Fylgst með kuldapollum norðurhvels

Við lítum nú sem oftar á 500 hPa spákort en það gildir um hádegi á fimmtudag (9. febrúar) og sýnir meginhluta hringrásarinnar á norðurhveli.

w-blogg080212a

Að þessu sinni er Kyrrahafið að mestu útundan en að öðru leyti ætti kortið að vera kunnuglegt. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.

Aldrei þessu vant sjáum við nú í fjórðu rauðu línuna, hún kemur fram sem lítill hringur í kringum miðju kuldapollsins mikla við Norður-Labrador og markar 4740 metra hæð flatarins. Oftast nær sést lítið til þessarar línu nema rétt þegar veturinn er í hámarki á norðurhveli. Mikil hlýindi hafa verið í heimskautalöndum Kanada að undanförnu en nú hafa orðið þar mikil umskipti til þess venjulega.

Austanhafs er hins vegar allt með harla óvenjulegum hætti. Við sjáum að enn liggur mikið lægðardrag til vesturs frá sléttum Asíu og vestur um allt Miðjarðarhaf en hæðarhryggur er aftur á móti þar fyrir norðan eins og nú hefur verið um hríð. Breytingar á þessu eru ekki miklar, kuldapollurinn yfir Póllandi fer suður til Miðjarðarhafs og endurnýjar þann sem nú er yfir Alsír. Mjög kalt verður því enn við Miðjarðarhafið og á Balkanskaga - en gríðarlegar rigningar í Grikklandi og víðar. Þar snjóar auðvitað langt niður eftir fjallshlíðum.

Kuldapollurinn norður af Svartahafi á ekki að ógna Vestur-Evrópu að sinni - virðist einna helst stefna til Moskvu næstu daga með ofurlágri þykkt, um 4900 metrum í miðju. Ekki sér enn í lok Evrópukuldans - því hugsanlegt er að næsti kuldapollur komi beint úr norðri og fari suður um. Þótt ekki sé Síberíukuldi þar á ferð er allt sem kaldara er heldur en 5200 metrar algjört eitur í Frakklandi og á öllu svæðinu þar sunnan við. Pólland og innsveitir Balkanskaga eru vanari að bregðast við svo lágri þykkt eða lítið eitt lægri.

En umskipti hafa sem sagt orðið vestanhafs þegar þetta kort gildir. Kuldapollurinn yfir Labrador er gríðarlega öflugur. Því er spáð að 4740 metra jafnþykktarlínan birtist við miðju hans á föstudag eða svo, en hungurdiskar hafa áður kennt hana við ísöldina. Ísaldarlínan sést af og til á kortum um miðjan vetur.

Kuldapollurinn mikli (í fyrra var ámóta pollur kallaður Stóri-Boli hér á hungurdiskum) er á fimmtudaginn orðinn tiltölulega hringlaga og hreyfist ekki mikið meðan svo er. Þó má sjá smáhorn standa út úr honum til vesturs - eitthvað lægðardrag er þar á ferðinni. Meðan Boli hefur hægt um sig ógnar hann okkur ekki - en er í ógnandi stöðu fyrir austurhéruð Kanada og jafnvel norðausturríki Bandaríkjanna. En við skulum ekki velta vöngum yfir því - í bili að minnsta kosti.

Ísland er enn í lægðabraut og fara nú bylgjur yfir landið nánast á hverjum degi. Við lítum nánar á þau mál gefist tilefni til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2382
  • Frá upphafi: 2434824

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2113
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband