Hret liggja í loftinu

Fer ekki að hlýna? Heldur kuldinn áfram? Þetta eru helstu spurningar sem ritstjórinn heyrir á förnum vegi þessa dagana. Jú, sumir bæta við: - En annars hefur veðrið samt verið harla gott. Útreikningar sýna þó að fyrstu 9 daga maímánaðar hefur hiti á landinu er býsna nærri meðallagi - og að varla hefur verið hægt að tala um hret í venjulegum skilningi þess orðs.

Sé gerður listi um raunveruleg hret í maímánuði er lítið hægt að gera nema fórna höndum - svo mörg eru þau illskeytt og langvinn. Varla er hægt að taka eitt úr og segja að það sé það versta.

Í maí í fyrra (2011) gerði slæmt hret eftir þann 20. og sömuleiðis í maí 2006. Þegar þetta er skrifað (seint á miðvikudagskvöldi 9. maí) virðist varla komist hjá hreti á sunnudag og næstu daga á eftir. En það er samt fullsnemmt að fara að gera grein fyrir því - spár eru þrátt fyrir allt ekki alveg sammála - kannski sleppum við furðuvel?

En við getum borið niður í fortíðinni og litið á veðurkort frá því 5. maí 1923 en þá gerði einmitt norðankast ekki ósvipað því og nú liggur í loftinu. Við þökkum bandarísku veðurstofunni og fleirum fyrir kortið. Það virðist ekki vera fjarri lagi. Þrýstingur fór niður í 981 hPa í Reykjavík - svipað og hér er sýnt í lægðarmiðju.

w-blogg100512a

Athuga þarf einingarnar. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins. Jafnhæðarlínur hans eru (næstum alveg) jafngildar þrýstingi við sjávarmál nema hvað setja á 40 metra í stað 5 hPa bils á milli lína. Hæðarlínur undir núll metrum eru strikaðar á kortinu. Mínus 40 metrar er sama og 995 hPa og -120 er sama og 985 hPa.

Lægðin dýpkaði mjög mikið þegar saman gengu kuldapollur sem fór til suðausturs yfir Suður-Grænland og tunga af hlýju lofti úr suðvestri. - Frábært fóður.

Mikið norðanáhlaup gerði hér á landi - þegar kortið gildir hafði það náð fullum styrk á Vestfjörðum og suður um Vesturland. Hretið kom sjófarendum að óvörum fyrir vestan - engar voru tölvuspárnar og strönduðu tvö skip við Hornvík, og tveir bátar að auki brotnuðu þar. Einn maður fórst, öðrum var bjargað. Þetta þótti mjög vel sloppið. Seglskip rak upp á Haganesvík í Fljótum. Margir bátar lentu í hrakningum.

Tveimur dögum síðar (að morgni þess 7.) var alhvítt í Reykjavík og snjódýpt 10 cm. Daginn áður segir í frétt í Morgunblaðinu:

Stórviðri af norðri gerði hjer í fyrri nótt með allmikilli snjókomu, svo fjöll voru snjóhvít niður í sjó. Mun fannkoma hafa orðið nokkur víðast á landinu. Úr Arnessýslu var simað, að þar hefði komið skóvarpssnjór. Í Húnavatnssýslu var sögð allmikil stórhríð í gærmorgun, en í Eyjafirði var sagt gott veður. Kemur kuldakast sjer illa á þessum tímum. Eru menn hræddir um að fje hafi fent í Húnavatnssýslu. Höfðu 4 menn farið frá einum bæ að smala fje,sem búið var að sleppa, og fundu mjög fátt.

Við lítum e.t.v. betur á málið síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 452
  • Sl. sólarhring: 722
  • Sl. viku: 3575
  • Frá upphafi: 2430103

Annað

  • Innlit í dag: 394
  • Innlit sl. viku: 2987
  • Gestir í dag: 381
  • IP-tölur í dag: 368

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband