Fáeinar seigar málsgreinar um þrumuveður

Það hefur alllengi verið ætlan ritstjórans að troða ritgerð um þrumuveður inn í hungurdiska - en ekkert orðið úr því. Þetta er einfaldlega svo langur texti að samantekt hans rúmast ekki innan þeirra tímamarka sem leyfð eru í ritun pistlanna.

Tilefni þess að minnst er á þrumuveður einmitt nú er að undanfarna þrjá daga hefur eldingaskráningarkerfi bresku veðurstofunnar numið slæðing af eldingum yfir Íslandi. Það skráir ekki nærri allar eldingar sem hér verða - en samt. Ekki er algengt að eldingar mælist hér dag eftir dag. - En breska kerfið hefur undanfarna daga mælt tugþúsundir eldinga sama daginn í námunda við Bretlandseyjar og svæðið þar austur af. Heldur verða okkar þrumuveður ómerkileg í samanburði.

Hér að neðan kemur orðið hræðilega, mættishiti, fyrir æ ofan í æ (æ, æ). Mættishiti er sá hiti sem loft hefur eftir að hafa verið flutt úr sinni hæð niður undir sjávarmál (1000 hPa). Hann er stundum (subbulega) kallaður þrýstileiðréttur hiti og leiðir okkur í allan sannleika um það hvort loft er kalt eða hlýtt. Hann gerir mögulegt að bera saman hita í efri loftlögum og niður undir jörð á jafnréttisgrundvelli. Mættishiti vex ætíð upp á við. Geri hann það ekki leiðréttir lofthjúpurinn þá uppákomu snarlega með því að snúa sér við - þannig að hærri mættishitinn snúi upp.

Þrumuveður verða einmitt til þegar veðrahvolfið fer að velta sér, mættishiti í neðri hluti þess verður svipaður og mættishitinn í efri hlutanum. Þau fylgja því óstöðugu lofti og (i) því óstöðugra sem loftið er og (ii) því hærra sem veltingurinn nær og (iii) því meiri raki sem er í loftinu, því öflugri eru veðrin.

Síðdegisskúrir koma helst hér á landi þegar veðrahvolfið er óvenju kalt, þá á loft sem hlýnar við snertingu við hlýtt jarðaryfirborð möguleika á að komast hátt upp. Það lyftist allt þar til það kemst upp undir loft með hærri mættishita.  

Þótt Ísland sé lítið er hitamunur oft talsverður milli inn- og útsveita á góðum sumardögum. Stöðugleikinn er þá mun minni yfir landinu en umhverfis það. Ef mættishiti í háloftunum yfir Íslandi lækkar minnkar stöðugleikinn og fyrir kemur að hann verður nægilega lágur til að íslenska meginlandsupphitunin rjúfi „múrinn”. Sá múr rofnar mun oftar yfir meginlöndunum á sumrin þó mættishiti þar í háloftum sé oftast nokkru hærri en hér vegna þess að þar er hann því hærri í neðstu lögum. 

En undanfarna daga hefur mjög kalt háloftaloft ráðist suður um Bretlandseyjar og lent ofan á röku, hlýju lofti úr suðri og suðaustri. Lágúr mættishiti lenti þar með ofan á háum - sem gengur ekki.

Við höfum setið undir svipuðum veðrahvarfakulda og bretar en hlýja raka loftið hefur alveg vantað. Kalda loftið er heldur þurrbrjósta. En samt voru sunnlensku demburnar í dag (föstudag 29. júní) býsna snarpar.

Nú mætti rita langan pistil um hinar mismunandi tegundir þrumuveðra utanlands og innan - en lesendum er vægt að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Hérna er myndband sem ég tók af þrumuveðri í Danmörku þann 29. Júní (í gær). Þetta er stærsta þrumuveðrið sem ég hef lent í hingað til síðan ég fór að búa í Danmörku (tveir mánuðir núna í ár).

http://www.jonfr.com/?p=6720

Jón Frímann Jónsson, 30.6.2012 kl. 16:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir fyrir tengilinn Jón.

Trausti Jónsson, 1.7.2012 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband