Þegar vindáttin snýst

Þótt loftið sem verður yfir landinu næstu daga sé kaldara heldur en það sem kom hitanum eystra upp í 27 til 28 stig í fyrradag gefur það samt meir en 20 stiga hita á landinu næstu daga. - En það fer eftir vindáttinni hvar hitinn verður mestur.

Í dag (laugardag 11. ágúst) var áttin nægilega suðlæg til þess að hiti á Húsafelli í Borgarfirði komst í rétt tæp 20 stig. Í rigningunni neðar í héraðinu var hiti þegar best lét tæp 16 stig. Það telst mjög gott í allþéttri rigningu. Daggarmark syðra var hátt, víðast hvar á bilinu 12 til 13 stig - en ekki þó nálægt metum (sjá neðar í pistlinum). Vestur á Fjörðum var daggarmarkið ekki nema 5 til 7 stig - en 9 til 10 stig víðast hvar nyrðra.

Gríðarleg úrkoma mældist í Bláfjöllum í dag, um 118 mm yfir sólarhringinn, enn meira, um 127 mm á Ölkelduhálsi. Á síðarnefnda staðnum rigndi nærri því 200 mm á síðustu tveimur sólarhringum.

Regnsvæðið yfir Vesturlandi er mjög mjótt og sveiflast fram og til baka þannig að stór hluti dagsins í dag var þurr vestur á Snæfellsnesi. En þar rignir væntanlega aftur þegar regnsvæðið fer vestur fyrir land á sunnudag. Í kjölfar þess er hlý suðaustanátt sem mun síðar snúast til austurs.

Þetta þýðir að hlýna mun um landið norðvestanvert og síðar einnig suðvestanlands. Nái sólin að brjótast fram verður furðuhlýtt næstu daga. Varla er þorandi að minnast á 20 stiga hita í Reykjavík, en ef austanáttin nær sér á strik er sá möguleiki opinn - í fyrsta skipti í sumar. En austanáttin á sér ýmsar hliðar á Suðvesturlandi - með henni koma oft úrkomubakkar eða hnútar sem halda hitanum vel í skefjum meðan þeir fara hjá.

Ekki hefur verið skorið endanlega úr um það hvert sé hæsta daggarmark sem mælst hefur á Íslandi. Oftast er loft þurrt þegar hiti er mjög hár hér á landi. Það veldur því að sérstaka aðgæslu þarf við mælingar á votum hita en sú mæling er (ásamt hinni venjulegu hitamælingu) notuð til þess að reikna daggarmark, rakaþrýsting og rakastig.

Votur hiti er mældur með sérstökum mæli þar sem blautri grisju er vafið utan um endann á venjulegum hitamæli. Sé loft rakamettað gufar ekkert upp úr grisjunni og mælarnir sýna það sama. Sé loft hins vegar ekki rakamettað gufar vatn upp úr grisjunni og því ákafar sem loftið er þurrara. Gufunin þarf orku og hún er tekin úr umhverfi mælisins - einkum úr kvikasilfurskúlu hans sem þá kólnar. Hiti á mælinum lækkar og sýnir lægri hita heldur en þurri mælirinn gerir. Því meiri sem munurinn er því þurrara er loftið. En þegar allt vatnið í grisjunni hefur gufað upp hitnar aftur á vota mælinum - því hann er orðinn þurr - og hann fer upp í sama hita og sá þurri.

Sé litið á votan hita í veðurathugunum kemur í ljós að allmörg hæstu gildin eru greinilega einmitt þessu marki brennd. En ekki hefur enn verið farið skipulega í gegnum gögnin til að hreinsa villur frá raunverulegum athugunum. Meðan svo er getum við ekki sagt hvert metið er.

Á sjálfvirkum stöðvum er rakastigið mælt og daggarmark og rakaþrýstingur reiknuð út frá því. Á heildina litið virðast þessar rakamælingar mjög trúverðugar - en villur koma samt fyrir.

Hæsta daggarmark sem hefur mælst á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni (15 ár) er 14,5 stig. Það var 9. september 2002. Hæsta gildi sem mælst hefur á Reykjavíkurflugvelli (11 ár) er 15,0 stig. Það var sama dag, 9. september 2002. Það munar 0,5 stigum - ætli það fari ekki nærri nákvæmni mælinganna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 46
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 1011
  • Frá upphafi: 2420895

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 888
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband