Óvenjulegur sólskinsstundafjöldi

Eins og fram hefur komið í fréttapistli á vef Veðurstofunnar og sömuleiðis á nimbusarbloggi var nýliðinn júní óvenjusólríkur bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er sérlega ánægjulegt að því leyti að helstu keppinautar í sólskinslengd í Reykjavík eru fornir, aðallega 80 til 90 ára gamlir. Á dimmviðratímabilinu fyrir um 20 árum eða svo lagðist sólarleysið svo á sinni veðurnörda að þau trúðu vart gömlum háu tölum. En nútíminn er loksins að gera jafnvel eða betur.

En séu tölur maí- og júnímánaða lagðar saman verður nýliðið ástand enn óvenjulegra. Í ljós kemur að sólskinssumma tveggja mánaða hefur aldrei orðið jafnhá í Reykjavík, 616,9 stundir. Næstir koma saman júní og júlí 1928 með 606,0 stundir. Síðan er smábil niður í 598,0 stundir sem maí og júní 1924 eiga saman. Þessi þrjú mánaðapör eru í nokkrum sérflokki.

Staðan á Akureyri er enn merkilegri því sólskinssumma nýliðinna tveggja mánaða, 545,6 stundir, er miklu hærri heldur en sú næsthæsta, 475,5 stundir, sem júní og júlí ársins 2000 eiga saman.

Þá byrjar græðgin að gera vart við sig. Skyldu þriggja mánaða metin falla líka? Í Reykjavík er það tímabilið apríl til júní 1924 sem situr í efsta sætinu með 822,7 stundir. Til að það falli þurfa sólskinsstundir í júlí í Reykjavík að verða 205,9 eða fleiri. Það gerist um það bil fjórða hvert ár að meðaltali að svo margar sólskinsstundir mælist í Reykjavík í júlí, síðast árið 2010. Líkurnar á þriggja mánaða meti í Reykjavík eru því rétt sæmilegar eða um 25%. Fyrstu tveir dagarnir hafa dregið úr líkum.

Á Akureyri er þriggja mánaða metið 663,4 stundir og það eiga maí, júní og júlí 1939. Það þýðir að þriggja mánaða metið fellur ef sólskinsstundirnar á Akureyri verða fleiri en 117,8 í júlí. Við vitum um sólskinsstundafjölda í júlí á Akureyri í 85 ár. Í fimmtungi þeirra hafa sólskinsstundirnar verið færri heldur en metmarkið. Gróflega má því segja að 80 prósent líkur séu á því að þriggja mánaða metið falli á Akureyri.

Júnímánuður í ár skorar hátt í norðan- og austanáttatíðni, en norðvestanniðurstreymisloft ofan af Grænlandi hefur langtímum saman bælt alla úrkomu - meira að segja norðan heiða. Síðustu tvö árin rúm hefur veðurlag verið mjög stórköflótt - úrkoma ýmist í ökkla eða eyra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 157
  • Sl. sólarhring: 255
  • Sl. viku: 1340
  • Frá upphafi: 2464846

Annað

  • Innlit í dag: 149
  • Innlit sl. viku: 1157
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 144

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband