Háreistar bylgjur

Umhleypingarnir halda áfram og lítið lát virðist á greiðum bylgjugangi heimskautarastarinnar austur um Atlantshaf. Bylgjurnar eru þó misstórar. Fyrirsögnin segir bylgjurnar hárreistar en það er e.t.v. ekki sem nákvæmast orðalag - en hentugt samt. Á kortum sjást þær sem hlykkir til norðurs og suðurs og öldufaldar snúa til norðurs (og þar með upp á kortunum samkvæmt venju) en öldudalir teygja sig suður á bóginn. Lítum á 300 hPa spá sem gildir fyrir síðdegi laugardagsins 7. janúar.

w-blogg070112

Á kortinu er öldufaldur yfir Íslandi og berst hann hratt til austurs og öldudalur fylgir á eftir. Skammvinn hláka fylgir hryggnum - hún er öflugust á sunnanáttarhlið hans - sem verður yfir landinu á aðfaranótt sunnudags. Jafnhæðarlínur 300 hPa flatarins eru svartar og heildregnar, vindátt og vindhraði eru táknuð með hefðbundnum vindörvum og lituðu svæðin sýna hvar vindurinn er mestur. Hér er mælieiningin hnútar - þeir eru enn notaðir í flugi.

Við sjáum næstu öldu yfir Lárentsflóa vestur af Nýfundnalandi. Hún á ekki að verða jafn háreist eins og sú á undan. Áður en nákvæmar tölvuspár komu til sögunnar var mjög erfitt að ráða í slíkt - e.t.v. gátu reynslumestu spáveðurfræðingar séð það fyrir - en ekki með neinni vissu.

Það er þó aldrei þannig að tölvuspánum fylgi algjör vissa en fyrir utan spána um mánudagshrygginn (hálfmisheppnaða) segja þær nú að kuldapollurinn mikli (Stóri-Boli) færi sig aðeins um set nær Vestur-Grænlandi næstu daga. Hann lemur hrygginn nýja þarmeð niður og lægðin sem fylgir í kjölfarið (á mánudagskvöld) á að fara á miklum hraða til austnorðausturs rétt fyrir sunnan land.

Við fylgjumst auðvitað spennt með því - lægðin gæti auðvitað farið aðeins norðar. En þriggja daga tölvuspár eru nú á tímum orðnar nokkuð hittnar á réttar lægðaleiðir.

En sunnudagshlákan er skammvinn og gerir lítið í klakamálunum - helst að hann minnki aðeins í halla þar sem bræðsluvatn getur runnið burt. Þar sem það getur það ekki bíður það bara næsta frosts og nýrra klakalífdaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vafalaust er það vegna heimsku minnar og skilningsleysis sem það hefur aldrei komist inn fyrir mínar þykku höfuðskeljar hversvegna hann Kuldaboli, bölvaður, er svona gjarn á að setjast að þarna við vestan- og norðvestanvert Grænland?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 10:51

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell. Þetta uppáhaldssvæði kuldans er þar sem langt er í opið haf, oftast léttskýjað og varmatap mjög mikið - meira heldur en annars staðar. Þótt kuldapollar flytji sig um set myndast jafnharðan nýjir á svipuðum slóðum. En vonandi koma ítarlegri skýringar hér síðar.

Trausti Jónsson, 8.1.2012 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 689
  • Sl. sólarhring: 801
  • Sl. viku: 2484
  • Frá upphafi: 2413504

Annað

  • Innlit í dag: 645
  • Innlit sl. viku: 2245
  • Gestir í dag: 633
  • IP-tölur í dag: 617

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband