Loftþrýstingur í febrúar

Sá sem þetta skrifar hefur nú fylgst náið með veðri í rúm 50 ár. Einhvern veginn varð fljótt til eins konar tilfinning um það hvernig veðrið ætti að vera - hvað væri eðlilegt. En allan þennan tíma hefur gengið á með óvæntum uppákomum. Ein sú óvæntasta var þegar febrúar fór út af sporinu fyrir rúmum 20 árum. Reyndar má segja að aðkenningar hafi þegar orðið vart í febrúar 1982. En lítum á stuðningsmynd.

w-blogg050212

Hún sýnir meðalloftþrýsting í febrúar í nærri 200 ár. Aðaleinkenni myndarinnar er mikið suð - gildin sveiflast út og suður frá ári til árs og ekki mikla reglu að sjá. Um 1960 er þó áberandi klasi af háum gildum, það langhæsta 1965. En þessi háþrýstiklasi er það sem sá sem þetta skrifar ólst upp við ef svo má segja - febrúarmánuðir hlutu að vera svona í eðli sínu. Ef frekar er rýnt í þetta má sjá að háþrýstiklasinn hafði reyndar staðið meira eða minna frá því 1932.

EF við höldum í hina áttina, nær okkur í tíma, sést að á árunum 1971 til 1974 slaknaði á háþrýstingnum og reyndar líka 1967. Enda lentu þessir mánuðir á reynslujaðri, ósjálfrátt taldir lágþrýstimánuðir - febrúar gat varla farið mikið niður fyrir þetta. Að auki náðu töflur Veðráttunnar (tímarits Veðurstofunnar) ekki nema aftur til 1924 og fátt um samanburð fyrir þann tíma.

Svo gerðist það snemma í febrúar 1982 að allt í einu birtist lægð sem fór niður fyrir 930 hPa skammt fyrir sunnan land. Dýpt lægðarinnar þóttu tíðindi út af fyrir sig en að það skyldi gerast í febrúar var enn ólíklegra. Næsta árið rak á hvern stóra lágþrýstiatburðinn af öðrum (ekki þó í febrúar). Um svipað leyti bárust fréttir af því að árið 1981 hefði mælst það hlýjasta sem vitað var um á norðurhveli frá upphafi mælinga. Voru hér einhver tengsl á milli?

Meðalþrýstingur í febrúar 1982 var sá lægsti í þeim mánuði síðan 1922. Var þetta þá 50 ára lágþrýstimánuðurinn? Febrúar árið eftir, 1983 féll hins vegar nær gamla farinu og það virtist staðfestast næstu árin. Í febrúar 1986 var þrýstingur aftur mjög hár, sá langhæsti síðan 1965.

En 1989 birtist allt í einu annar lágþrýstifebrúar - sjónarmun lægri heldur en 1982. Síðan komu stóru tíðindin, 1990 datt út úr kortinu. Meðalloftþrýstingur var þá 10 hPa undir 1982. Þegar upp var staðið kom í ljós að þetta var nýtt met - ekki aðeins fyrir febrúar heldur fyrir alla mánuði ársins. Mjög lágur mánaðarþrýstingur hafði fram að þessu verið talinn mun líklegri í desember eða janúar. Varla nokkur bjóst við því að febrúar stæði í þessu enda er meðalþrýstingur þá ívið hærri heldur í hinum mánuðunum.

En talnaglöggir lesendur munu væntanlega átta sig á því að hér nýtur febrúar smáforskots á hina mánuðina tvo - hann er þremur dögum styttri og þar með aðeins líklegri til útgildameta (að öðru jöfnu).

Síðustu tíu árin eða svo virðist febrúar hafa jafnað sig en það segir auðvitað ekki neitt um framtíðina. En það er samt einkennilegt hvernig há- og lágþrýstingur leggst í væga klasa í tíma.

Eitt atriði enn. Þegar rætt er um þrýsting er NAO-fyrirbrigðið ekki langt undan. Þar sem helsta vísitala þess ræðst að miklu leyti af þrýstingi við Ísland vill það líka leggjast í væga klasa. NAO-vísitalan var þannig mjög lág á meðan háþrýstiskeiðið stóð og mjög há í lágþrýstiklasanum. Í öllum þeim skrifum sem fjallað hafa um NAO virðast sárafáir hafa veitt því eftirtekt að það var einkum febrúar sem var afbrigðilegur meðan á í lágþrýsiklasanum stóð - lágþrýstiskeið vetrarins við N-Atlantshaf lengdist í afturendann - framendinn, í desember, breyttist lítið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2382
  • Frá upphafi: 2434824

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2113
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband