Tíu stiga frost í maí?

Þegar þetta er skrifað (mánudagskvöldið 7. maí) er kalt á landinu. Bjart er yfir suðvestanlands og varmatap mikið. Jafnvel er líklegt að frost fari niður fyrir -10 stig einhvers staðar í byggðum landsins. Á hálendinu komst frostið niður í -13,7 stig við Setur síðastliðna nótt. En hversu oft má búast við -10 stiga frosti eða meira í byggðum landsins í maí? Til að komast að því lítum við fyrst á mynd.

w-blogg080412

Lárétti ásinn á myndinni sýnir ártöl en sá lóðrétti er hitakvarði. Súlurnar sýna lægsta hita í byggð í maí á landinu frá 1874 að telja, fram til 2011. Fyrstu átta árin voru engar stöðvar í innsveitum þannig að við sleppum að telja þau ár með hér að neðan - en þau sjást samt á línuritinu. Grímsey á lægsta hita landsins sjö fyrstu maímánuðina, lægst -12,0 stig í maí 1876. Sá mánuður er reyndar þekktastur fyrir vatnavexti og skriðuföll í leysingum.

Eftir 1880 ímyndum við okkur að stöðvadreifingin hafi verið þannig að ámóta líklegt sé að hún næli í lágmörk á svipaðan hátt og nú á dögum. (Það er þó alls ekki víst). Breið lína er dregin í gegnum punktasafnið. Hún heldur sig lengst af á bilinu -7 til -9 stig, tekur mikla dýfu á árunum í kringum 1980 en hækkar síðan aftur. Engar mjög lágar tölur er að finna á síðustu árum, en fáeinar eru þó undir -10 stigum.

Tíu stiga frost hefur ekki komið í byggð í maí frá 2005, þá mældust -10,2 stig á Haugi í Miðfirði, -11 stiga frost hefur ekki komið síðan 1998, þá mældust í -11,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Metið er úr Möðrudal 1977, -17,0 stig og hefur áður komið við sögu á hungurdiskum.

Á þessu tímabili öllu (1874 til 2012) hefur aldrei komið alveg frostlaus maímánuður. Þó munaði litlu í maí 1939, þá var lægsti hitinn -1,7 stig í Reykjahlíð.

Ef við sleppum fyrstu 7 maímánuðunum standa 131 eftir, frost hefur náð -10 stigum í 39 þeirra. það eru 30%. Við teljum því að um það bil þriðjungslíkur séu á -10 stiga frosti í byggð í maí hér á landi. Það eru hins vegar 91% líkur á að frost fari í -5 stig eða meira. Að frostið fari í -15 stig í byggð gerist aðeins einu sinni á hverjum 20 árum að meðaltali.

Hálendisstöðvar (ekki með á myndinni) eiga lægsta hita maímánaðar á hverju ári síðan 1990, jafnkalt var þó í Reykjahlíð og í Sandbúðum í maí 1998. Gagnheiði og Brúarjökull eru frekastar í flokki. Frá og með 1991 hefur það aðeins gerst 5 sinnum að hiti á hálendinu hafi ekki farið niður fyrir -10 stig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir greinargóðar upplýsingar.

Alltaf gaman að lesa pistlana þína.

Þetta með frostið í Möðrudal´77 17 mínus, í maí. Skyldi hann Huang vita af þessu?

Jóhanna (IP-tala skráð) 8.5.2012 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 805
  • Sl. viku: 3519
  • Frá upphafi: 2430566

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2894
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband