Hitamet eður ei?

Nú má telja fullljóst að bletturinn Litli-ljótur fer ekki yfir landið með svala sínum. En eins og minnst var á í pistli í gær er hann samt ekki alveg áhrifalaus. Líklega lækkar framhjáganga hans laugardagsþykktina (24. mars) um 20 metra miðað við fyrri spár - án Ljóts. Tuttugu metrar eru ekki nema 1°C á hitamælinum góða - nærri því ekki neitt.

En í mikilli keppni um met munar um allt - líka 1 stig. En þegar þetta er skrifað um miðnætti á föstudagskvöldi er auðvitað ekki komið í ljós hvert laugardagshámarkið verður. Þá kemur í ljós hvort þetta eina auma stig hefur skipt máli.

Á  bloggsíðu nimbusar  er náið fylgst með metunum sem máli skipta og ekki er ástæða til að fjölyrða um þau aðalsmáatriði hér.

En samt verður vel þess virði að fylgjast með hámarkshitanum á laugardag - sunnudagurinn á að verða aðeins slakari - en síðan er annar og stór hlýindaskammtur á mánudag. Best að segja sem minnst um framhaldið nema hvað það er spennandi.

Eftir um það bil viku lýkur síðan hinum formlega vetri og vor tekur við - á pappírnum. Síðastliðið vor voru mikil átök í veðrinu - allir sunnan- og suðvestanstormarnir í apríl og síðan var sturtað niður úr íshafinu eftir miðjan maí. Hvernig verður vorinu varið í ár?

En snúum úr froðu yfir í raunverulegan fróðleik.

Eitt af því sem fylgst er með á vorin er viðsnúningur hringrásarinnar í heiðhvolfinu þegar vindátt snýst úr vestri yfir í austur. Þessi viðsnúningur er mjög snöggur ofan 30 km hæðar en neðar eru skiptin heldur meira hikandi og því meir eftir því sem neðar dregur. Við skulum líta á ástandið í 30 hPa-fletinum eins og gfs-spá bandarísku veðurstofunnar segir það verða síðdegis á laugardag (24. mars).

w-blogg240312

Hungurdiskar fjalla vonandi betur um heiðhvolfið síðar en veðurnörd ættu að leggja aðalatriði þessa korts á minnið. Svartar heildregnar línur sýna hæð 30 hPa-flatarins. Hann er lægstur við L-ið, í um 22,6 km. Á jaðri kortsins er hæðin víða um eða yfir 23,7 km.

Lituðu fletirnir sýna hita. Dekkri blái liturinn sýnir svæði þar sem hann er lægri en -75 stig. Hæstur er hitinn kringum -40 stig við austurströnd Asíu. Þessi staða er venjuleg á þessum tíma árs - það er oftar kaldara atlantshafsmegin heldur en kyrrahafsmegin. Við gætum fjallað um ástæðu þess síðar.

Þegar -75 stiga jafnhitalínan hverfur endanlega af kortinu er greinilega farið að vora í heiðhvolfi. Ekki veit ég hversu lengi vestanröstin í kringum risavaxna lægðina endist í vor en það verður spennandi að fylgjast með því. Að meðaltali verða vindáttarskiptin gjarnan í kringum sumardaginn fyrsta. Veðurnörd ættu ekki að láta þann merka atburð fram hjá sér fara og hungurdiskar gefa málinu auga - leggið þetta (vetrar)kort á minnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 71
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2838
  • Frá upphafi: 2427390

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2541
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband