Merki þess að sumri hallar

Erfitt er að negla niður hvaða dag sumri fer að halla. Svartsýnismenn segja það auðvitað vera strax eftir sumarsólstöður - og er nokkuð til í því. Hiti nær þó ekki hámarki fyrr en síðar. Hámarki meðalhitans er náð ekki löngu eftir sólstöður þar sem land er þurrt og langt frá sjó en yfirleitt er hlýjast á landinu á tímabilinu frá því um 20. júlí til 10. ágúst. Sjórinn í kringum landið hlýnar yfirleitt fram í ágúst.

Loftþrýstingur nær hámarki í maí og lækkar síðan allt sumarið - en tekur dálitla dýfu í lok ágúst - um höfuðdaginn. Um svipað leyti færast illviðri í aukana og frostnætur fara að gera vart við sig inn til landsins.

Silfurskýin sem sjást hér á landi frá 25. júlí og fram í miðjan ágúst hverfa þá snögglega - eða hafa gert það hingað til.

En athyglisverð breyting verður á hitafari í kringum landið. Hitinn fyrir sunnan land hörfar lítið síðari hluta ágústmánaðar en norðurundan fer hann að lækka - að meðaltali nokkuð snögglega. Þetta sést vel á mynd sem hefur reyndar birst í einhverju formi á hungurdiskum áður - en við rifjum hana upp hér að neðan.

w-blogg160812

Myndin tekur yfir eitt ár og eru mánaðanöfnin sett við 15. hvers mánaðar. Á lóðrétta kvarðanum eru tölur sem vísa til þykktarmunar á milli 70°N og 60°N. Fastir lesendur vita að þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem munur er á henni því meiri er hitabrattinn á milli mælipunkta. Við skulum ekki velta vöngum yfir einingunum en hitamunur á milli breiddarbauganna tveggja reiknast minnstur 13. ágúst. Miðað er við tímabilið 1971 til 2000. Trúlega hliðrast lágmarkið eitthvað til á milli tímabila.

Við sjáum að þykktarbrattinn er þrisvar sinnum meiri á vetrum heldur en á sumri. Sérstaka athygli vekur á myndinni hversu snögglega hann vex síðari hluta ágústmánaðar og tvöfaldast hann þá á einum mánuði. Sumarástandi vestanvindabeltisins er þar með lokið og haustið fer að sækja að.

Það er auðvitað misjafnt hvernig þetta gerist frá ári til árs, framsókn kuldans úr norðri er langt í frá samfelld - hvorki í tíma né rúmi.

En við sitjum alla vega í hlýindum í nokkra daga í viðbót og rétt að njóta þeirra meðan þau gefast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.3.): 89
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 1286
  • Frá upphafi: 2453017

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 1163
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband