Sólskinið í maí

Nýliðinn maímánuður er einn hinn sólríkasti sem vitað er um bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík er hann í fimmta sæti en næstsólríkastur á Akureyri. Hér er sá tími einnig talinn með þegar mælt var á Vífilsstöðum í nágrenni Reykjavíkur en þar hófust sólskinsstundamælingar árið 1911. Fáein ár og mánuði vantar fram til 1923. Skýjahula hefur verið metin í Reykjavík (og Vífilsstöðum) allt frá 1885 en fáein ár vantar þar einnig.

Gott samband er á milli sólskinsstundafjölda og skýjahulu í flestum mánuðum ársins nema yfir háveturinn. Við lítum hér á mynd sem sýnir þetta samband í Reykjavík í maí. Við getum ef til vill notað það til að meta hvort einhverjir maímánuðir á árunum frá 1886 og ekki eiga sólskinsstundamælingar séu líklegir til afreka. Athugið að hægt er að stækka myndirnar nokkuð og verða þær þá læsilegri.

w-blogg020612

Lárétti ásinn sýnir meðalskýjahulu maímánaðar en sá lóðrétti sólskinsstundafjölda. Við sjáum að langflestir punktarnir fylgja reiknaðri aðfallslínu mjög vel, enda er fylgnistuðullinn -0,92. Mínusmerkið þýðir að því meiri sem skýjahulan er því færri eru sólskinsstundirnar. Ef allir punktarnir fylgdu línunni nákvæmlega væri fylgnistuðullinn -1,0. Væru punktarnir jafndreifðir um alla mynd væri fylgnistuðullinn 0,0. Fylgnin er hér glæsileg, en eitt spillir útliti myndarinnar - ´væri alskýjað allan mánuðinn ættu sólskinsstundirnar samt að vera 30 - eitthvað grunsamlegt það ekki satt.

Örin á myndinni bendir á nýliðinn maí, 2012. Hann er í fimmta hæsta sæti sólskinsstundafjöldans eins og áður var minnst á, en með sjöundu lægstu skýjahuluna. Stendur sig sem sagt ívið betur en skýjahulan ein hefði giskað á. Ef öll árin sem eiga meðalskýjahulu (frá og með 1885) eru tekin með lendir maí 2012 í 11. sæti. Við vitum að hann stóð sig betur í sólarkeppninni heldur en bæði 1955 og 1924 - hugsum ekki meir um þau. En það eru fjögur ár á fyrri tíð sem eiga minni skýjahulu heldur en 2012. Það eru 1885, 1886, 1887 og 1921. Satt best að segja er grunsamlegt að þrjú áranna skuli vera í röð - einmitt þegar sami maður athugaði - en hætti síðan.

Minnst var skýjahulan í maí 1886, 2,8 áttunduhlutar. Ef það er rétt - skyldi það hafa dugað í 410 sólskinsstundir eins og línan bendir til?

En annað er eftirtektarvert á myndinni. Árin 1922 og 1923 - einmitt þegar athuganir voru að flytjast frá Vífilsstöðum til Reykjavíkur. Stappar nærri vissu að segja að hér vanti sólskinsstundir eða skýjahulu - hvort? Þar til málið er upplýst er varla hægt að taka mark á maísól þessara tveggja ára.

Og ekki skiljum við Akureyri eftir úti í kuldanum.

w-blogg020612b

Ásar myndarinnar eru þeir sömu og á fyrri mynd. Fylgnistuðullinn er hér ekki eins hár, -0,84. Það er samt mjög mikið - mjög mikið. Maí í ár er klesstur upp við maí 1968 - en nær honum ekki alveg. Lægstur er maí 1983 - það fræga endemis ár. Hér eru nærri 50 sólskinsstundir í alskýjuðu og fáein ár eru svífandi utan við meginskýið, sérstaklega 1941 og 1943 - þar vantar sól eða ský og 1975 hinu megin. Kannski að þá hafi bara verið léttskýjað á daginn.

Þrátt fyrir allt sólskinið var ekkert nýtt sólardægurmet sett í Reykjavík í maí, en þrjú á Akureyri, langglæsilegast þann 31. en þá mældust stundirnar 17,6. Það er 2,2 stigum lengur en fyrra met dagsins. Aðeins einu sinni hafa mælst fleiri sólskinsstundir á dag í maí á Akureyri. Það var 28. maí 1998 að sól skein í 17,8 stundir.

Séu tölur dægurmetalistanna lagðar saman fæst einskonar áætlun um hugsanlegan sólskinsstundafjölda á stöðunum ef heiðskírt væri allan mánuðinn. Fæst þá talan 520 fyrir Reykjavík (aðfallslinan segir 610) og 497 á Akureyri (aðfallslínan segir 538). Í maí 2012 skein sólin 57 prósent af mögulegum tíma í Reykjavík, en 58 prósent á Akureyri. Hér ríkir jöfnuður.

Að lokum: Engin marktæk fylgni er á milli sólskinsstundafjölda í Reykjavik og á Akureyri, stundum er mikið sólskin á báðum stöðum samtímis (eins og nú) og stundum mikið á öðrum en lítið á hinum - allir möguleikar. Fylgnistuðullinn í maí er +0,26.

Í viðhenginu er listi yfir skýjahulu og sólskinsstundir í Reykjavík og á Akureyri í maí - eins og heimildir greina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta fer nú að líkjast veðurfréttaflutningi Ómars Ragnarssonar á sinni tíð: Hlýjast á Dalatanga í allri Evrópu (18 stig um miðjan vetur). Hann gleymdi bara að segja frá því að vindhraðinn var yfir 20 m á sek. og úrkoman um 50 mm, svo fáir gátu notið hlýjandanna.

Sama er með sólskinstundirnar í maí sem þú segir frá. Þeir fylgdi mikil kuldatíð, eða frá 3.-21. maí, þ.e. samfellt í 18 daga, með þeim afleiðingum að það stórsér á trjágróðri. Auk þess hefur úrkoman verið lítil sem enginn svo allur gróður er að skrælna.

Ég segi eins og Jóhanna Vígdís sjónvarpsþulur: Megi þetta veður standa sem lengst!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 2.6.2012 kl. 08:58

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er merkilegur pistill. Sérstaklega þetta með hina sterku fylgni milli skýjahulu og sólarstunda. Ég hefði trúað að hún væri ekki alveg svona mikil. Undarlegt er svo að ekki megi segja hlutlægt frá einum veðurþætti eftir mælingum og ekki blanda öðrum saman við,  án þess að menn komi með  ónotalegar athugasemdir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.6.2012 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband