Réttu megin rastar

Víða var hlýtt í dag (mánudaginn 30. apríl) enda lá hlýr loftstraumur úr suðvestri austur um landið. Ef trúa má greiningum fór þykktin yfir Suðausturlandi upp fyrir 5520 metra stutta stund síðdegis. Undir kvöld mátti sá stóra flekki af blikuhnoðrum (maríutásu) á norðvesturlofti í gegnum göt á flákaskýjabreiðunni sem annars þakti himininn við Faxaflóa. Breiður blikuhnoðra sjást oft þar sem loft er í þvinguðu, hægu uppstreymi hægra megin við háloftarastir (sé horft í stefnu vindsins).

Á morgun og miðvikudaginn verður röstin enn fyrir norðan land og sýnir kortið ástandið í 300 hPa síðdegis þriðjudaginn 1. maí. Afurðin kemur úr hirlam-líkaninu.

w-blogg010512

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og eru dregnar með 4 dekametra (40 metra) millibili. Þrengsta línan í kringum hæðina fyrir suðvestan land sýnir 9380 metra en flöturinn er lægstur yfir Norður-Grænlandi. Þar sést í 8660 metra jafnhæðarlínuna. Á kortinu eru einnig hefðbundnar vindörvar sem sýna hraða og stefnu en litafletir greina hvar vindurinn er mestur. Í bláu flötunum er hann yfir 120 hnútar (60 m/s).

Heimskautaröstin gengur þvert fyrir kortið með dældum og kryppum, öldudalir og faldar vestanvindabeltisins. Suðvestur af Bretlandseyjum hefur einn dalurinn lokast inni og myndar þar svonefnda afskorna lægð. Slíkar lægðir lifa oft dögum saman. Öldudalurinn suðaustur af Nýfundnalandi er að lokast af og myndar aðra afskorna lægð. Lægðardragið vestan Grænlands slitnar þar með frá og fer hratt austur um Ísland á fimmtudag. Á eftir því fylgir norðanátt og við lendum inni í kalda loftinu.

Hæðin fyrir suðvestan land þokast vestur og á að setjast að við Suður-Grænland. Það er óþægilegur staður fyrir okkur - beint í skotlínu lægðardraga sem þá koma suðaustur yfir Grænland og síðan Ísland. Þetta er sígild vorhretastaða - en þó ekki vís. Miklu máli skiptir hversu öflug lægðardrögin eru og hvar þau stökkva yfir Grænland. Hretloftið kemur ekki ofan af Grænlandi sjálfu heldur ryðst suður með austurströnd þess í kjölfar lægðardraganna. En við höfum ekki áhyggjur af því í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo er að sjá af spám, að kuldaboli eigi að mjaka sér til austurs og hann eða afkvæmi hans taki sér stöðu yfir Barentshafinu. Það ætti að gulltryggja kalda norðaustan átt hér um nokkra hríð? Annars langaði mig til að spyrja um eitt, hvenær og hvort sem þú hefur tök á að svara því. Það er um fyrirbrigði, sem kölluð munu vera á ensku katabatic winds og anabatic winds. Ég var einu sinni að fikta við að læra flug, hætti því að vísu vegna fjárskorts, sem er allt önnur saga, en þar er kennt nokkuð (yfirborðskennt að sjálfsögðu) um veður og veðurkerfi. Ekki fékk ég nógu góða skýringu hjá leiðbeinendum á þessum fyrirbærum, en hef látið mér detta í hug að þetta sé eitthvað í líkingu við sólfarsvinda, sem við þekkjum hér á landi, t.d. það sem kallað er hafgola hér norðanlands en innlögn þar sem ég er uppalinn. Svo þekkist nokkuð sem kallað er Skarðagola hér á Sauðárkróki en mér finnst vera eitthvað svipað og er kallað fjallkast á Snæfellsnesinu. Er ég að vaða reyk þarna eða hvað? Svo væri gaman ef þú sæir þér fært að segja okkur eitthvað um mekanisma þessara fyrirbæra. Þakka svo enn og aftur fyrir frábærar greinar um veðurfar.  

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 11:47

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell - ég þakka enn vinsamleg ummæli. Hugtakið katabatískur vindur er notað um vind sem streymir niður hlíð. Strangt tekið ætti kannski aðeins að nota það um afrennslisvinda þá sem verða til vegna kælingar lofts í neðstu lögum - en fyllsta hreinlætis er nú yfirleitt ekki gætt hvað þetta varðar. Afrennslisvindar geta orðið til á hvaða tíma sólarhrings sem er, þeir eru t.d. ríkjandi meirihluta tímans á jöklum landsins. Anabatískur vindur er strangt tekið ekki heldur sólfarsvindur, í nafninu fellst hreyfing upp á við þannig að dal- eða hlíðavindur væri réttari þýðing. Vindur sem streymir inn á land frá sjó síðdegis að sumarlagi á Sauðárkróki er þannig ekki anabatískur fyrr en hann fer að streyma upp einhverja hlíð vegna upphitunar. Lofthjúpurinn syndir þyngdarlaus í sjálfum sér. Þegar loft í hlíð kólnar meira heldur en land yfir sléttlendi missir það flot og sekkur, þá verður til katabatískur vindur. Loft sem hlýnar yfir fjallshlíð bætir í flot sitt og lyftist. En ég læt e.t.v. ítarlegri skýringar fljóta síðar.

Trausti Jónsson, 3.5.2012 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 158
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 2079
  • Frá upphafi: 2412743

Annað

  • Innlit í dag: 150
  • Innlit sl. viku: 1824
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 131

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband