Óvenju djúp lægð nærri norðurpólnum

Nú er óvenju djúp lægð skammt frá norðurpólnum. Ekki það að hún abbist upp á okkur en samt er gaman að vita af henni. Kanadíska veðurstofan segir þrýsting í lægðarmiðju nú á miðnætti (að kvöldi frídags verslunarmanna 6. ágúst) 967 hPa. Evrópureiknimiðstöðin er nærri því sammála - en ekki er gott að sjá af fyrirliggjandi kortum nákvæmlega hver tala hennar er. En 500 hPa-kortið er aftur á móti mjög skýrt.

w-blogg070812a

Fastir lesendur ættu að átta sig á kortinu. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Mjög hvasst er þar sem línurnar eru þéttar. Litafletirnir sýna þykktina - kvarðinn er ekki sýndur en mörkin á milli gulu og grænu flatana eru sett við 5460 metra og er auðvelt að telja sig upp og niður frá því gildi því skipt er um lit á 60 metra fresti.

Sjá má tvo litla bláa bletti á kortinu, annar er til vinstri við aðallægðarmiðjuna en hinn er í annarri lægðarmiðju nærri Franz Jósefslandi (austur af Svalbarða).

Hægt er að reikna þrýsting við sjávarmál með því að draga þykktina frá hæðinni - en við skulum ekki gera það að þessu sinni. Trúið því bara að sá frádráttur gefur að þrýstingur í lægðarmiðjunni miklu sé um 970 hPa - kannski aðeins lægri.

Innsta jafnhæðarlínan utan um lægðarmiðjuna myndar örsmáan hring utan um það (litla) svæði þar sem hæðin er minni en 5040 metrar.

Nú er spurningin sú hvort það geti verið að þessi lægð sé fyrsta fræ haustsins yfir Norður-Íshafinu. Ekki verður kveðið úr um það hér. En forvitnilegt verður að fylgjast með því hvort bláu lágþykktarblettirnir hverfi aftur - en þeir hafa nú verið að mestu fjarverandi í eina til tvær vikur. En haustið er örugglega komið þarna norðurfrá þegar 5100 metra þykkt eða lægri fer að vera viðvarandi á svæðinu. Vonandi að það dragist vel fram í september.

En eru svona djúpar lægðir algengar á þessum slóðum í ágústbyrjun? Ritstjórinn verður því miður að játa að hann er ekki viss. Hann veit hins vegar að snemmbærar haustlægðir geta orðið mjög skæðar á hafsvæðinu milli Alaska og norðurskautsins. Þá er oft enn nokkuð hlýtt yfir meginlandi Norður-Ameríku en farið að kólna yfir Íshafinu. Þessar lægðir eru sérlega skæðar fyrir það að þetta er sá tími árs þegar ísþekja er í lágmarki og brim við ströndina getur orðið sérlega mikið. Minnkandi ís hefur valdið auknu sjávarrofi bæði í Alaska og í Síberíu á undanförnum árum.

Hvað lægðin gerir við ísinn að þessu sinni vitum við ekki enn - gervihnattamælingar segja ísþekjuna óvenju litla þessa dagana. Frelsi hennar til hreyfingar er því óvenjumikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Kannski best að tína berin fljótlega, áður en næturfrost mætir í berjamóana?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.8.2012 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 47
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 1012
  • Frá upphafi: 2420896

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband