Síðasti mánuður í háloftunum

Það er ómaksins vert (finnst veðurnördum) að líta á ástandið í veðrahvolfinu miðju síðasta mánuðinn og líta á höfuðdrætti loftstrauma. Okkur til aðstoðar höfum við bandarísku veðurstofuna og teiknitól hennar - þau eru ekki sérlega flott en virka.

w-blogg250112a

Við sjáum hér hálft norðurhvel norðan 38. breiddarbaugs. Óþarflega mikið fer fyrir ríkjaskiptingu á kortinu (Júgóslavía og Sovét lifa þar enn - Þýskaland þó sameinað) en aðalatriðið felst í mýkri heildregnu línunum sem sýna hæð 500 hPa-flatarins í metrum. Þar er 5160 metra línan sem liggur um Ísland. Við sjáum kuldapollinn mikla vestan við Grænland en hann hefur samt ekki verið mjög ógnandi í vetur.

Það þarf nokkuð vant auga til að sjá hvað er óvenjulegt á þessu korti. Einkum vekur athygli að flöturinn stendur neðarlega yfir Íslandi og er um 80 metrum undir langtímameðaltali. Með öðrum orðum þá hefur kuldapollurinn breitt úr sér til suðausturs í átt til Íslands meira heldur en algengast er. Þetta þýðir að landið hefur verið meira í leið lofts frá Kanada heldur en venjulega. Meginstrengur vestanvindabeltisins er líka lengra fyrir sunnan land heldur en að meðaltali.

Ameríska endurgreiningin sem oft er minnst á gerir það mögulegt að leita að ættingjum síðasta mánaðar. Við förum þó ekki sérlega nákvæmlega í það en þuklum á heilum janúarmánuðum (það er auðveldara) frekar en þessu ákveðna tímabili sem tekið er fyrir á myndinni.

Leit letingjans finnur fjóra umsækjendur, janúarmánuði áranna 1957, 1925, 1903 og 1887. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið illviðrasamir - illviðrasamari heldur en núlíðandi janúar. Umsagnir þeirra eru svona:

1957: Sæmilega hagstætt framan af, en síðan mjög óhagstætt á S- og V-landi, með mikilli ófærð, illviðrum  og slæmum gæftum. Hlýtt.

1925: Óstöðug tíð og stormasöm. Fremur úrkomusamt, einkum v-lands. Gæftir slæmar. Hiti var yfir meðallagi.

1903: Umhleypingar um miðjan mánuð. Snjór síðari hlutann. Fremur kalt.

1887: Hagleysur og stirð tíð. Mikil útsynningshryðja með mikilli snjókomu sunnan- og vestanlands síðustu vikuna.

2012: Umhleypingar, hagleysur og stirð tíð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manni hefur sýnst í vetur (des.) að vindstrengurinn fyrir sunnan lands hafi flutt með sér "arfavitlausar" lægðir sem við sluppum við en verið í staðviðri og kuldum í staðinn.  Eftir þessum pælingum er þetta ekki að hjálpa okkur í janúar þó svo að vindstrengurinn sé fyrir sunnan land. Er ástæðan þá sú að kalda loftið fyrir vestan Grænland er farið að smá spýast inn í vindstrenginn og valda hér éljakendum og tætingslegum illviðrum? (ofan í kuldann)  Góðu fréttirnar eru þá þær að við losnum við virkilegar óveðurslægði(sem þjóta með vindstrengnum yfir Færeyinga,Breta og Norðmenn),eða hvað?  7,9,13.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 09:13

2 identicon

Trausti, hvernig var veðráttan eftir þessa janúarmánuði þau ár sem þú upptelur?

Eða má búast við áframhaldandi útsynningi, hryðjum, og mikilli snjókomu það sem eftirlifir vetrar? - þ.e. áframhaldani leiðnaveðráttu?

Jón Börkur (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 12:18

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hafi þessir mánuðir verið ættingjar þá er samt ýmislegt sem ekki er líkt með þeim og maður spyr sig hvað veldur slíkum mun milli ættingja. Hitamunurinn milli hlýja janúar 1957 og kalda janúar 1903 var heil þrjú stig og gaman væri  að vita hvað veldur slíkum mun á mánuðum sem samt líkjast hvor öðrum. Og utan dagskrár: Febrúar 1957 var annálaður snjóamánuður suðvestanlands.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.1.2012 kl. 12:28

4 identicon

Það er nefnilega það, Sigurður Þór. 

Þannig að við eigum ekki von á góðu í febrúar, snjór, meiri snjór, og enn meiri snjór, nóg af snjó, fullt af snjó og enn meiri snjór í febrúar.

Jón Börkur (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 12:42

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í febrúar 1957 var alhvítt allan mánuðinn í Reykjavík, eini mánuður ársins sem hefur verið það nokkru sinni! En við viljum vona að sagan endurtaki sig ekki  alveg orðrétt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.1.2012 kl. 15:25

6 identicon

Þetta er nú að verða meiri skítaveturinn.  Alltaf snjór og eilífur snjór.  Ég hata snjó.

Já, Sigurður, við skulum vona að febrúar 1957 endurtaki sig ekki nú í ár.  En ansi er ég nú hærddur um að það verði nú raunin.

Þegar svona veðrakerfi koma þá eiga þau það til að festa sig í sessi og verða þrásetinn.  Þetta veðrakerfi hefur brátt lifað nær óbreytt í á 3ja mánuð og virðist ekkert á förum, því miður.

Jón Börkur (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 16:53

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Bjarni. Já mestu illviðrin hafa flest farið fyrir sunnan land - helst að Austurland hafi orðið vart við þau. Aðrir landshlutar hafa þó ekki verið illviðralausir - síður en svo. Ættarsvipur er oft með mjög misstórum mönnum. En ég held að endurgreiningin ofmeti hæð 500 hPa flatarins í janúar 1903 - en ættarsvipurinn er engu að síður til staðar, kuldi að vestan. Janúar 1957 var mjög kaflaskiptur mánuður - illviðrin um miðjan mánuð og í síðustu vikunni voru t.d. á sitthvorum enda loftþrýstirófsins. Febrúar 1887, 1903, 1925 og 1957 voru ólíkir en eftirmæli þeirra benda samt til umhleypinga. Mig minnir að leiðindin í febrúar 1957 hafi aðallega stafað af snjónum mikla sem féll síðustu viku janúarmánaðar og ekki fór eins og Sigurður bendir á. Þetta er í eina skiptið sem ég man eftir jarðýtu í djúpum snjóruðningum í Stafholtstungum í Borgarfirði - en trúlega hefur það samt gerst oftar.

Trausti Jónsson, 26.1.2012 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband