Hreinsað frá

Nú virðist mesti vindurinn úr krossmessukastinu, en enn eru eftir að minnsta kosti tveir eða þrír mjög kaldir dagar. Sólin fer þó að hjálpa til sunnan undir vegg þegar og þar sem hennar nýtur við. Við lítum á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir morgundaginn (þriðjudaginn 15. maí).

w-blogg150512

Eins og venjulega á þessu kunnuglega korti eru jafnþykktarlínur heildregnar og svartar (í dekametrum, 1 dam = 10 metrar) en litafletir sýna hita í 850 hPa - en sá flötur er í um 1500 metra hæð yfir Vesturlandi þegar kortið gildir.

Innsta jafnþykktarlínan sýnir 5100 metra. Þetta er með því allra minnsta sem sést yfir landinu á þessum tíma árs - dæmi eru þó um lítillega minni þykkt. Spurning hvernig fer með landsdægurlágmörkin næstu daga. Metið þann 15. er -11,7 stig sett á Brúarjökli 2007. Lægsta tala í byggð þennan dag er  -10,8 stig úr Möðrudal 1977. Metið þann 17. er á svipuðu róli og líka innan seilingar nú. Þann 16. maí 1955 var hins vegar -16,6 stiga frost á Barkarstöðum í Miðfirði. Reyndar er það grunsamlega lág tala - en henni hefur verið sleppt í gegnum eftirlit á sínum tíma og verður ekki breytt hér. Mikið krossmessuhret gerði í maí 1955 og stöku stöð á metlágmark þá daga. Þessi lága þykkt núna gæti hugsanlega gefið -15 stig einhvers staðar á hálendinu - en vonandi ekki.

En við bíðum nýrra talna. Á kortinu má einnig sjá annan kuldapoll sem lúrir við norðurjaðar þess. Hann fer suður - en kjarni kuldans á að fara nokkuð fyrir austan land á fimmtudag og aðfaranótt föstudags.

Eftir það hreinsar vonandi frá - að minnsta kosti í bili - og hærri tölur ættu að fara að sjást á þykktarkortunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er spurning hvort mesti vindurinn sé ekki líka úr kolefnistrúboðskastinu eftir atburði síðustu daga Trausti. Alhvítt á Norður- og Austurlandi, að maður minnist nú ekki á Vestfirðina, og Fjarðaheiði ófær í miðjum maímánuði 2012(!) Hvar er hnatthlýnunin ógurlega?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 15.5.2012 kl. 16:08

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hér á landi hefur hlýnað um 1 stig eða svo síðustu 100 árin. Þótt sú hækkun sé veruleg sést hún ekki á kortum sem sýna veður frá degi til dags (eða ári til árs eða áratug til áratugar). Eitt stig samsvarar 1,6 til 2,0 dekametra þykktaraukningu. Þann dag sem við förum að sjá hnattræna hlýnun á þykktarkortum eins og þessu verður málum þá svo illa komið að eins gott er að fara að leita skjóls. Við vonum bara að hlýnunin dyljist sem mest og best sem lengst þannig að hræðsla grípi ekki um sig.  

Trausti Jónsson, 16.5.2012 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 50
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 1971
  • Frá upphafi: 2412635

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1724
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband