Af lægðinni djúpu?

Fram hefur komið í fréttum að óvenju djúp lægð - miðað við árstíma - nálgast nú landið. Það er samt ekki fyrr en á laugardag að áhrifa hennar fer að gæta. Það er því fullsnemmt fyrir hungurdiska að taka hana til umfjöllunar - því ritstjórinn gerir engar spár - en fjallar um þær.

En lægðin virðist ætla að verða ein sú dýpsta sem sést hefur á N-Atlantshafi í júlímánuði. Tölvugreiningar og spár nú á dögum ráða mun betur við snarpar lægðarmiðjur heldur en á árum áður. Þess vegna er erfitt að fullyrða að ekkert ámóta hafi átt sér stað áður. Engar mælingar voru þá á stórum svæðum og engar gervihnattamyndir til aðstoðar við ágiskanir. Endurgreiningarnar hjálpa talsvert til við leit en það er samt þannig að upplausn þeirra er talsvert lakari en nú gerist í líkönum.

Fyrir nokkrum dögum minntust hungurdiskar á lágþrýstimet í júlímánuði á Íslandi. Þar kom fram að aðeins er vitað um þrjú tilvik þegar þrýstingur á landinu mældist lægri en 975 hPa. Fyrirfram er ólíklegt að mælingar gerðar aðeins þrisvar á dag á fáeinum stöðvum hafi í raun mælt þann lægsta þrýsting sem var í viðkomandi lægðarmiðjum. Stappar nærri vissu að þær hafi verið dýpri.

Hungurdiskar hafa greiðan aðgang að hluta þrýstitalna endurgreiningarinnar amerísku en hún nær allt aftur til ársins 1871. Svæðið sem um er að ræða nær frá 60°N til 70°N og 10°V til 30°V og punktarnir eru á 2° bili bæði í lengd og breidd (66 líkanpunktar eru á svæðinu). Auðvelt er að leita að lágum þrýstingi í þessum punktum öllum. Við getum til hægðarauka talað um stóríslandssvæðið.

Leitin hefur farið fram og í ljós kom að greiningin nær íslensku lágþrýstigildunum þremur (1901, 1912 og 1923) ekki alveg - lægðir greiningarinnar eru aðeins of flatar í botninn - eða lágþrýstingurinn of skammlífur til þess að þær komi fram í netinu. Sé leitað á stóríslandssvæðinu öllu finnast aðeins þrjú tilvik önnur þegar þrýstingur var undir 975 hPa að mati greiningarinnar í júlí. Þetta var 1926, 1948 og 1964. Í síðasta tilvikinu var þrýstingurinn lægstur í suðausturhorni svæðisins - sennilega einhver dýpsta lægð sem nálgast hefur Skotland í júlímánuði.

En þrátt fyrir annmarka greiningarinnar má telja ljóst að lægri þrýstingur en 975 hPa er mjög óvenjulegur í júlí. Nú er ekki víst að spárnar í dag (fimmtudag 20. júlí) séu réttar. Lægsti þrýstingur í lægðarmiðju er misjafn eftir líkönum, evrópureiknimiðstöðin fer með miðjuna niður í 964 hPa - rétt utan við stóríslandssvæðið - kl. 18 á laugardag. Sama reikniruna (frá kl. 12 á hádegi á fimmtudag) setur þrýstinginn niður í 970 hPa syðst á landinu á sunnudagskvöld - það væri glæsilegt met.

Í líkani bandarísku veðurstofunnar (reikniruna frá kl. 18, fimmtudag) fer lægðarmiðjan niður í 966 hPa rétt inni á stóríslandssvæðinu kl. 6 á sunnudagsmorgun. Lægstum þrýstingi á Íslandi er spáð 971 hPa á sunnudagskvöld.

Grófa Hirlam-líkanið fer með lægðarmiðjuna niður í 960 hPa á sama stað og tíma og spá reiknimiðstöðvarinnar. Spáin nær ekki enn til sunnudagskvölds.

Lægðinni fylgir skammvinnt hvassviðri og úrkoma langt á undan sjálfri lægðarmiðjunni. Eftir að það gengur yfir gerir trúlega besta veður - úrkoma og ský verða í lofti en hlýtt. Hér fylgjast því ekki að eftirtekt hins almenna veðurnotanda (t.d. ferðafólks) og eftirtekt nörda. Þau síðarnefndu hafa mestan áhuga á því hvort loftþrýstimet verður slegið eða ekki - flestum öðrum er nákvæmlega sama.

Einhvern tíma í fortíðinni - fyrir daga þrýstimælinga varð sjávarflóð í júlí á Suðvesturlandi. Þrátt fyrir ágætt aðgengi ritstjórans að annálum finnur hann ekki hvenær þetta var. Skyldi þar hafa farið dýpsta júlílægðin - eða er skapandi misminni ritstjórans enn á ferð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki einmitt ástæða til þess að vara fólk við líkum á sjávarflóðum, séu þær fyrir hendi nú?

Bjarn Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 09:06

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Á árunum 1983-1986 gekk kröpp lægð yfir landi 919 hPa eða millibör eins og það var kallað. (Þetta er eftir minni). Hún var held ég kölluð febrúarlægðin. Ég þurfti að sækja fólk sem var að koma frá Húnavallaskóla og fór Langadal í gegn um Blönduós. Það var glórulaus hríð og björgunarsveit kom með fólkið á móti mér. Þegar ég hélt til baka ók ég fram Langadal og ek út úr sortanum í inn í kafaldsmuggu og nánast logn.

Mér þótti þetta svolítið furðulega og svo þegar ég var kominn heim og reyndi að átta mig á þessu að þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hafi verið ákúrat í lægðarmiðjur en samkvæmt kenningum á þar að vera svo til logn.

Þetta var skemmtileg upplifun.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 20.7.2012 kl. 10:24

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Eitthvað minntist Veðurstofan á háa sjávarstöðu, en brim og brimsog getur verið varasamt fyrir ferðamenn á fjörubeit á miðju sumri. Þorsteinn, ég held þú ruglir á skapandi hátt saman að minnsta kosti þremur tilvikum og gerir að einu. MLægðir sem komu í febrúar 1981 og 1991 voru nefndar febrúarlægðirnar, mjög djúp lægð (talan 919 gæti hafa verið nefnd) fór hjá í desember 1986 og í janúar 1983 fór óvenju djúp lægð hjá og olli miklu hríðarveðri og veðrabrigðum. En þetta er eðlileg samsuða - ekki óþekkt í huga þess sem þetta skrifar.

Trausti Jónsson, 21.7.2012 kl. 02:07

4 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Þett er sennilega rétt hjá þér Trausti. Í seinni febrúarlægðini var ég farinn að búa á Reykjum við Reykjabraut en þar er mjög veðrasamt þegar vindstrengur kemur út Svínadal og út Sauðadal og endar í hörðum vindhnút og byljum við enda Reykjanibbunnar og lendir á bæjarhúsum á Reykjum. Þetta voru eins og hörð högg.

Þá fauk stór fjárflutningavagn hjá mér, byggður úr vörubílsgrind. Hann bókstaflega tókst á loft og sveif í loftinu 250-300 m. 

Þakið á fjárhúsunum hjá nágranna mínum á Orrastöðum flettist af í einni hrinunni.

MBK, ÞHG

Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.7.2012 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 94
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 1059
  • Frá upphafi: 2420943

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 935
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 84

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband