983 til 1995. Öll gömlu metin stefna í að falla nema kuldinn snúi af fullum þunga aftur. Geri hann það ekki verða öll gömlu mánaðametin trúlega fallin innan tíu ára. Við kíkjum e.t.v. á það fljótlega í hvaða mánaðaröð hlýindaskeiðið gamla hreinsaði upp enn eldri met og hversu lengi það var að ná toppunum eftir að met fóru að falla.

Trausti Jónsson, 24.11.2012 kl. 01:17

4 identicon

Þakka gott svar Trausti. En þá kemur óhjákvæmilega önnur spurning: Er 30-ára meðaltal ekki marktækari mælikvarði á sveiflur í hitastigi heldur en 5 - eða 10 ára meðaltal? Ef svo er má spyrja áfram: Er 100-ára meðaltal ekki marktækara en 30-ára meðaltal?

Ég spyr reyndar af gefnu tilefni. Í sumar greindi Johannes Gutenberg háskólinn frá merkum vísindaniðurstöðum sem virðast kollvarpa reiknilíkunum heimsendaspámanna. Prófessor Dr. Jan Esper leiddi hóp vísindamanna við landfræðistofnun JGU í rannsókn á árhringum steingerðra furutrjáa sem upprunin eru í finnska hluta Lapplands. Þessi rannsókn gerði vísindamönnum kleyft að sýna í fyrsta skipti fram á að langtímaleitni síðustu tveggja árþúsunda hefur verið í átt til hnattkólnunar.

Svona líta niðurstöður vísindamannana út:

Við megum því fara að undirbúa okkur undir meiri kulda á næstu árum.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 09:09

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar...það er í sjálfu sér ekkert í þessari grein sem kollvarpar þeirri staðreynd að aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum hafa áhrif á hitastig jarðar. Virðist vera ágætis grein, og við höfum til að mynda á loftslag.is sagt frá þessari langtímakólnun áður...til að mynda í ágætum gestapistli eftir Einar Sveinbjörnsson; Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals - þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

Nú eru það svo sem engin ný tíðindiloftslag hafi farið kólnandi á norðurhveli jarðar síðasta árþúsundið eða svo ef 20. öldin er undanskilin. Hin svokallaða fjölvitnaröð Moberg og hinn frægi hokkístafur Mann hafa sýnt svipaða þróun, en báðar byggja þær á ýmsum gerðum veðurvitna.

En svona af því að "efasemdir" Hilmars eru svona þaulsætnar, þá er rétt að vísa á eftirfarandi grein til glöggvunar; Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.11.2012 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband