Í flatneskjunni miðri

Nú stefnir í margra daga flatneskju á veðurkortum sem sýna Ísland og hafsvæðin umhverfis það. Langt er í hlýtt sumarloft en styttra er í kalda loftið, alla vega það sem liggur á fleti yfir hafinu norðaustan og austan við land. Ef skýjað er verður fátt til bjargar, hitinn er þá aðallega á bilinu 6 til 12 stig (eða svo) dag og nótt, en sé veður bjart að deginum nær sólin að koma hitanum ofar - jafnvel í 16 til 18 stig - ef ekki er þá hafgola. Nóttin er mjög stutt en samt kólnar mjög í heiðu veðri og næturfrost þá viðloðandi.

En við lítum á spá frá evrópureiknimiðstöðinni um stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á sunnudag 10. júní.

w-blogg100612a

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og eru dregnar með 6 dekametra bili (1 dekametri jafngildir 10 metrum). Yfir Íslandi er flöturinn í meir en 5580 metra hæð, en það er um 100 metrum hærra en að meðaltali í júní. Hæglátt niðurstreymi ríkir í háþrýstisvæðinu og dregur það úr líkum á myndun skúraklakka sem stundum eru áberandi þegar þrýsti- og hæðavið eru flöt.

Þykktin er mörkuð með rauðum strikalínum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalþykkt um 10. júní er um 5400 metrar. Það er einmitt 5400 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir Austurlandi og þykkt yfir Vesturlandi því aðeins yfir meðallagi. Þeir sem eru reikningslega sinnaðir geta nú reiknað út þrýsting við sjávarmál (við leyfum þeim að gera það).

En á kortinu er eftirtektarvert að flatneskjan nær næstum yfir það allt. Jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru þó þéttari sunnan Bretlands, yfir Frakklandi og Spáni. Þar er stöðugur lægðagangur - flóð hafa verið á Bretlandi síðustu daga. Spár segja að lítilla breytinga sé að vænta þar um slóðir.

Yfir norðurodda Labrador er býsna krassandi kuldapollur sem ber í sér leifar vetrarins. Hann ógnar okkur ekki - en alltaf er rétt að gefa villidýrunum auga.

Þótt þetta veðurlag sé hvað næst veðurleysunni er það ekki auðvelt viðfangs fyrir veðurspámenn. Nú skipta hin minnstu smáatriði máli fyrir fólk í fríi - skín sól eða ekki? - hvernig verður hafgolan í dag? Svör eru ekki auðveld - helst að spá sama á morgun og var í dag? En þetta er auðvitað eitt besta veðurlag sem fyrirfinnst hér á landi til útivinnu og gönguferða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Já alveg sammála þér Trausti, þetta er það sem er gott veður.

kv.Guðrún María

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.6.2012 kl. 01:17

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta finnst mér nú eitthvert leiðinlegasta snemmsumars veðurlagið hér í Reykjavík, flákaskýjamollan í gærkvöldi var ógeðsleg og ekki er hafáttin núna geðslegri þegar hitinn rétt skríður upp í 10 stig.- En það gæti verið verra!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.6.2012 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband