Óstöðugt loft á miðhæðinni

Megnið af öllu uppstreymi (öðru en því sem fjöll valda með því að flækjast fyrir loftstraumum) á uppruna sinn í yfirborði (lands eða hafs) sem er hlýrra en loftið sem um það leikur. Loft sem ekki snertir jörð getur þó orðið mjög óstöðugt við sérstök skilyrði, sérstaklega þar sem þannig hagar til að hlýtt og rakt loft stingur sér inn á milli annarra loftlaga. Sömuleiðis getur loft orðið óstöðugt við það að loft á efra borði skýja kólnar (með útgeislun) meira heldur en það sem er neðar í skýinu.

Stundum má greinilega sjá þennan óstöðugleika með því að fylgjast með skýjafari. Skýjum er skipt í þrjá meginflokka eftir hæð þeirra, lágský, miðský og háský. Gráblika og netjuský teljast til miðskýja. Gráblikan er nærri því alltaf eins – grátt jafndreift þykkildi um himininn, ýmist hluta hans eða hann allan sem sér móta fyrir sól í gegnum – án allra rosabauga. Netjuskýin eru hins vegar mjög fjölbreytt. Þau eru oftast flöt, það er að segja meiri á þverveginn heldur en þykktina. Það táknar að þau fylgja tiltölulega stöðugu lofti. 

Sé loft hins vegar óstöðugt í netjuskýjahæð myndast þar allt öðru vísi ský, við getum jafnvel kallað þau sérkennileg. Þau eru flokkuð í tvær tegundir, altocumulus castellanus og altocumulus floccus. Skýringarmyndin hér að neðan er tilraun til að lýsingar á skýjunum (fengin úr bókinni góðu, Elementary Meteorology).

w-blogg270612

Altocumulus castellanus eru til vinstri á myndinni. Þau eru raðir eða garðar bólstra þar sem hver einstakur bólstur er talsvert hærri heldur en hann er breiður. Þeir virðast vera litlir um sig en botnarnir eru miklu hærra á lofti heldur en botnar venjulegra bólstraskýja. Á íslensku köllum við þessa skýjategjund netjuborgir eða turnnetjuský. Stundum má sjá slæður eða stafi (virga) ískristalla falla úr skýjunum.

Hin tegundin, altocumulus floccus er til hægri á myndinni. Þetta eru að sjá stakir litlir brúskar eins og ullarhnoðrar dreifðir óreglulega um allstóran hluta himins. Við megum kalla þetta brúska- eða lagðanetjuský, netjubrúska eða jafnvel hnökranetju.

Nefjuborgir sjást endrum og sinnum hér á landi, en brúskarnir sjaldnar. Erlendis fá þessar skýjategundir sérstaka athygli veðuráhugamanna því þau eru gjarnan forboði þrumuveðra.

Hérlendis eru háskýjabræður netjuskýjanna, cirrocumulus castellanus (blikuturnar eða blikuborgir) og cirrocumulus floccus (blikulagðar), algengari.

Á þessum tíma árs er bjart mestallan sólarhringinn og kjöraðstæður til þess að fylgjast með skýjafari. Prófið að leita að myndum af þessum skýjategundum á netinu með því að setja alþjóðaheitin í leit. Varist þó að í myndasöfnunum eru skýin oft ranglega greind - stöku sinnum mjög gróflega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband